Í hádeginu í dag var skrifað undir nýjan samstarfssamning milli HSV og Ísafjarðarbæjar. Það voru þau Guðný Stefanía Stefánsdóttir fomaður HSV og Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri sem það gerðu. Þessi nýji samstarfssamingur mun efla starf íþróttahreyfingarinnar í Ísafjarðarbæ enn meira og er ánægjulegt að sjá þann stuðning sem Ísafjarðarbær setur í íþrótta- og æskulýðsstarf aðildarfélaga HSV.
Helstu atriði í samningnum er að nú er kominn beinn fjárhagslegur styrkur til að halda áfram með afreksform HSV en það eru styrktaræfingar fyrir unglinga í 7.- 10 bekk og er markmiðið fyrst og fremst að stýra betur álagi hjá ungum íþróttaiðkendum og lækka meiðslatíðni. Í tímunum er boðið upp á fjölbreyttar æfingar sem miða að því að bæta snerpu, sprengikraft, úthald, liðleika og styrk iðkendanna undir stjórn sjúkraþjálfara. Þjálfarar munu einnig skima hópinn til að finna út styrkleika og veikleika hvers og eins og hjálpa krökkunum að vinna sérstaklega með þá þætti.Þarna koma saman ungir iðkendur ólíkra íþróttagreina. Þannig næst betri yfirsýn yfir æfingaálag auk þess sem þátttaka þvert á íþróttagreinar styrkja félagslega þáttinn í íþróttiðkun hjá fámennum félögum í litlu samfélagi.
Einnig eykst framlag til íþróttaskóla HSV en með aukinni fjölgun barna í bænum hefur umfang skólans aukist nokkuð. Að lokum er rekstrarstyrkur til HSV og aðildarfélaga hækkaður til móts við það sem hann var fyrir hrun.
Samstarfssamningur HSV og Ísafjarðarbæjar er HSV og aðildarfélögum þess mikill styrkur. Samningurinn gerir HSV kleyft að halda úti íþróttaskóla HSV þar sem börnum í 1.-4. bekk gefst kostur á fjölbreyttu íþróttastarfi í samfellu við skólastarf á verði sem er lægra en almennt þekkist. Skólinn hefur í gegnum tíðina fengið ýmsar viðurkenningar og styrki innan íþróttahreyfingarinnar. Til hans er litið sem fyrirmynd að tómstundastarfi víða á landinu og reglulega koma fyrirspurnir um skipulag og framkvæmd frá öðrum héraðssamböndum og sveitarfélögum. Hjá að minnsta kosti þremur héraðssamböndum hefur starf að fyrirmynd íþróttaskóla HSV farið af stað og fleiri eru að skoða þann möguleika. Íþróttaskóli HSV er samstarf Ísafjarðarbæjar og HSV sem allir geta verið stoltir af.
Með rekstrarstyrknum til HSV og aðildarfélaga er tryggt að HSV geti áfram haft framkvæmdastjóra að störfum ásamt því að sambandinu er gert kleyft að útdeila öllum greiðslum fyrir lottó út til aðildarfélaga en flest héraðssambönd nýta hluta lottóstyrks til rekstur sambandanna.
Í samningnum er einnig kveðið á um afnot og úthlutun tíma til íþróttahreyfingarinnar í íþróttamannvirkjum Ísafjarðarbæjar. Er sá styrkur metinn á um 77 milljónir króna. Eftirspurn eftir tímum í íþróttahúsunum fer vaxandi ár frá ári og eru aðildarfélög HSV með æfingar í öllum íþróttahúsum Ísafjarðarbæjar auk þess að nýta íþróttahúsið í Bolungarvík.
Á gildistíma samningsins mun íbúðastyrkur Ísafjarðarbæjar lækka. Sem stendur hafa aðildarfélög HSV afnot af átta íbúðum en verða fimm í lok samningstímans. Íbúðastyrkurinn er íþróttafélögunum mjög mikilvægur og stór þáttur í hversu vel hefur gengið að fá menntaða og öfluga þjálfara til starfa hér í bænum.
HSV þakkar Ísafjarðarbæ fyrir góðan stuðning og hlakkar til öflugs starfs á komandi árum.