10. ársþing HSV fór fram í gær 28.apríl í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði. Mjög góð mæting var á þingið og mættu um 50 manns. Marinó Hákonarson var þingforseti og Hermann Níelsson annar þingforseti og stjórnuðu þeir þinginu mjög vel og af mikilli fagmennsku Þingritari var Sigrún Sigvaldadóttir. Jón Páll Hreinsson formaður HSV flutti skýrslu stjórnar sem þetta árið var með nýju sniði og mjög viðamikil og gefur góða mynd af starfi HSV og aðildarfélaga þess. Gjaldkeri sambandsins Maron Pétursson lagði fram reikninga sambandsins og kom fram í máli formanns og gjaldkera að rekstur sambandsins er í járnum og er það verkefni nýrrar stjórnar að auka tekjur sambandsins. HSV var rekið með um 300 þús. króna tapi á síðasta starfsári. Á þinginu störfuðu þrjár nefndir, allsherjarnefnd, fjárhags- og stefnumótunarnefnd og laganefnd. Sextán tillögur lágu fyrir þinginu og sköpðuðust góðar umræður í nefndum þingsins.
Eyrún Harpa Hlynsdóttir stjórnarmaður UMFÍ ávarpaði þingið og sagði frá starfi UMFÍ. Guðjón Þorsteinsson stjórnarmaður í körfuknattleikssambandi Íslands bar kveðju KKÍ til HSV og þakkaði fyrir gott samstarf. Því miður var ekki flogið til Ísafjarðar vegna öskufalls og komust því miður ekki aðrir gestir frá UMFÍ og ÍSÍ. Formaður HSV bar upp kveðju frá formanni UMFÍ og formanni og framkvæmdarstjóra ÍSÍ.
Formaður HSV veitti fjórum einstaklingum heiðursmerki HSV fyrir frábær störf í þágur íþrótta og æskulýðsstarfs í Ísafjarðarbæ. Gullmerki fékk Harpa Björnsdóttir og silfurmerki þau Marinó Hákonarson, Margrét Eyjólfsdóttir og Guðni Guðnason.
Jón Páll Hreinsson var endurkjörinn formaður HSV. Til stjórnarsetu til tveggja ár voru kosnir þeir Guðni Guðnason sem var endurkjörinn og Sturla Páll Sturluson sem kemur nýr inn í stjórn HSV. Í varastjórn voru kosin Erla Jónsdóttir, Ari Hólmsteinsson og Margrét Högnadóttir. Aðrir stjórnarmenn kosnir 2009 til tveggja ár eru Gylfi Gíslason og Maron Pétursson. Sigrún Sigvaldadóttir hættir í stjórn HSV eftir mörg ár í stjórn og eru henni færðar sérstakar þakkir fyrir góð störf og gott samstarf.
Blakfélagið Skellur sá um kaffiveitingar á þinginu og voru þær sérstaklega glæsilegar og er félaginu færðar þakkir fyrir.