Í hófi sem Ísafjarðarbær hélt í tilefni af únefningu íþróttamanns Ísafjarðarbæjar voru þær Rannveig Pálsdóttir og Guðríður Sigurðardóttir heiðraðar fyrir störf sín í þágu lýðheilsu kvenna, en þær Guðríður og Rannveig hafa staðið fyrir leikfimitímum fyrir konur í íþróttasalnum við Austurveg tvisvar í viku í yfir 40 ár.
Mikilvægi góðrar líkamlegrar heilsu verður seint ofmetið og það skiptir miklu máli að hver og einn finni vettvang sem hentar sér til að sinna henni. Það er óhætt að segja að þær Guðríður og Rannveig hafi skapað þennan vettvang fyrir fjölda kvenna í Ísafjarðarbæ sem hafa undir handleiðslu þeirra fengið tækifæri til að rækta líkamann í uppbyggjandi félagsskap. Það má ekki heldur gleyma hversu góð áhrif líkamleg hreyfing hefur á andlega heilsu, eða eins og kona sem hefur sótt tíma hjá þeim í 39 ár sagði: „Ég veit ekki hvernig mér liði ef ég hefði ekki þessa tíma.“ Það er einnig eftirtektarvert hversu vel þær fylgjast með nýjungum og eru þær sífellt að uppfæra æfingar í takt við nýjustu rannsóknir og þróun í líkmasrækt.
Ísafjarðarbær hefur frá hausti 2018 verið heilsueflandi samfélag og þessi viðurkenning til þeirra Rannýjar og Guðríðar er sannarlega í þeim anda og lýðheilsumarkmiða almenn.
Það var Sif Huld Albertsdóttir bæjarfulltrúi sem afhenti Guðríði og Ranný viðurkenninguna.
HSV óskar þeim innilega til hamingju.