Fimmtudaginn í síðustu viku komu fulltrúar frá ÍSÍ í heimsókn hingað vestur. Það voru Lárus Blöndal forseti ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri og Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri sem sóttu okkur heim. Þau fóru víða um svæðið og skoðuðu íþróttamannvirki í bænum. Byrjað var á að fara á golfvöllinn þar sem Bjarki Bjarnason gjaldkeri GÍ fór yfir starfsemi og helstu framkvæmdir við golfvöllinn. Síðan lá leið upp á skíðasvæðin þar sem félagar í SFÍ og Gautur Ívar Halldórsson svæðisstjóri fóru yfir sögu svæðanna beggja og framkvæmdir fyrir og eftir snjóflóðið 1994. Einnig var framkvæmd Fossavatnsgöngu kynnt og hvernig aðstandendur sjá þróun göngunnar næstu ár. Að því loknu var farið á Torfnessvæðið. Þar hittu gestirnir Gísla Halldór Halldórsson bæjarstjóra, Margréti Halldórsdóttur sviðstjóra skóla- og tómstundasviðs og Grétar Helgason umsjónarmann íþróttamannvirkja. Með þeim var aðstaða Skotfélagsins undir stúkinni skoðuð, Ívar Már Valsson fór yfir framkvæmdir þar, síðan var rölt um knattspyrnu og frjálsíþróttaaðstöðuna og að lokum íþróttahúsið á Torfnesi. Þar hitti hópurinn spræka stráka úr 4 bekk sem voru mættir á handboltaæfingu hjá íþróttaskóla HSV. Að lokum var farið niður í Sundhöll. Í sundlauginn voru strákar úr 2. bekk á sundæfingu íþróttaskólans og í íþróttasalnum hittum við stráka úr 1. bekk í grunnþjálfun.
Eftir mannvirkjaskoðun fundaði Lárus Blöndal stuttlega með fulltrúm frá nefnd um sameiningu íþróttafélaga. Í hádeginu var svo fundað á Hótel Ísafirði með stjórn HSV og Héraðssambands Bolungarvíkur (HSB), forsvarsmönnum íþróttafélaga á Ísafirði og í Bolungarvík, Gísla Halldóri Halldórssyni bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar og fullrúum beggja sveitarfélaga. Góð mæting var á fundinn en þar voru rædd helstu mál sem brenna á íþróttahreyfingunni á Vestfjörðum. Greinilegt er að ferðakostnaður var mönnum ofarlega í huga en mikið var spurt um ferðasjóðinn og samning ÍSÍ og Flugfélagsins um ÍSÍ fargjöld.
Gestirnir fóru að því loknu í heimsókn til Bolungarvíkur og enduðu svo heimsókn sína hér hjá HSV á að hitta Sigmund Þórðarson á Þingeyri og skoða íþróttamannvirki þar.