Í Vísindaportinu í Vestrahúsi verður föstudaginn 1. febrúar fjallað um sögu Super Bowl og hvernig þessi geysivinsæla, árlega keppni í amerískum fótbolta hefur þróast í gegnum árin í þann menningarviðburð sem keppnin er í dag. Það eru þrjár ástæður fyrir því að fólk horfir á Super Bowl: leikurinn sjálfur, sýningin sem fer fram í hálfleik og auglýsingarnar.

Fyrirlesturinn heldur Dan Govoni sem er bandarískur að uppruna en býr nú á Ísafirði ásamt fjölskyldu sinni. Dan mun einnig fræða okkur um hvernig leikurinn fer fram, en amerískur fótbolti er mjög frábrugðinn evrópskum. Fjallað verður einnig um Super Bowl ársins 2019.

Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13 og eru allir velkomnir. Að þessu sinni fer dagskráin fram á ensku.

Að þessu sinni má búast við að Vísindaportið verði á léttari nótunum og ætti enginn sem hefur áhuga á íþróttum að láta þetta tækifæri til að fræðast um amerískan fótbolta fram hjá sér fara.