Skráning er hafin á 17. Unglingalandsmót UMFÍ sem haldið verður um verslunarmannahelgina á Sauðárkróki.
Skráningarfrestur er til miðnættis sunnudaginn 27. júlí.

Fleiri keppnisgreinar verða á mótinu á Sauðárkróki en nokkru sinni fyrr. Auk hefðbundinna greina eins og fótbolta, körfubolta, frjálsíþrótta, sunds og glímu verða nokkrar nýjar greinar. Má þar nefna bogfimi, siglingar og tölvuleiki. Auk þess verður keppt í motocrossi, dansi, golfi, hestaíþróttum, skák, stafsetningu, upplestri og strandblaki. Fatlaðir einstaklingar munu keppa í frjálsum og sundi.


Afþreyingardagskrá Unglingalandsmótsins er metnaðarfull. Í boði er m.a. þrautarbraut fyrir alla aldurshópa, útibíó, leiktæki og andlitsmálun fyrir yngstu kynslóðina. Þrjár smiðjur verða starfræktar, en það eru söngsmiðja, myndlistarsmiðja og leiklistarsmiðja. Gönguferðir verða um bæinn og nágrenni Sauðárkróks, júdókynning, knattþrautir KSÍ, tennisleiðsögn og kynning á parkour, sumbafitness, markaðstorg, popping-kennsla og opið golfmót.


Á hverju kvöldi verða glæsilegar kvöldvökur þar sem margir af okkar þekktustu tónlistarmönnum koma fram. Má þar nefna Jón Jónsson, Sverri Bergmann, Þórunni Antoníu, Friðrik Dór, Úlf Úlf og Magna Ásgeirsson.

Nánar

 Stjórn Héraðssambands Vestfjarða (HSV) auglýsir eftir framkvæmdastjóra.


HSV er með starfssvæði í Ísafjarðarbæ og Súðavíkurhreppi og hefur 18 virk aðildarfélög innan sinna vébanda. Sambandið vinnur náið með sveitarfélögunum tveimur að uppbyggingu íþróttamála á svæðinu ásamt því að vinna með aðildarfélögum að framgangi einstakra íþróttagreina.


Framkvæmdastjóri er starfsmaður stjórnar HSV og ber ábyrgð á daglegum rekstri ásamt samskiptum við sveitarfélög, aðildarfélög og aðra hagsmunaaðila innan íþróttahreyfingarinnar.

Helstu verkefni:

  • Umsjón með rekstri HSV ásamt áætlunargerð.
  • Eftirfylgni með framkvæmd Íþróttaskóla HSV.
  • Samskipti við Ísafjarðarbæ og eftirfylgni með framkvæmd samninga við bæjarfélagið.
  • Samskipti við aðildarfélög HSV.
  • Samskipti við UMFÍ, ÍSÍ og sérsambönd.
  • Samskipti við stjórn HSV.

Starfsmaðurinn sem við erum að leita að þarf:

  • Háskólagráðu sem nýtist í starfi.
  • Reynslu af rekstri.
  • Að elska íþróttir.
  • Að vera skipulagður.
  • Að geta komið fyrir sig orði í ræðu og riti.
  • Að vera jákvæður og með ríka þjónustulund.
  • Að vera tölvufær og geta unnið í helstu skrifstofuforritum ásamt því að hafa grunnþekkingu í að vinna með heimasíður.

 

Með umsókn skulu eftirfarandi gögn fylgja:

  • Afrit af prófskírteinum.
  • Meðmæli eða umsagnir um fyrri störf umsækjanda.


Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf 1. ágúst.

Stjórn HSV áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Umsóknir skulu berast á netfangið hsv@hsv.is eða í pósthólf 90 - 400 Ísafjörður.

Umsóknarfrestur er til og með 15. júlí.

Allar upplýsingar gefur Pétur G. Markan í síma 698- 4842 og 450- 8450 og Guðný Stefanía Stefánsdóttir, formaður HSV, í síma 861 - 1072.

Nánar

14. Héraðsþing HSV var haldið í Háskólasetri Vestfjarða. Tókst þingið vel í alla staði. Þingforseti var Marinó Hákonarson sem hélt utan um þingið og stýrði því með myndarbrag. Lagðir voru fram ársreikningar ársins 2013, sem sýna að rekstur HSV var í góðum höndum og gott jafnvægi fjármálum sambandsins. Þá var lögð fram skýrsla stjórnar sem sýndi gróskumikið starf síðasta árs.


Jón Páll Hreinsson lét af störfum sem formaður eftir átta ára setu og var honum þakkað og hælt víxl gegnumgangandi allt þingið, enda hefur hann verið mikill og farsæll leiðtogi HSV þennan tíma. Nýr formaður var kjörin Guðný Stefanía Stefánsdóttir.


Sæmundur Runólfsson, framkvæmdastjóri UMFÍ, ávarpaði þingið og sæmdi Jón Pál Hreinsson gullmerki UMFÍ.  Veitt voru starfsmerkiUMFÍ sem komu í hlut Önnu Lindar Ragnarsdóttur og Huldu Gunnarsdóttir fyrir áralangt gott starf innan ungmennahreyfingarinnar, sem burðarásar í starfi ungmennafélagsins Geisla Súðavík. Þá voru veitt tvö silfurmerki HSV, en það voru Óðinn Gestsson og Ingólfur sem fengu þau fyrir gott starf innan HSV. Þá hlaut Jóhann Króknes Torfason gullmerki HSV fyrir langt óeigingjarnt starf í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Nánar
4. Landsmót UMFÍ 50+ verður haldið á Húsavík dagana 20.-22. júní.

Skráningar fyrir mótið eru nú í fullum gangi.

Á Landsmótinu UMFÍ 50+ á Húsavík verður keppt í yfir tuttugu greinum svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.


Héraðssamband Þingeyinga (HSÞ) er mótshaldari að Landsmóti UMFÍ 50+ árið 2014. HSÞ Hefur áður haldið Landsmót en það var árið 1987. HSÞ hefur því reynslu að því að halda Landsmót.

Mótið fer að mestu fram á Húsavík. Aðstaðan á Húsavík er góð til að halda Landsmót UMFÍ 50+. Stórt íþróttahús er á staðnum en þar munu fara fram fjölmargar keppnisgreinar. Frjálsíþróttavöllurinn er ekki langt frá íþróttahúsinu sem er með malarbraut. Góður fótboltavöllur er á frjálsíþróttavellinum en þar fyrir ofan eru nýir gervigrasvellir.


Glæsilegur 9 holu gorvöllur er rétt fyrir utan Húsavík. Einnig eru góð skólahúsnæði sem notuð verða um helgina fyrir keppnisgreinar. Fyrirhugaðar keppnisgreinar á mótinu eru: Almenningshlaup – boccia – blak –bidds – bogfimi – frjálsar – golf – hestaíþróttir – sýningaratriði, línudans – pútt – ringó – skák – sund – starfsíþróttir – skotfimi- stígvélakast-þríþraut.




Nánar

Stjórn HSV minnir á Héraðsþing sambandsins sem haldið verður í Háskólasetri Vestfjarða (ATH breytta staðsetningu), fimmtudaginn 5. júní 2014 og hefst kl. 18.00. 

Nánar