Halldór Halldórsson og Jón Páll Hreinsson undirrita samninginn
Halldór Halldórsson og Jón Páll Hreinsson undirrita samninginn

Frétt af bb.is

Ísafjarðarbær og Héraðssamband Vestfirðinga (HSV) hafa gert með sér verkefnasamning sem hefur það að markmiði að renna enn frekari stoðum undir íþrótta- og æskulýðsstarf í sveitarfélaginu.

Samningnum fylgja greiðslur upp á átta milljónir króna gegn vinnu ýmissa verkefna. Með samningnum aukast greiðslur bæjarins til HSV um tæp 170% og sér sambandið um að ráðstafa bæði fjármunum og verkefnum til aðildarfélaga sinna með tilliti til barna- og unglingastarfs þeirra.

Segja má að um tímamótasamning sé að ræða þar sem verið er að tryggja HSV í sessi sem fulltrúa íþróttafélaganna í bænum. Beinum samningum bæjarins við íþróttafélögin fækkar með honum, en fjárframlagið eykst.

Meðal þeirra verkefna sem skilgreind eru í fylgiskjali samningsins eru vinna við atburði Skíðaviku, árleg þrif á fjörum, umsjón með sparkvöllum bæjarins, þrif á rakettum og öðru drasli eftir áramót og umsjón með Fossavatnsgöngunni og Óshlíðarhlaupinu.