Jens Kristmannsson íþróttafrömuður frá Ísafirði og fyrrum stjórnarmaður í ÍSÍ var á 70.íþróttaþingi ÍSÍ sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ fyrir mikið og framúrskarandi framlag til íþróttahreyfingarinnar. Jens hefur unnið gríðalega mikið og gott starf fyrir íþróttahreyfinguna í Ísafjarðarbæ meðal annars fyrir Hörð og ÍBÍ. Jens sat einnig í stjórn ÍSÍ. Óskum við Jens innilega til hamingju með viðurkenninguna.
70. Íþróttaþing ÍSÍ var haldið í Gullhömrum Grafarholti 8-9 apríl. Alls áttu 188 rétt til setu á þinginu, 94 frá sérsamböndum ÍSÍ og 94 frá héraðssamböndum og íþróttabandalögum. Að auki eru fjórir fulltrúar úr röðum íþróttafólks.
Á síðasta þingi var lögum ÍSÍ breytt og við það fækkaði fulltrúum talsvert. HSV átti rétt á að senda einn fulltrúa og fór framkvæmdarstjóri HSV á þingið.
Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ var endurkjörinn með dynjandi lófaklappi. Í framkvæmdastjórn ÍSÍ voru kjörin Friðrik Einarsson, Gunnar Bragason, Hafsteinn Pálsson, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Helga. H. Magnúsdóttir, Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir; Jón Gestur Viggósson, Lárus Blöndal, Sigríður Jónsdóttir og Örn Andrésson. Í varastjórn voru kjörnir Garðar Svansson, Gunnlaugur Júlíusson og Gústaf A. Hjaltason.
Þingstörf gengu vel fyrir sig, þingnefndir störfuðu á föstudagskvöld við yfirferð tillagna en þingið afgreiddi alls yfir 20 tillögur sem birtar verða á heimasíðu ÍSÍ fljótlega.
Þingforsetar voru Daníel Jakobsson bæjarstjóri á Ísafirði og Steinn Halldórsson starfsmaður ÍBR.