Skíðagöngumaðurinn Dagur Benediktsson var útnefndur íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2022 í gær, sunnudaginn 8. janúar.
Dagur var tilnefndur af Skíðafélagi Ísfirðinga og í rökstuðningi segir:
Dagur hefur æft skíðagöngu með SFÍ frá unga aldri og keppir nú um allan heim fyrir hönd Ísfirðinga. Hann hefur lagt mikið á sig til að komast á þennan stað sem hann er í dag enda krefst það gífurlegs sjálfsaga að komast langt í einstaklingsíþrótt. Til að mynda ver Dagur yfir 700 klst. í æfingar á ári sem er að meðaltali um 2 klst á dag, alla daga ársins. Hann er mikil fyrirmynd fyrir krakkana í SFÍ og passar að kíkja á æfingar þeirra þegar hann er staddur á svæðinu. Dagur er í A-landsliðinu í skíðagöngu og keppir á mörgum helstu stórmótum heims, enda er hann einn af topp þremur Íslendingum á heimslista í skíðagöngu karla. Hann vann til fjölda verðlauna á síðasta ári og má þá helst nefna að hann var annar í mark af öllum í 50 km Fossavatnsgöngu.
Til gamans má geta þess að fyrir 40 árum, í febrúar 1983, hlaut móðir Dags, Stella Hjaltadóttir, útnefninguna íþróttamaður Ísafjarðar.
Frétt úr Ísfirðingi, 11. mars 1983.
Við sama tilefni var efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2022 einnig útnefndur og féll titillinn í skaut Grétars Smára Samúelssonar, en Grétar stundar skíðagöngu af miklu kappi. Í rökstuðningi SFÍ segir að hann hafi náð frábærum árangri á síðasta ári og unnið allar þær greinar sem hægt er að vinna á skíðagöngumótum fyrir hans aldur auk þess að vera í öðru sæti af 125 keppendum í 25 km hefðbundinni göngu í Fossavatnsgöngunni.
Grétar Smári og Dagur.
Þá voru veittar viðurkenningar þeim sem hlutu tilnefningu frá sínu íþróttafélagi í báðum flokkum.
Tilnefningar í kjörinu um íþróttamann Ísafjarðarbæjar
Karen Rós Valsdóttir – Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar
Jón Gunnar K. Shiransson – Golfklúbbur Ísafjarðar
James M. Parilla f.h. Hilmis Hallgrímssonar – Körfuknattleiksdeild Vestra
Grétar Logi Sigurðsson f.h. Hafsteins Más Sigurðssonar – Blakdeild Vestra
Dagur Benediktsson – Skíðafélag Ísfirðinga
Jón Hálfdán Pétursson f.h. Nicolaj Madsen – Knattspyrnudeild Vestra
Stefán Freyr Jónsson f.h. Rolands Lebedevs – Handknattleiksdeild Harðar
Tilnefningar í kjörinu um efnilegasta íþróttamann Ísafjarðarbæjar
Sverrir Bjarki Svavarsson – Blakdeild Vestra
Pétur Þór Jónsson – Handknattleiksdeild Harðar
Karen Rós Valsdóttir – Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar
Hjálmar Helgi Jakobsson – Golfklúbbur Ísafjarðar
Haukur Fjölnisson – Körfuknattleiksdeild Vestra
Grétar Smári Samúelsson – Skíðafélag Ísfirðinga
Ekki á mynd: Marvin Darri Steinarsson – Knattspyrnudeild Vestra