Á ársþingi HSV, sem haldið var 7 maí sl, var samþykkt eftirfarandi ályktun vegna hernaðar Ísraelshers gegn almenningi í Palestínu. Hafa ber í huga að tölurnar sem koma fram í ályktuninni eru yfir 2ja mánaða gamlar og hafa hækkað ískyggilega í millitíðinni:
Ályktun gegn þjóðarmorði
Í Palestínu hefur verið ófriður síðastliðin 70 ár. Milljónir Palestínumanna hefur verið hrakinn frá heimilum sínum og eignir þeirra ýmist verið eyðilagðar eða færðar öðrum.
Palestína er hertekið land og íbúar landsins hafa verið ofsóttir af landtökufólki, með gíslatöku, misþyrmingum, eignaspjöllum eða morðum. Og heimsbyggðin horfir í hina áttina.
Í sameiginlegu ákalli frá UNICEF á Íslandi, Hjálparstarfs kirkjunnar, ABC barnahjálpar, Rauða kross Íslands, UN Women Ísland og Barnaheilla - Save the Children á Íslandi, til íslenskra stjórnvalda segir ma: „Stríðið á Gaza er stríð gegn börnum, enginn staður í heiminum er þeim jafn hættulegur. Næringarskortur blasir við, vatnsskortur er nær alger og farsóttir yfirvofandi. Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum eiga almennir borgarar alltaf rétt á mannúðaraðstoð og vernd í vopnuðum átökum en öllum er ljóst að þessu er ekki fyrir að fara. Stríðandi fylkingar virða í engu mannréttindi íbúa svæðisins og líf þeirra mun aldrei verða samt aftur, lifi þeir af. Eyðileggingin á Gaza er alger og hvergi er skjól fyrir almenna borgara.“
Undanfarna 200 daga hefur verið staðfest að Ísraelsmenn hafa drepið 42.500 manns sem gerir 212 almenna borgara á dag. Af þessum hópi eru 14 þúsund börn undir 16 ára. Að auki hafa Ísraelsmenn limlest yfir 70 þúsund manns.
Ísraelsmenn hafa lagt í rúst alla spítala á Gaza og drepið vel á fjórða hundrað lækna eða hjúkrunarfólk. Ísraelsmenn hafa drepið uþb 200 fjölmiðlamenn, 224 hjálparstarfsmenn og yfir 40 löggæslumenn.
Með kerfisbundnum hætti hafa Ísraelsmenn eyðilagt alla háskóla á Gaza og yfir 70% af öðrum innviðum svæðisins. Og vegna aðgerða Ísraelsmanna eru 90% af íbúum Gaza á flótta.
Markvisst hafa Ísraelsmenn hindrað aðkomu hjálparstarfsmanna og hjálpargagna inn á svæðið og eru vísvitandi að nota hungur sem vopn.
Í framhaldi af kæru Suður-Afríku telur Alþjóðadómstóllinn líkur á að aðgerðir Ísraelsmanna síðustu mánuði geti flokkast sem þjóðarmorð á palestínsku þjóðinni og mun hefja meðferð á málinu á þeim forsendum.
Ársþing HSV 2024 telur að heimssamfélagið ætti að vera löngu búinn að grípa inn í þessa atburðarás með öflugum refsiaðgerðum gegn Ísrael, með sama hætti og gegn Rússlandi og Belarus vegna árásar þeirra fyrrnefndu inn í Úkraínu fyrir tveimur árum.
Þingið harmar afstöðuleysi íþróttahreifingarinnar, bæði á Íslandi sem og í Evrópu, til áður nefndra voðaverka ísraelsmanna og krefst þess að ísraelskir íþróttamenn fái samskonar útilokun frá alþjóðaviðburðum og þeir rússnesku.
Áframhaldandi afstöðuleysi íþróttahreifingarinnar getur í besta falli talist hræsni en í versta falli kynþáttafordómar og meðsekt í þjóðarmorði.