Hermann fæddist á Ísafirði 28. febrúar 1948. Foreldrar hans voru hjónin Níels Guðmundsson málarmeistari og Guðrún Sigurðardóttir húsmóðir. Hermann var elstur fimm systkina. Hann lést hinn 21. janúar 2015.
Hermann var alla ævi ötull talsmaður íþrótta og heilbrigðs lífernis. Hann helgaði líf sitt íþróttum og var virkur í uppbygginu og starfi íþróttafélaga. Hann var lengi íþróttakennari við Alþýðuskólann á Eiðum og var á þeim tíma í forsvari fyrir íþróttahreyfinguna á Austurlandi. Hér á Ísafirði starfaði Hermann sem íþróttakennari við Menntaskólann á Ísafirði. Sem formaður Knattspyrnufélagsins Harðar á Ísafirði hefur hann sinnt uppbyggingu glímuíþróttarinnar svo eftir því var tekið, auk annarra íþrótta. Ekki má gleyma starfi Hermanns í þágu almenningsíþrótta en hann átti lengi sæti í Trimmnefnd ÍSÍ og og stóð að átakinu Heilsuefling í Ísafjarðarbæ.
Hermann var góður félagi og þakkar HSV fyrir hans mikla og góða starf fyrir íþróttahreyfinguna í Ísafjarðarbæ.
HSV sendir aðstandendum samúðarkveðjur.