Ársþing HSV 2018 var haldið í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði 9. maí kl. 17. Á þinginu var kosinn nýr fomaður HSV. Guðný Stefanía Stefánsdóttir sem verið hefur formaður HSV síðustu fjögur ár gaf ekki kost á sér til áframhaldandi starfa. Eitt framboð barst til formanns og var Ásgerður Þorleifsdóttir kjörin með lófaklappi. Úr stjórn gekk Páll Janus Þórðarson og í hans stað var kjörinn Baldur Ingi Jónasson.

Stjórn HSV er nú þannig skipuð:

Ásgerður Þorleifsdóttir formaður

Hildur Elísabet Pétursdóttir

Karl Ásgeirsson

Ingi Björn Guðnason

Baldur Ingi Jónasson

 Í varastjórn voru endurkjörin Heimir Hansson og Elísa Stefánsdóttir. Elín Marta Eiríksdóttir gaf ekki kost á sér til endurkjörs og í hennar stað var kosin Karlotta Dúfa Markan.

Á þinginu var samþykkt lagabreytingatillaga frá stjórn sambandsins þar sem lagt var til að bæta inn í lög sambansins ákvæði um að geri félag ekki skil á ársskýrslum á réttum tíma tvö ár í röð megi vísa því úr sambandinu. Einnig voru samþykktar almennar tillögur sem bárust þingi. Meðal annars samþykkti þingið að HSV myndi sækja um að halda unglingalandsmót UMFÍ árið 2021 í Ísafjarðarbæ og samþykkt var tillaga frá Vestra um að hvetja stjórnir allra héraðssambanda á Vestfjörðum að kanna kosti og galla sameiningar, allra eða hluta af héraðssamböndunum. Einnig samþykkti þingið að hvetja öll íþróttafélög sambandsins til að taka föstum tökum mál er varða ofbeldisbrot, einelti, kynferðislegt og kynbundið áreiti með það að leiðarljósi að tryggja öryggi, jafnrétti og jafnræði þeirra sem iðka og starfa innan félaganna. Koma upp viðbragsáætlunum við hvers kyns ofbeldi og útbúa verkferla til úrlausnar í samvinnu við yfirstjórn íþróttahreyfingarinnar.

 Nokkur umræða var um inneignir sem skapast hafa þegar félögum er ekki greiddur út lottóstyrkur vegna vanhalda á skýrsluskilum. Lögin kveða á um að sú fjárhæð eigi að leggjast inn á Afrekssjóð HSV en það hefur ekki verið gert. Var að lokum samþykkt tillaga sem veitti stjórn HSV óskorað umboð til að ganga frá þeim greiðslum til afrekssjóðs afturvirkt.

 

 Veitt voru 10 starfsmerki á þinginu.

8 hlutu silfurmerki HSV og

2 hlutu gullmerki HSV

 

Að auki hlaut Guðný Stefanía Stefánsdóttir gullmerki ÍSÍ og var það Ingi Þór Ágústsson stjórnarmaður ÍSÍ sem afhenti það.