Lög Héraðssamband Vestfirðinga (HSV)

 

Lög Héraðssambands Vestfirðinga (HSV).

 

I.   kafli:   Heiti og sambandssvæði.

 

II.  kafli:   Aðild:

a) Réttur til aðildar.

b) Umsókn um aðild.

c) Réttindi og skyldur aðildarfélaganna.

 

III.  kafli:   Markmið og hlutverk sambandsins.

 

IV.   kafli:   Héraðsþing:

a) Hlutverk.

b) Fulltrúar.

c) Réttur til þingsetu.

d) Dagskrá þingsins.

e) Aukaþing.

 

V.   kafli:   Stjórn:

a) Skipun.

b) Hlutverk.

c) Formannafundir.

 

VI.   kafli: Lagabreytingar.

 

Vll.      kafli:    Ýmis ákvæði

 

VIII.    kafli:   Gildistaka.

 


 I.   kafli.   Heiti og sambandssvæði.

1. grein.

 

Sambandið heitir Héraðssamband Vestfirðinga. Skammstafað HSV. Sambandssvæðið er Ísafjarðarbær og Súðavíkurhreppur. Heimili og varnarþing er Ísafjarðarbær.

 

 

II.   kafli.  Aðild.

 

2. grein.

Réttur til aðildar.

 

Rétt til að vera í sambandinu hafa þau ungmenna og íþróttafélög, sem eru á sambandssvæðinu og hafa lög sín í samræmi við lög Íþrótta- og  ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands og starfa í anda þeirra.

 

 1. grein.

Umsókn um aðild.

 

Félag  sem óskar inngöngu í sambandið, skal senda skriflega umsókn til sambandsstjórnar HSV.  ásamt lögum félagsins, skrá yfir stofnfélaga, félagsmenn og stjórn.

 

 1. grein.

Réttindi og skyldur aðildarfélaga.

Félag öðlast ekki fulla aðild að sambandinu fyrr en sex mánuðum eftir að sambandsstjórn hefur samþykkt inngönguna, er staðfestast skal á héraðsþingi. Félagið hefur þó rétt til þátttöku í íþróttamótum.

                                                                       

 1. grein.

Starfsskýrslur/ársskýrslur

Hverju aðildarfélagi innan HSV er skylt að skila starfsskýrslu eigi síðar en 15. apríl ár hvert.  Starfsskýrslur skulu innihalda félagatal, iðkendatal og  ársreikninga.  Í starfsskýrslum skal aðgreina meistaraflokk frá barna- og unglingastarfi.

Aðildarfélög skuli skila ársskýrslum til sambandsins að loknum aðalfundum sínum eða eigi síðar en 31. maí. Ársskýrslur skulu innihalda skýrslu stjórnar með árituðum ársreikningi.

Verði vanhöld á skýrsluskilum er HSV heimilt að halda eftir styrkjum til viðkomandi félags. Geri viðkomandi félag ekki skil á ársskýrslum á réttum tíma tvö ár í röð hefur stjórn HSV heimild til að taka viðkomandi félag af úthlutunarlista. Það fjármagn sem þegar hefur safnast upp skal renna 30% til afreksmannasjóðs HSV og 70% í búnaðarsjóð HSV. Að auki getur ársþing HSV tekið ákvörðun um að félaginu skuli vikið úr sambandinu. Ákveði þing að víkja félagi úr sambandinu skal tilkynna það til félagsins, ÍSÍ, UMFÍ og viðkomandi sérsambands/sérsambanda.

Félag sem fellt hefur verið úr sambandinu getur óskað eftir aðild að HSV að nýju. Skal þá fara með umsóknina samkvæmt 3. grein þessara laga, að undanskilinni kröfu um framlagningu stofnfélagaskrár.

HSV sér um að dreifa styrkjum til aðildarfélaga skv. innsendum ársskýrslum.  Styrkir þessir eru bein fjárframlög frá bæjarfélagi, Lottógreiðslur og greiðslur frá Íslenskum getraunum. 

Styrkir skulu skipast á milli aðildarfélaga skv. eftirfarandi reiknireglu:

 

 1. 70 % miðast við fjölda iðkenda, yngri en 18 ára
 2. 20 % miðast við fjölda iðkenda 18 ára og eldri
 3. 5 % miðast við skráða félaga
 4. 5 % er skipt jafnt á félög

 

Lög aðildarfélaga sambandsins skulu staðfest af stjórn HSV svo og allar síðari lagabreytingar sem gerðar kunna að vera. 

