Eins og aðrar helgar var mikið að gera hjá íþróttafólkinu okkar. Meistaraflokkur KFÍ gerði góða ferð á Laugarvatn og vann þar mikilvægan sigur 65-87.
Púkamót Íslandsbanka var haldið um helgina í Tungudal og Seljalandsdal og heppnaðist það mjög vel þrátt fyrir misjafnlega gott veður og skíðafæri. Keppendur voru um 100 frá Akureyri, Dalvík, Hólmavík og Reykjavík auk Ísafjarðar. Úrslit á mótinu er hægt að sjá á heimasíðu Skíðafélagsins www.snjor.is.
Blakkonur í Skelli kepptu í seinni umferð riðlakeppninnar á Íslandsmótinu sem fram fór í Ólafsvík. HSV hefur ekki í höndum úrslit en þær stóðu sig örugglega vel eins og alltaf.
Strákarnir í 3.flokki karla skelltu sér til Akureyrar og kepptu þar á Greifamóti KA. Strákarnir stóðu sig mjög vel á mótinu.
Harðarstrákarnir í 3.flokki karla fengu Gróttumenn í heimsókn og lutu í lægra haldi. Strákarnir sem eru á sínu fyrsta ári á Íslandsmóti gerðu sitt besta en eiga svolítið í land með að halda í sterkustu liðin í riðlinum enda eru það lið með reynda stráka sem eru búnir að æfa handbolta töluvert lengur. Þetta kemur allt með æfingunni.