Fyrir leik meistaraflokks Kkd. Vestra og Selfoss 17. febrúar síðastliðinn skrifuðu bræðurnir Hugi og Hilmir Hallgrímssynir undir afrekssamning við Afrekssjóð HSV.  Samningarnir fela í sér að Afreksjóður greiðir mánaðarlegan styrk til íþróttamannanna í eitt ár.  Er þetta annað árið í röð sem bræðurnir gera slíkan samning við sjóðinn.

Guðný Stefanía Stefánsdóttir, formaður stjórnar Afrekssjóðs, skrifaði undir samninginn fyrir hönd HSV en Ingólfur Þorleifsson, formaður Kkd. Vestra, skrifaði undir fyrir hönd félagsins.

Bræðurnir, sem eru nýorðnir 18 ára, þykja vera einir efnilegustu körfuboltamenn Íslands um þessar mundir.  Þeir hafa verið lykilleikmenn og náð frábærum árangri með yngri liðum Kkd. Vestra, t.d. bikarmeistaratitill í 9. flokki árið 2017, silfur í Íslandsmóti 10. flokks 2018 og sigur á Scania Cup í Svíðþóð síðastliðið sumar.  Einnig spila þeir stór hlutverk fyrir meistaraflokk Kkd. Vestra á þessu tímabili. Hilmir og Hugi stunda nám við Menntaskólann á Ísafirði og eru þar á Afreksbraut.

Í morgun var tilkynnt að bræðurnir eru báðir valdir í 16 manna U18 ára landsliðshóp KKÍ vegna verkefna á komandi sumri en þeir voru liðsmenn U18 í fyrra auk U16 og U15 árin þar á undan. U18 ára landsliðið keppir á NM í Finnlandi í júní og EM í Oradea í Rúmeníu í júlí.

HSV óskar þessum efnilegu íþróttamönnum innilega til hamingju með frammistöðuna og samninginn.