Það var kaflaskiptur en skemmtilegur leikur sem boðið var upp á í Jakanum í gærkveldi. Gestirnir frá Þorlákshöfn komu sterkir til leiks og börðust eins og ljón. Það hefði engum átt að koma á óvart enda eru þeir þekktir fyrir baráttu og eru með mjög skemmtilegt lið. KFÍ menn virtust engu að síður slegnir út af laginu og endaði fyrsti leikhluti 20-28 fyrir Þór. Svipaða sögu er að segja af öðrum leikhluta þó hann hafi verið heldur jafnari. Leikmenn KFÍ voru ekki vaknaðir, ef svo má að orði komast, en voru aðeins byrjaðir að bíta frá sér. Í hálfleik var staðan 36-42 fyrir Þór og ekki laust við að áhorfendur væru orðnir áhyggjufullir. Ekki var þetta nákvæmlega það sem Borce þjálfari og leikmenn höfðu lagt á ráðin með en aftur verður að hrósa Þórsurum fyrir hörkuleik. Stefndi í stórsigur gestanna ef fram færi sem horfði.
Í þriðja leikhluta hrökk KFÍ hraðlestin í gang og menn sögðu hingað og ekki lengra. Annar eins viðsnúningur á leik hefur ekki sést í áraraðir hjá okkar mönnum á heimavelli. Vörn KFÍ var frábær á þessum kafla og í raun það sem eftir lifði leiks. Ekki er hægt að sleppa því að minnast á Daniel Midgley sem kom inn með frábæra baráttu þarna og sýndi enn og aftur hversu mikilvægur leikmaður hann er orðinn. Samvinna hans og Craig Schoen var aðdáunarverð og breytti svo sannarlega gangi leiksins. Leikhlutinn endaði 31-5 fyrir KFÍ og vel skiljanlegt að leikmenn Þórs hafi verið orðnir aðeins pirraðir undir lok hans. Líklega langt síðan þeir hafa verið leiknir svona grátt? Enginn er annars bróðir í leik og staðan var orðin 67-47 fyrir KFÍ!
KFÍ lét aldrei þessa öruggu forystu af hendi þrátt fyrir ágætar tilraunir Þórsara til þess að komast inn í leikinn aftur. Eins og sagði í fyrirsögn fréttarinnar var að lokum sannfærandi sigur KFÍ á heimavelli gegn Þór orðin staðreynd. Staðan í leikslok var 83-65 fyrir KFÍ.
Erfitt er að velja mann leiksins og líklega færi best á því að segja að það hafi einfaldlega verið liðsheildin og seiglan sem var MVP í kvöld. Engu að síður nefnum við miðherjan okkar knáa Mateusz Sowa, sem var með 18 stig, 18 fráköst, 2 varin skot og 4 stolna bolta! Eigum við að ræða það eitthvað...? Þeir Darco Milosevic og Hjalti Magnússon voru með athyglisverða tölfræði, báður náðu 75% nýtingu í 3ja stiga skotum sínum. Greinilegt að tilraun Hjalta til inngöngu í kílograms-klúbbinn hefur ekki haft slæm áhrif á hann. Að lokum verður að minnast á það að allir úr leikmannahópi KFÍ komu við sögu í kvöld og er það til marks um að hópurinn er að breikka.
Að loknum leik héldu áhorfendur sælir og glaðir heim. Þetta var síðasti heimaleikur liðsins á árinu og árangur þeirra er mjög viðunandi. Næst eiga þeir leik á föstudaginn 18. desember í Reykjavík og sækja þá lið Ármanns/Þróttar heim. Nánar verður tilkynnt um þann leik síðar og Vestfirðingar fyrr og nú sem staddir verða í Reykjavík eru hvattir til að mæta þar og styðja þá til sigurs í síðasta leik ársins.
frétt tekinn af heimasíðu KFÍ www.kfi.is