Tekið af vef Vestri.is
Viljayfirlýsing um byggingu íþróttahúss
Á fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar fimmtudaginn 18. mars var samþykkt tillaga bæjarráðs varðandi viljayfirlýsingu um samstarf Ísafjarðarbæjar og Íþróttafélagsins Vestra vegna byggingu íþróttahúss á Torfnesi á Ísafirði og bæjarstjóra jafnframt falið að vinna málið áfram með íþróttafélaginu. Með þessari samþykkt er stigið mikilvægt skref í þá átt að leita leiða til að byggja umrætt mannvirki og leysa úr brýnni þörf á bættri aðstöðu á Torfnesi.
Undanfarin ár hefur verið gert ráð fyrir byggingu íþróttahúss í fjárhagsáætlunum sveitarfélagsins en ekkert orðið úr framkvæmdum þrátt fyrir að verkið hafið verið boðið út í tvígang. Í viljayfirlýsingunni kemur fram að Íþróttafélagið Vestri lýsir yfir vilja til að taka yfir heildarumsjón og ábyrgð á byggingu fjölnota íþróttahúss en í því felst hönnun, framkvæmd og fjármögnun. Á móti lýsir Ísafjarðarbær yfir vilja til að taka húsnæðið á leigu og greiða ákveðna upphæð á ári í tiltekinn árafjölda sem nánar verður kveðið á um í samningi þegar forsendur liggja fyrir. Að leigutíma loknum eignast Ísafjarðarbæ húsnæðið að fullu. Er miðað við að heildarkostnaður við verkið verði á bilinu 550-650 milljónir króna.
Næstu vikur verða nýttar til að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu með það að markmiði að allar forsendur liggi fyrir ekki seinna en í maí. Í kjölfarið verði gengið frá samningi um verkefnið að því gefnu að báðir aðilar telji það framkvæmanlegt út frá fyrirliggjandi forsendum.
Ástand beggja knattspyrnuvallanna á Torfnesi er bágborið og standast þeir engan veginn þá kröfur sem gerðar eru slíkra mannvirkja í dag. Ekki hefur verð skipt um gervigras á minni vellinum frá því að hann var tekinn í notkun fyrir tveimur áratugum og grasvöllurinn er vart nothæfur þar sem undirlagið er ónýtt. Er hann eingöngu notaður sem keppnisvöllur meistaraflokka yfir hásumarið og varla það því heimalið hafa þurft að spila heimaleiki á útivelli þegar veðuraðstæður eru óhagstæðar. Meistarflokkur karla hefur síðustu ár æft á knattspyrnuvellinum í Bolungarvík en börn og ungmenni æfa á gervigrasvellinum. Þegar líður á vetur færast æfingar inn í íþróttahúsin á Torfnesi og í Bolungarvík sem eru fullnýtt fyrir.
Íþróttahúsið á Torfnesi er löngu sprungið og annar engan veginn eftirspurn íþróttafélaga um tíma fyrir æfingar, kappleiki og íþróttamót. Yfir veturinn eru helgarnar undirlagðar vegna leikja og móta sem þýðir að æfingar falla niður hjá fjölmörgum flokkum. Þannig féllu niður hátt á annað hundrað æfingar á haustönn 2021. Nýtt hús með aðstöðu fyrir knattspyrnuiðkun mun minnka álagið á íþróttahúsinu á Torfnesi og skapa meira svigrúm fyrir aðrar íþróttagreinar. Fyrst og síðast er þó verið að bæta aðstöðu hundruða barna og ungmenna sem stunda íþróttir í sveitarfélaginu. Er mikilvægt að þau hafi sömu tækifæri og standi jafnfætis jafnöldrum sínum í öðrum sveitarfélögum þegar kemur að framboði á öflugu íþróttastarfi og aðstöðu til íþróttaiðkana barna og ungmenna.
Stjórn HSV sendi erindi til sviðstjóra Skóla og tómstundaviðs í október 2021 þar sem ítrekuð var brýn þörf á byggingu fjölnota knattspyrnuhúss á Ísafirði. Í kjölfarið fóru framkvæmdastjóri og formaður á fund bæjarráðs þann 25. október sl. ásamt fulltrúum Íþróttafélagsins Vestra þar sem þörfin var ítrekuð og þar kom jafnframt fram að fullkomin samstaða væri varðandi þá brýnu þörf.
HSV fagnar því að málið sé komið í þann farveg að farið sé að sjá fyrir endann á áralangri baráttu og styður viljayfirlýsingu Íþróttafélagsins Vestra og Ísafjarðarbæjar um uppbygginguna.