Tveir keppendur kepptu fyrir hönd Skotíþróttafélags Ísafjarðar (Skotís) innan HSV á Íslandsmóti ungmenna í bogfimi um helgina með góðum árangri. Maria Kozak og Kristjana Rögn Andersen kepptu báðar í berbogaflokki U18 á mótinu og unnu titilinn í liðakeppni berboga U18 ásamt því að slá Íslandsmet í liðakeppni U18 berboga kvenna.

Frá þessu er greint á vefsíðu Bogfimisambandsins.

Maria Kozak vann tvo einstaklings Íslandsmeistaratitila, U18 kvenna og U18 unisex og vert að geta að í báðum tilfellum vann hún í gull úrslita leiknum gegn liðsfélagasínum Kristjönu. Þetta er í fyrsta sinn sem einnig er keppt á Íslandsmótum ungmenna um Íslandsmeistaratitil óháðan kyni, en þeirri viðbót var m.a. bætt við í reglurnar til þess að stuðla að aðgengi og þátttöku þeirra sem eru skráðir með þriðju kynskráningu í þjóðskrá. Einn slíkur keppandi var á mótinu sem setti Íslandsmetið í trissuboga U18 kynsegin/annað.

Skotís hefur ekki unnið einstaklings Íslandsmeistaratitil ungmenna í meira en 6 ár og því sterk frammistaða hjá félaginu með efnilega keppendur að koma inn með 3 titla, 2 silfur og 1 Íslandsmet á þessu móti.

  • Íslandsmeistari U18 berboga kvenna Maria Kozak
  • Íslandsmeistari U18 berboga Maria Kozak (óháð kyni)
  • Íslandsmeistari U18 berboga kvenna liðakeppni Skotís  (Maria Kozak og Kristjana Rögn Andersen).
  • Íslandsmet undankeppni liða U18 berboga kvenna 811 stig

Báðar stelpurnar hafa lýst yfir áhuga á því að keppa á Norðurlandameistaramóti ungmenna í Noregi í júlí næstkomandi og það verður spennandi að sjá árangur þeirra þar ef þær ákveða að leggja í för þanngað.

Nánar

Skíðagöngumaðurinn Dagur Benediktsson var útnefndur íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2022 í gær, sunnudaginn 8. janúar. 

Dagur var tilnefndur af Skíðafélagi Ísfirðinga og í rökstuðningi segir:

Dagur hefur æft skíðagöngu með SFÍ frá unga aldri og keppir nú um allan heim fyrir hönd Ísfirðinga. Hann hefur lagt mikið á sig til að komast á þennan stað sem hann er í dag enda krefst það gífurlegs sjálfsaga að komast langt í einstaklingsíþrótt. Til að mynda ver Dagur yfir 700 klst. í æfingar á ári sem er að meðaltali um 2 klst á dag, alla daga ársins. Hann er mikil fyrirmynd fyrir krakkana í SFÍ og passar að kíkja á æfingar þeirra þegar hann er staddur á svæðinu. Dagur er í A-landsliðinu í skíðagöngu og keppir á mörgum helstu stórmótum heims, enda er hann einn af topp þremur Íslendingum á heimslista í skíðagöngu karla. Hann vann til fjölda verðlauna á síðasta ári og má þá helst nefna að hann var annar í mark af öllum í 50 km Fossavatnsgöngu.

Til gamans má geta þess að fyrir 40 árum, í febrúar 1983, hlaut móðir Dags, Stella Hjaltadóttir, útnefninguna íþróttamaður Ísafjarðar.

 Frétt úr Ísfirðingi, 11. mars 1983.

Við sama tilefni var efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2022 einnig útnefndur og féll titillinn í skaut Grétars Smára Samúelssonar, en Grétar stundar skíðagöngu af miklu kappi. Í rökstuðningi SFÍ segir að hann hafi náð frábærum árangri á síðasta ári og unnið allar þær greinar sem hægt er að vinna á skíðagöngumótum fyrir hans aldur auk þess að vera í öðru sæti af 125 keppendum í 25 km hefðbundinni göngu í Fossavatnsgöngunni. 