 

 

 

III. kafli. Markmið og hlutverk sambandsins.

 

 1. grein.

 

Markmið HSV er að sameina íbúa héraðsins um að efla sjálfstæði Íslendinga. Markmiði sínu hyggst sambandið ná  á eftirfarandi hátt:

a) Að starfa í anda friðar, jafnréttis og menningarhugsjóna.

b) Að vinna að útrýmingu skaðnautna og hafa samvinnu um bindindismál við bindindisfélög.

c) Að vinna að náttúruvernd og bættri umgengni við landið.

d) Að glæða með fólki áhuga fyrir verndun móðurmálsins og sögu þjóðarinnar.

e) Að efla með fólki tryggð og rækt við heimili, átthaga og ættjörð.

f) Að efla í hvívetna almenna fræðslu og uppeldisstarf.

g) Að vinna að kynningu æskunnar á sambandssvæðinu og hjálpa félagsmönnum og öðrum æskulýð til aukins menningarþroska, m.a. með heilbrigðum skemmtunum og málfundastarfsemi.

h) Að vinna að jafnrétti allra manna.

i) Að vinna að öðru leyti samkvæmt stefnuskrá ÍSÍ og UMFÍ.

 

Hlutverk sambandsins er:

 a) Að hafa forystu íþróttamála innan héraðsins, efla samvinnu íþróttaiðkenda og vera fulltrúi þeirra gagnvart ÍSÍ og UMFÍ og öðrum héraðssamböndum.

b) Að stjórna sameiginlegum íþróttamálum héraðsins og vera fulltrúi ÍSÍ og UMFÍ, en sérráð ef stofnuð eru fara með stjórn sérgreinamála innan héraðsins

c) Að annast samstarf um íþróttamál við sveitar og bæjarstjórnir og aðra opinbera aðila innan héraðs.

d) Að varðveita og skipta milli félaganna því fé sem til þess hefur verið veitt.

e) Að aðstoða við skipulag, undirbúning og framkvæmd íþróttamóta í héraði. Að hafa frumkvæði um eflingu íþróttastarfsins innan héraðs.

f) Að staðfesta lög aðildarfélaga og fylgjast með því að starfsemi aðildarfélaga fari fram skv. gildandi lögum þeirra og íþróttahreyfingarinnar í heild.

g) Að annast íþróttaleg sérmál, meðan þau eru ekki falin sérstökum ráðum.

i)  Að gangast fyrir stofnun sérráða, sé þess þörf

j)  Að gefa umsögn um íþróttamál,íþróttamannvirki o.s.frv.

k) Að annast milligöngu um tryggingamál fyrir einstök félög eða sérráð, sé þess óskað.

l)  Að efla áhuga almennings fyrir líkamsmennt, með erindum eða annari fræðslu og örfa almenna þátttöku í íþróttaiðkun og í keppni um íþróttamerki.

m)  Að annast skýrslugerðir varðandi íþróttamál héraðsins.

 

 

IV. kafli. Héraðsþing.

                                                                       

 1. grein.

Hlutverk.

Sambandið skal árlega halda héraðsþing og skal það haldið fyrir maílok ár hvert og til skiptis hjá sambandsfélögunum, um sambandssvæðið.

Þó getur sambandsstjórn ákveðið aðra tilhögun með héraðsþing, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Þingið skal boðað með minnst mánaðar fyrirvara. Síðara fundarboð með dagskrá og upplýsingum um tillögur og mál sem leggja á fyrir héraðsþing  skal senda aðildarfélögum með eigi minna en tveggja vikna fyrirvara með rafrænum hætti nema óskað sé eftir því skriflega.

 

 1. grein.

Héraðsþing úrskurðar reikninga sambandsins, sem skulu miðast við almanaksárið. Það ræðir og gerir tillögur um starfsemi sambandsins. Ef deilur rísa milli félaga sambandsins, ber héraðsþingi að úrskurða um þær, nema deilumál og kærur sem fara ber með samkvæmt dóms- og refsiákvæðum ÍSÍ. Héraðsþing ákveður skatt félaganna til sambandsins.

