Stjórn Héraðssambands Vestfirðinga auglýsir 100% starf yfirþjálfara Íþróttaskóla HSV laust til umsóknar. HSV er með starfssvæði í Ísafjarðarbæ og Súðarvíkurhrepp og hefur 15 virk aðildarfélög innan sinna vébanda. Sambandið vinnur náið með sveitarfélögunum tveimur að uppbyggingu íþróttamála á svæðinu ásamt því að vinna með aðildarfélögum að framgangi einstakra íþróttagreina.

Íþróttaskóli HSV var settur á fót haustið 2011 og er samstarfsverkefni HSV, aðildarfélaga HSV og Ísafjarðarbæjar. Skólinn er fyrir öll börn 1.-4. bekkjar í grunnskólum Ísafjarðarbæjar. Lögð er áhersla á grunnþjálfun og að börnin fái þjálfun í flestum þeim íþróttagreinum sem í boði eru á eldri stigum aðildarfélaga HSV. Ísafjarðarbær styður verkefnið og er skólinn ein af grunnstoðum í samstarfssamningi Ísafjarðarbæjar og HSV sem fyrst var undirritaður veturinn 2010-2011.

Markmið skólans eru að:

 • hvetja og fá sem allra flest börn til að iðka íþróttir
 • fyrstu kynni barna af íþróttaiðkun séu jákvæð
 • börn fái tækifæri til að kynnast sem flestum íþróttagreinum
 • auka gæði þjálfunar
 • lækka kostnað heimila við íþróttaiðkun barna
 • auka grunnþjálfunarhluta æfinga, almenna hreyfingu, hreyfiþroska og hreyfigetu

Yfirþjálfari Íþróttaskóla HSV ber ábyrgð á daglegum rekstri hans ásamt samskiptum við Ísafjarðarbæ, aðildarfélög, foreldra og börn í skólanum.

Helstu verkefni:

 • yfirumsjón með öllu daglegu starfi Íþróttaskóla HSV, skipulagi, þjálfaramálum og stundaskrárgerð
 • umsjón með grunnþjálfun barna í 1.-4. bekk og boltaþjálfun barna í 1.-2. bekk ásamt annarri þjálfun sem við á í samstarfi við aðildarfélög HSV
 • skipulagning og eftirlit með framkvæmd þjálfunar íþróttagreina í skólanum
 • umsjón með heimasíðu Íþróttaskólans og fréttum honum tengdar
 • samskipti við aðildarfélög, þjálfara aðildarfélaga, dægradvöl, foreldra og forráðamenn barna í Íþróttaskólanum
 • halda utan um skráningar og skráningakerfi skólans

Hæfnikröfur:

Leitað er að einstaklingi með reynslu af þjálfun barna. Íþróttakennaramenntun, þjálfaramenntun eða önnur menntun sem nýtist í starfi er kostur en ekki skilyrði. Yfirþjálfarinn þarf að vera fyrirmynd fyrir börn og fullorðna og koma vel fyrir. Jákvætt hugarfar, sjálfstæð vinnubrögð, góð samskiptafærni, sveigjanleiki og ríkur vilji til að vinna með börnum eru skilyrði. Áhugi á uppbyggingu íþróttastarfs í Ísafjarðarbæ er mikilvægur kostur.

Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags. Æskilegast að viðkomandi geti hafið störf 1. janúar 2019 eða eftir nánara samkomulagi.

Umsóknarfrestur er til 5. nóvember 2018.

Nánari upplýsingar um starfið gefur Ásgerður Þorleifsdóttir formaður HSV í s. 697-7867, eða í gegnum tölvupóstfangið formadur@hsv.is. Umsóknir skulu berast til Sigríðar Láru Gunnlaugsdóttur framkvæmdastjóra HSV í netfangið hsv@hsv.is. Með umsókn skal fylgja ferilskrá.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Stjórn HSV áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

 
 
 
Nánar
1 af 3

Í dag var skrifað undir samkomulag um að Ísafjarðarbær verði heilsueflandi samfélag. Undirritunin fór fram út í Krók og var nýji göngustígurinn frá Króknum niður í Norðurtanga formlega vígður á sama tíma. Það voru félagar úr íþróttafélaginu Kubba ásamt börnum af Tanga sem klipptu á borða og gengu saman eftir stígnum.