Grétar Smári og Dagur.

Þá voru veittar viðurkenningar þeim sem hlutu tilnefningu frá sínu íþróttafélagi í báðum flokkum.

Tilnefningar í kjörinu um íþróttamann Ísafjarðarbæjar

Karen Rós Valsdóttir – Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar
Jón Gunnar K. Shiransson – Golfklúbbur Ísafjarðar
James M. Parilla f.h. Hilmis Hallgrímssonar – Körfuknattleiksdeild Vestra
Grétar Logi Sigurðsson f.h. Hafsteins Más Sigurðssonar – Blakdeild Vestra
Dagur Benediktsson – Skíðafélag Ísfirðinga
Jón Hálfdán Pétursson f.h. Nicolaj Madsen – Knattspyrnudeild Vestra
Stefán Freyr Jónsson f.h. Rolands Lebedevs – Handknattleiksdeild Harðar

Tilnefningar í kjörinu um efnilegasta íþróttamann Ísafjarðarbæjar

Sverrir Bjarki Svavarsson – Blakdeild Vestra
Pétur Þór Jónsson – Handknattleiksdeild Harðar
Karen Rós Valsdóttir – Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar
Hjálmar Helgi Jakobsson – Golfklúbbur Ísafjarðar
Haukur Fjölnisson – Körfuknattleiksdeild Vestra
Grétar Smári Samúelsson – Skíðafélag Ísfirðinga
Ekki á mynd: Marvin Darri Steinarsson – Knattspyrnudeild Vestra

Nánar

Siglingafélagið Sæfari er með opnar kayak æfingar í sundhöll Ísafjarðar alla fimmtudaga frá kl. 16:00 til 18:00

Áhugasamir eru hvattir til að koma og prufa. Ekki aldurstakmark, mikilvægt að vera syndur.

 

Einnig eru æfingar alla sunnudaga á vegum Sæfara þar sem róið er á pollinum - frá Sæfara

Róið er frá kl. 11:00 í u.þ.b. þrjá klukkutíma. 18 ára og eldri hvattir til að koma og taka þátt.

 

Þið finnið -Sæfari Ísafjörður- á facebook

 

 

Nánar

Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2022 verður útnefndur í hófi á 4. hæð Stjórnsýsluhússins á Ísafirði sunnudaginn 8. janúar klukkan 15. Viðburðurinn er öllum opinn.

Eftirtalin eru tilnefnd í kjörinu um íþróttamann Ísafjarðarbæjar

Nicolaj Madsen – Knattspyrnudeild Vestra
Dagur Benediktsson – Skíðafélag Ísfirðinga
Hilmir Hallgrímsson – Körfuknattleiksdeild Vestra
Jón Gunnar K. Shiransson – Golfklúbbur Ísafjarðar
Hafsteinn Már Sigurðsson – Blakdeild Vestra
Karen Rós Valsdóttir – Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar
Rolands Lebedevs – Handknattleiksdeild Harðar

Eftirtalin eru tilnefnd í kjörinu um efnilegasta íþróttamann Ísafjarðarbæjar

Hjálmar Helgi Jakobsson – Golfklúbbur Ísafjarðar
Haukur Fjölnisson – Körfuknattleiksdeild Vestra
Karen Rós Valsdóttir – Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar
Sverrir Bjarki Svavarsson – Blakdeild Vestra
Pétur Þór Jónsson - Handknattleiksdeild Harðar
Grétar Smári Samúelsson – Skíðafélag Ísfirðinga
Marvin Darri Steinarsson – Knattspyrnudeild Vestra

Einnig verða veitt hvatningarverðlaun fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþróttahreyfingarinnar á viðburðinum.

