Sunnudaginn 21. janúar var útnefndur Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2017, efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2017 ásamt því að veitt voru sérstök hvatningarverðlaun fyrir gott og gjöfult starf til íþróttamála í sveitarfélaginu.
Íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2017 er Albert Jónsson Skíðafélagi Ísfirðinga. Albert er afburða íþróttamaður sem leggur mikið á sig fyrir íþrótt sína og uppsker í samræmi við það. Í skíðasamfélaginu er hann orðlagður fyrir einstaka samviskusemi og dugnað við æfingar. Hann setur sér háleit og krefjandi markmið og vinnur skipulega að því að ná þeim. Þessi eljusemi hefur nú skilað honum sæti í A-landsliði Íslands í skíðagöngu og á möguleika á að keppa fyrir Íslands hönd á Ólympíuleikunum í febrúar. Áhugi Alberts og æfingagleði smitar út frá sér og bætir alla í kringum hann. Hann er óþreytandi við að aðstoða og hvetja áfram liðsfélaga sína í Skíðafélagi Ísfirðinga og reyndar skíðagöngufólk um allt land.
Þeir íþróttamenn sem tilnefndir voru til íþróttamanns Ísafjarðarbæjar 2017 auk Alberts eru eftirfarandi:
Auður Líf Benediktsdóttir Blakdeild Vestra
Axel Sveinsson Knattspyrnudeild Harðar
Daði Freyr Arnarsson Knattspyrnudeild Vestra
Daníel Wale Adeleye Handknattleiksdeild Harðar
Einar Torfi Torfason Glímudeild Harðar
Kristín Þorsteinsdóttir Íþróttafélagið Ívar
Leifur Bremnes Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar
Nebosja Knezevic Körfuknattleiksdeild Vestra
Stefán Óli Magnússon Golfklúbbi Ísafjarðar
Efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2017 var útnefndur Þórður Gunnar Hafþórsson knattspyrnumaður hjá Vestra. Þórður er duglegur og hæfileikaríkur leikmaður sem átti fast sæti í meistarflokksliði Vestra í sumar aðeins 15 ára gamall. Hann var valinn í úrtakshóp fyrir U17 ára landslið og síðar í lokahóp U17 ára landsliðs Íslands. Þórður fór á árinu með U17 ára landsliðinu á Norðurlandamót þar sem hann spilaði sína fyrstu landsleiki og síðar í undankeppni EM þar sem hann spilaði einnig landsleiki. Í desember var hann enn valinn í U17 ára hópinn. Ótrúlegur árangur þar sem samkeppnin er gríðarlega mikil. Þórður frá frábær fyrirmynd yngri iðkenda í leik og starfi.
Þeir íþróttamenn sem voru tilnefndir til efnilegasta íþróttamanns Ísafjarðarbæjar auk Þórðar eru eftirfarandi:
Arnar Rafnsson Handknattleiksdeild Harðar
Ásgeir Óli Kristjánsson Golfklúbbi Ísafjarðar
Birkir Eydal Knattspyrnudeild Harðar
Dagur Benediktsson Skíðafélag Ísfirðinga
Hafsteinn Már Sigurðsson Blakdeild Vestra
Hilmir Hallgrímsson Körfuknattleiksdeild Vestra
Hörpu Grímsdóttur voru afhent Hvatningarverðlaun fyrir gott og öflugt starf í þágu Blakdeildar Vestra og áður Blakfélaginu Skelli. Harpa hefur sinnt blakstarfinu af lífi og sál síðan hún flutti til Ísafjarðar fyrir 13 árum. Á þeim tíma hefur starfsemi félagsins vaxið og dafnað frá því að vera með tvö kvennalið í öldungarblaki í að vera með öflugt barna- og unglingastarf, lið í meistaraflokki bæði karla og kvenna í 1. deild Íslandsmóts ásamt heldri iðkendum í öldungablaki. Á síðustu árum hafa yngri flokkar félagsins unnið nokkra Íslandsmeistaratitla í sínum aldursflokkum og á síðasta ári varð meistaraflokkur karla deildarmeistarar í 1. deild og komust í undanúrslit í bikarkeppninni. Harpa komið að starfinu frá flestum hliðum, hefur meðal annars þjálfað ef ekki hefur fengist þjálfari. Er einnig mjög öflugur leikmaður og hefur endurtekið verið kjörinn besti leikmaður meistaraflokks kvenna. Harpa er nú formaður blakdeildar Vestra.
Ísafjarðarbær bauð til hófs þar sem útnefningar voru tilkynntar og viðurkenningar afhentar. Rúmlega 90 manns mættu og nutu glæsilegra kaffiveitinga í boði bæjarins.