Nánar

Íbúafundir vegna endurskoðunar íþrótta- og tómstundastefnu Ísafjarðarbæjar verða haldnir á þremur stöðum klukkan 17 á morgun, þriðjudaginn 16. október. Fundirnir verða í Grunnskólanum á Suðureyri, Grunnskóla Önundarfjarðar og Grunnskólanum á Þingeyri. Gera má ráð fyrir að fundirnir standi í um tvær klukkustundir og eru áhugasamir á öllum aldri boðnir hjartanlega velkomnir til skrafs og ráðagerða.
Sambærilegur fundur verður síðan haldinn á 4. hæð Stjórnsýsluhússins á Ísafirði þriðjudaginn 30. október klukkan 17.

núverandi stefnu má nálgast hér: 

https://www.isafjordur.is/static/files/UtgefidEfni/Stefnur/ithrotta-_og_tomstundastefna.pdf

HSV hvetur fólk til að mæta og taka þátt í mótun stefnunnar.

Nánar

Afreksform HSV 2018-2019

Fyrir iðkendur aðildarfélaga HSV fædd 2006-2003.

Staðsetning: Sjúkraþjálfunar Vestfjarða

Þjálfarar: Tómas Emil Guðmundsson og Atli Þór Jakobsson sjúkraþjálfarar.

Tímasetning: Mánudagar og fimmtudagar 14:50 – 15:50, frá 17. september til 20. desember. Frístundarúta fer frá Bolungarvík kl. 14.30 og aftur frá Torfnesi kl. 16.00.

Verð: Haustönn kr. 8.000

Markmið: Er fyrst og fremst að stýra betur álagi hjá ungum íþróttaiðkendum og lækka meiðslatíðni. Ennfremur að auka gæði þjálfunar hjá þessum aldurshóp og minnka brottfall unglinga með markvissari og fjölbreyttari þjálfun.

Fyrirkomulag

Í tímunum er boðið upp á fjölbreyttar æfingar sem miða að því að bæta snerpu,  sprengikraft, úthald, liðleika og styrk iðkendanna undir stjórn sjúkraþjálfara. Þjálfarar munu einnig skima hópinn til að finna út styrkleika og veikleika hvers og eins og hjálpa krökkunum að vinna sérstaklega með þá þætti.

Iðkendur fá fræðslu um hvernig og hversu mikið sé rétt að æfa miðað við aldur og líkamsburði og mikil áhersla er lögð á að iðkendurnir læri að gera æfingarnar rétt. Þar með minnka líkur á einkennum ofálags á þeim aldri þegar krakkarnir eru að taka út mestan vöxt.

Þarna koma saman ungir iðkendur ólíkra íþróttagreina. Þannig næst betri yfirsýn yfir æfingaálag auk þess sem þátttaka þvert á íþróttagreinar styrkja félagslega þáttinn í íþróttiðkun hjá fámennum félögum í litlu samfélagi.

Skráning

Til að taka þátt þarf að skrá sig í skráningarkerfinu á heimasíðu HSV. Þetta er sama kerfi og notað er fyrir íþróttaskólann. Farið er inn á www.hsv.is og þar valið; skráning iðkenda.

Verð er kr. 8.000 fyrir önnina og er hægt að skipta greiðslu í tvennt.

Ekki er hægt að taka þátt í þessum æfingum ef börnin hafa ekki verið skráð á námskeiðið. Opið er fyrir skráningar til miðvikudagsins 26. september.

Nánar

Körfuknattleiksdeild Vestra býður alla káta krakka og foreldra þeirra velkomna á hinn árlega Körfuboltadag miðvikudaginn 5. september kl 18.00-19:30. á körfuboltadeginum eru línur lagðar og vetrarstarf deildarinnar kynnt. Börn í 4. bekk og yngri æfa gjaldfrjálst allan veturinn en nýliðar í eldri árgöngum æfa endurgjaldslaust í tvo mánuði og fá þannig góðan tíma til að sjá hvort karfan passar þeim.

Verið velkomin í körfu

Nánar