Nánar

Stjórn Héraðssamband Vestfjarða auglýsir 100% starf yfirþjálfara Íþróttaskóla HSV laust til umsóknar. HSV er með starfssvæði í Ísafjarðarbæ og Súðavíkurhrepp og hefur 13 virk aðildarfélög innan sinna vébanda. Sambandið vinnur náið með sveitarfélögunum tveimur að uppbyggingu íþróttamála á svæðinu ásamt því að vinna með aðildarfélögum að framgangi einstakra íþróttagreina.

Íþróttaskóli HSV var settur á fót haustið 2011 og er samstarfsverkefni HSV, aðildarfélaga HSV og Ísafjarðarbæjar. Skólinn er fyrir öll börn í 1-4. bekk grunnskóla Ísafjarðarbæjar. Lögð er áhersla á grunnþjálfun og að börnin fái þjálfun í flestum þeim íþróttagreinum sem í boði eru á eldri stigum aðildarfélaga. Ísafjarðarbær styður verkefnið og var stofnun skólans ein af grunnstoðum í samstarfssamningi Ísafjarðarbæjar og HSV sem fyrst var undirritaður vetur 2010-2011.

Markmið skólans eru.

  • Hvetja og fá sem allra flest börn til að iðka íþróttir
  • Fyrstu kynni barna af íþróttaiðkun sé jákvæð
  • Börn fái tækifæri til að kynnast sem flestum íþróttagreinum
  • Auka gæði þjálfunar
  • Lækka kostnað heimila við íþróttaiðkun barna
  • Auka grunnþjálfunarhluta æfinga, almenna hreyfingu, hreyfiþroska og hreyfigetu.

 

Yfirþjálfari íþróttaskóla HSV ber ábyrgð á daglegum rekstri hans ásamt samskiptum við Ísafjarðarbæ, aðildarfélög, foreldra og börn í skólanum.

Helstu verkefni:

  • Yfirumsjón með öllu daglegu starfi Íþróttaskóla HSV, skipulagi, þjálfaramálum og stundaskrárgerð
  • Umsjón með grunnþjálfun barna í 1.-4. Bekk og þjálfun barna í 1.-2. Bekk ásamt annarri þjálfun sem við á í samstarfi við aðildarfélög HSV
  • Skipulagning og eftirlit með framkvæmd þjálfunar íþróttagreina í skólanum
  • Umsjón með heimasíðu Íþróttaskólans og fréttum honum tengdar
  • Samskipti við aðildarfélög, þjálfara aðildarfélaga, dægradvöl, foreldrar og forráðamenn barna í Íþróttaskólanum
  • Halda utan um skráningar og skráningarkerfi skólans
  • Yfirumsjón með leikjanámskeið HSV

 

Hæfnikröfur:

Leitað er að einstaklingi með reynslu af þjálfum barna. Íþróttakennaramenntun, þjálfaramenntun eða önnur menntun sem nýtist í starfi er kostur en ekki skilyrði. Yfirþjálfarinn þarf að vera fyrirmynd fyrir börn og fullorðna og koma vel fyrir. Jákvætt hugarfar, sjálfstæð vinnubrögð, góð samskiptafærni, sveigjanleiki og ríkur vilji til að vinna með börnum eru skilyrði. Áhugi á uppbyggingu íþróttastarfs í Ísafjarðarbæ er mikilvægur kostur.

 

Launakjör eru samkvæmt kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags. Æskilegt er að viðkomandi geti hafið störf 15. Maí 2023 eða eftir nánara samkomulagi. Umsóknarfrestur er til 20. febrúar 2023

 

Nánari upplýsingar gefur framkvæmdastjóri HSV, Dagný Finnbjörnsdóttir í síma 865-7161, umsóknir skulu berast á netfangið hsv@hsv.is. Með umsókn skal fylgja ferilskrá.

 

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Stjórn HSV áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Nánar