Á bikarmótinu var Kristín einungis þremur sekúndum frá heimsmetinu og er það ótrúlegur árangur sé tekið tillit til smæðar Íþróttafélagsins Ívars og bágborinnar aðstöðu sundfólks á Ísafirði. Kristín æfir í Sundhöllinni á Ísafirði og segja þær mæðgur það vissulega erfitt að æfa í 16 metra laug en allar keppnir fara fram í 50 og 25 metra laugum. Sigríður bætir við að aðgengismál fatlaðra séu ekki eins og best verði á kosið í Sundhöllinni sem gerir fötluðum erfitt fyrir að stunda sund en segir að vissulega sé erfitt að koma aðgengismálum í topp ástand í svo gömlu húsi.
Sem dæmi um frábæran árangur Kristínar í fyrra má nefna að á fyrrnefndu bikarmóti, sem er stigamót, mætti Kristín ein til leiks frá Ívari vegna forfalla en skilaði engu að síður 1.709 stigum í pottinn. Næsta lið á undan náði 4.757 stigum en notuðu til þess 39 sundmenn. Kristín æfir þrisvar í viku og segir að þau séu fimm sem æfi sund hjá Ívari en einungis hún taki þátt í mótum og getur það verið ansi einmanalegt. Næsta mót á dagskránni hjá Kristínu er Íslandsmót í apríl. Draumurinn er að fara á stórt sundmót á Ítalíu í haust en slík ferðalög eru kostnaðarsöm og ekki ákveðið hvort Kristín fari.
Sundið á allan hug Kristínar og lítill tími fyrir önnur áhugamál. Hún starfar á endurhæfingardeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Auk Kristínar voru eftirtaldir íþróttamenn tilnefndir til verðlaunanna: Sigfús Fossdal lyftingamaður, Guðmundur Valdimarsson skotíþróttamaður, Jón Hrafn Baldvinsson körfuboltamaður, Guðmundur Sigurvin Bjarnason gönguskíðamaður, Hafsteinn Rúnar Helgason knattspyrnumaður og Anton Helgi Guðjónsson golfari.
Fréttin er fengin frá BB
Myndasmiðurinn er Halldór Sveinbjörnsson hjá BB.