 

 1. grein.

Fulltrúar.

Sambandsfélögin kjósa aðalfulltrúa og varafulltrúa á félagsfundum sínum, til að mæta á héraðsþing, einn fyrir hverja 50 gjaldskyldra félagsmanna 18 ára og eldri, verði 25 umfram má kjósa einn fulltrúa fyrir það brot. Þó skulu fulltrúar aldrei vera fleiri en 9 frá sama félagi og aldrei færri en einn. Stjórnarmeðlimir sambandsins hafa atkvæðisrétt þótt þeir séu ekki kjörnir fulltrúar. Héraðsþing er lögmætt, ef löglega er til þess boðað.

 

 1. grein.

Réttur til þingsetu

Atkvæðisrétt á héraðsþingi hafa aðeins kjörnir fulltrúar þeirra félaga sem skilað hafa inn skýrslum skv. 5. grein.  Sambandsstjórn HSV hefur einnig atkvæðisrétt.  Auk þeirra eiga rétt til þingsetu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt:

 

            a).   Fulltrúar ÍSÍ og UMFÍ.

            b).   Fulltrúar sveitafélaganna á sambandssvæðinu.

            c).   Skoðunarmenn reikninga.

            d).   Starfsmenn sambandsins.

 

Sambandsstjórn HSV getur boðið öðrum aðilum þingsetu.

Aðeins sá sem er í félagi innan sambandsins er kjörgengur fulltrúi þess á héraðsþingi. Hver fulltrúi hefur eitt atkvæði. Allir þingfulltrúar með atkvæðisrétt skulu hafa kjörbréf.

 

 

 1. grein.

Dagskrá þingsins.

Störf héraðsþings, sem er æðsti aðili Héraðssambands Vestfirðinga eru þessi:

      1. Þingsetning.

      2. Kosning fyrsta og annars þingforseta.

      3. Kosning fyrsta og annars þingritara.

      4. Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar.

      5. Skýrsla stjórnar lögð fram.

      6. Endurskoðaðir reikningar lagðir fram.      

      7. Ávörp gesta.

      8. Álit kjörbréfanefndar.

      9. Staðfesting á aðild nýrra félaga.

     10. Umræður um skýrslu stjórnar.

     11. Umræður og atkvæðagreiðsla um reikninga.

     12. Skipað í nefndir til starfa á þinginu.

           a) Kjörnefnd og aðrar nefndir ef þurfa þykir.

     13. Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár lögð fram.

     14. Laga- og reglugerðabreytingar lagðar fram.

     15. Aðrar tillögur lagðar fram.

     16. Nefndarstörf um framlagðar tillögur og önnur mál sem nefndir ákveða að taka fyrir.

     17. Afgreiðsla á áliti nefnda.

     18. Önnur mál.

     19. Kosningar,

 1. Kosning formanns.
 2. Kosning tveggja stjórnarmanna.
 3. Kosning þriggja manna í varastjórn.
 4. Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga og tveggja til vara.
 5. Kosning til íþróttaþings skv. lögum ÍSÍ á því ári sem íþróttaþing er haldið.
 6. Kosning til þings UMFÍ skv. lögum UMFÍ á því ári sem þing þess er haldið
 7. Kostning þriggja manna uppstillingarnefndar

     20. Þingslit.

Ef lægsta atkvæðatala til að ná kosningu fellur á tvo eða fleiri, skal kjósa um þá á ný, bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir, ræður hlutkesti. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum nema um lagabreytingar sé að ræða.

 

 

 1. grein.

Aukaþing.

 

Aukaþing skal halda ef nauðsyn krefur og ef helmingur sambandsaðila óskar þess. Allur boðunar- og tilkynningafrestur til aukaþings má vera helmingi styttri en til reglulegs þings. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa sem er látinn, veikur eða forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má ekki gera laga- eða reglugerðabreytingar og ekki kjósa stjórn nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eða hætt störfum af öðrum orsökum eða stjórnin hefur að eigin dómi orðið óstarfhæf. Að öðru leyti gilda um það sömu reglur og um reglulegt héraðsþing.

 

 

V. kafli.  Stjórn.

 

 1. grein.

Skipun.

