Stjórn HSV skrifaði í dag undir samning við nýjan yfirþjálfara íþróttaskóla HSV. Nýi þjálfarinn heitir Bjarney Gunnarsdóttir og er íþróttakennari. Hún er með MS próf í íþrótta- og heilsufræðum frá HÍ og hefur lokið diplomnámi í viðburðarstjórnun frá Háskólanum á Hólum. Bjarney hefur mikinn áhuga á allri hreyfingu og finnst gaman að nýjum áskorunum. Hún spilaði og þjálfaði fótbolta í mörg ár auk þess sem hún hefur langa reynslu af sundkennslu, skokk- og hjólaþjálfun sem og almennum íþrótta- og leikjanámskeiðum.
Bjarney er ættuð héðan að vestan, föðurafi hennar var Halldór Jónsson bílstjóri og ökukennari og móðurafi og amma; Pétur Sigurðsson Vestrapúki og Hjördís Hjartardóttir. Bjarney mun nú feta í fótspor Péturs afa síns sem sinnti íþróttamálum á Ísafirði af miklum dugnaði á árum áður.
Bjarney flyst ásamt fjölskyldu sinni til Ísafjarðar í sumar og mun hún hefja störf sem yfirþjálfari íþróttaskóla HSV 1. maí næstkomandi.
HSV hlakkar til komu Bjarneyjar og samstarfs um áframhaldandi uppbyggingu íþróttaskólans sem og við önnur góð verk HSV og Ísafjarðarbæjar í íþróttamálum.