Fyrir hönd starfsmanna sinna vilja fyrirtækin Skaginn hf., Þorgeir & Ellert hf. og 3X Technology ehf. stuðla að bættum gæðum og faglegri vinnu við barna- og unglingastarf íþróttahreyfinga í heimabyggð. Af því tilefni hafa fyrirtækin gefið kr. 1.500.000 til HSV fyrir árið 2019 sem renna skal til aðildarfélaga sambandsins.
Megin markmið styrks Skagans3X er að efla faglegt starf og gæði við þjálfun ungra iðkenda er keppa undir merkjum aðildarfélaga HSV. Horft er til allra aðildarfélaga HSV og bæði stúlkna og drengja. Stuðningurinn er fyrst og fremst ætlaður sem viðbót við núverandi barna- og unglingastarf og ekki ætlaður til frekari fjárfestinga innan íþróttahreyfingarinnar.
Samskonar styrkur kom frá fyrirtækinu fyrir árið 2018. Eftirtalin félög og verkefni á þeirra vegum hlutu þá styrk:
Golfklúbbur Ísafjarðar: Golfæfingar fyrir börn og unglinga með með námskeiðslotum PGA kennara.
Hestamannafélagið Hending: Undirbúa og útbúa fræðsluefni til að taka á móti börnum úr íþróttaskóla HSV í nýja reiðhöll í Engidal haustið 2018.
Hestamannafélagið Stormur: Uppbygging barna- og unglingastarfs með reiðnámskeiðum
Hörður handknattleiksdeild: Til eflingar Vestfjarðamóts í handbolta sem er lokamótið í Íslandsmóti 6. flokks drengja.
Íþróttafélagið Ívar: Styrkja unglingastarf félagsins og bjóða upp á meiri fjölbreytni í íþróttagreinum.
Skíðafélag Ísfirðinga: æfingabúðir og þjálfaranámskeið fyrir bretti, göngu og alpagreinar.
Sæfari: Styrkja grunnstarf Sæfara, siglinganámskeið fyrir ungmenni 9-14 ára.
Vestri knattspyrnudeild: Þrjú verkefni; afreksþjálfun, endurgerð og þýðing á uppeldisstefnu og átak í kvennaknattspyrnu.
Vestri körfuknattleiksdeild: Þrjú fræðsluverkefni; þjálfaranámskeið, dómaranámskeið og tölfræðiskráningarnámskeið.
HSV þakkar 3X fyrir stuðninginn og hlakkar til áframhaldandi samstarfs við fyrirtækið