Stjórn sambandsins skipa 5 menn. Formaður skal kosinn sérstaklega til eins árs í senn. Aðrir stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára, þó þannig að aðeins skal kosið um tvo árlega. Árlega skal kjósa þrjá menn í varastjórn og ennfremur tvo skoðunarmenn reikninga og tvo til vara. Formaður eða varaformaður aðildarfélags er ekki kjörgengur í stjórn sambandsins. Heimilt er stjórinni að skipa starfsnefndir sér til aðstoðar við sérstök verkefni eða ákveðna þætti starfsins, telji hún þess þörf.

 

 1. grein.

Hlutverk.

Stjórnin stýrir málefnum sambandsins milli þinga og fylgist með starfsemi félaganna. Hún varðveitir sjóði sambandsins og aðrar eignir og leggur fram endurskoðaða  reikninga á hverju héraðsþingi. Stjórn sambandsins svo og nefndir þess skulu halda gerðabók.

 

 1. grein.

Formannafundir.

Eigi sjaldnar en á þriggja mánaða fresti skal stjórn  HSV halda fund með formönnum félaga og sérráða eða fulltrúum þeirra, þar sem stjórnin skýrir störf sín og rædd verða viðfangsefni héraðssambandsins og aðildarfélaga þess

 

 

VI. kafli.  Lagabreytingar.

 

 1. grein.

Tillögur til lagabreytinga skal leggja fram í upphafi þings og  þeim síðan vísað til laganefndar. Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist sambandsstjórn 15 dögum fyrir sambandsþing og skulu þær þá sendar sambandsaðilum.

 

 1. grein.

Héraðsþing getur breytt lögum þessum með 2/3 greiddra atkvæða, atkvæðisbærra fulltrúa á héraðsþingi.

 

 

VII. kafli.  Ýmis ákvæði.

 

 1. grein.

Uppstillingarnefnd starfar í aðdraganda Héraðsþings. Nefndin hefur það hlutverk að tala við einstaklinga á starfssvæðinu og sjá til þess að nægjanlegt framboð sé af fólki til að starfa í þeim embættum sem kosið er til á héraðsþingi HSV. Nefndin skiptir með sér verkum og skal starfa og vera í sambandi við stjórn HSV síðasta mánuðinn fyrir héraðsþing.

     19. grein.

 Í lögum allra aðila að héraðssambandinu skulu vera ákvæði um félagsslit, svo og um ráðstöfun eigna sambandsaðila.

     20. grein. 

Héraðsambandinu HSV verður ekki slitið nema á héraðsþingi og þá aðeins, að 4/5 atkvæðisbærra fulltrúa þeirra, er rétt eiga til setu á þinginu sbr. 9. grein samþykki. Með slíkri samþykkt er störfum þessa þings tafarlaust lokið, en fráfarandi stjórn skal sitja áfram með fullu umboði. Skal hún boða til annars ársþings sex mánuðum síðar. Sé þá aftur samþykkt með 4/5 atkvæða atkvæðisbærra fulltrúa að slíta sambandinu, er sambandinu formlega slitið.

Skulu eignir sambandsins renna til nýrra heildarsamtaka íþróttafélaganna á sambandssvæðinu, í samráði við stjórnir ÍSÍ og UMFÍ. Gerðabækur sambandsins skulu varðveitast á Héraðsskjalasafni Ísafjarðabæjar.

 

      21. grein.

Þrátt fyrir ákvæði í 19. grein, skal heimilt að stytta sex mánaða boðunarfrest til héraðþings ef um skipulagsbreytingar eða samruna er að ræða. Boðunarfrestur skal ákveðast af þinginu.

 

 


 

VIII. kafli. Gildistaka.

 

     22. grein.

Lög þessi taka gildi við samþykki þeirra, enda reynist þau vera í samræmi við lög ÍSÍ og UMFÍ.

 

      23. grein.

Allar breytingar á lögum sambandsins þurfa að hljóta samþykki stjórnar ÍSÍ og UMFÍ áður en þær taka að fullu gildi.

 

Þannig samþykkt á Héraðsþingi HSV á 24. degi maímánaðar 2023

 

                                                                       

Anton Helgi Guðjónsson                                    Páll Janus Þórðarsson

formaður                                                         ritari