Í dag er dagur sjálfboðaliðans. Upphaf dagsins má rekja aftur til ársins 1985 þegar Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að 5. desember yrði Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða um alla heim.
Tilgangur dagsins er að vekja athygli á því óeigingjarna starfi sem sjálfboðaliðar í samfélaginu sinna. Um allt land byggist starf íþrótta- og ungmennafélaga mikið til upp á sjálfboðaliðum og er þar engin undantekning á í okkar íþróttahéraði.
Fjöldi fólks innan okkar héraðssambands leggur íþróttahreyfingunni lið með því að sitja í stjórnum, nefndum, ráðum eða vinnuhópum. Sjálfboðaliðar taka þátt í foreldrastarfi, ferðalögum, fjáröflunum eða hjálpa til við framkvæmd móta, kappleikja og/eða annarra viðburða. Það sýnir sig að þetta starf skilar sér með góðum árangri í íþróttastarfi á okkar svæði og ekki síst í mikilvægu forvarnarstarfi ungmenna.
Aldrei má missa sjónar á gríðarlega mikilvægu framlagi sjálfboðaliða.