Um liðna helgina fór fram 53. Sambandsþing UMFÍ á Hótel Geysi í Haukadal. HSV átti þar þrjá fulltrúa. Þetta var tímamóta þing þar sem að komin er niðurstaða í áratuga langt samtal um skiptingu lottótekna og hlutverk íþróttahéraða, Tímamótatillaga var samþykkt samhljóða, tallagan felur í sér stofnun svæðaskrifstofa íþróttahéraða víða um land í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og stjórnvöld. Af lottógreiðslum til UMFÍ fari 15% til reksturs svæðaskrifstofanna og 85% til íþróttahéraða eftir íbúafjölda 18 ára og yngri.
 
Samkvæmt tillögunni verður komið á fót átta svæðastöðvum með sextán stöðugildum sem munu þjónusta íþróttahéruð landsins með samræmdum hætti.
Vinnuhópar UMFÍ og ÍSÍ sem unnu að tillögunni horfa til þess að sterkari íþróttahéruð og svæðastöðvar um allt land bæti skilvirkni íþróttahreyfingarinnar.
 
Breytingarnar munu taka gildi eftir að samningar nást við ríkisvaldið um að það leggi fram sambærilegan fjárhagslegan stuðning til svæðisskrifstofa íþróttahéraða, meðal annars með vísan til farsældarlaga.
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, var gestur við setningu þingsins og flutti þar ávarp. Þar sagði hann búið að tryggja einn starfsmann á hvert starfssvæði sem tillagan kveður á um og fjármagn til að viðkomandi geti sinnt vinnu sinni.
 
Það er ánægjulegt að íþróttahreyfingin gengur nú í takt, samstaðan á þinginu var mikil og gleðin og ungmennafélagsandinn sveif yfir vötnum.
 
Fulltrúar HSV þakka þingfulltrúum, stjórn og starfsfólki UMFÍ fyrir gott og skemmtilegt þing.