Á ársþingi HSV sem haldið var 24. maí síðastliðin voru ellefu einstaklingum veittar heiðursviðurkenningar HSV.  Fimm gullmerki og sex silfurmerki voru veitt einstaklingum sem að hafa unnið ötult starf í þágu íþróttahreyfingarinnar

Eftirfarandi fengu viðurkenningar.

 

Silfurmerki HSV:

Hólmfríður Vala Svavarsdóttir

Hómfríður Vala fæddist á Ólafsfirði og ólst upp með skíði á fótunum, eins og algengt er um Ólafsfirðinga. Framan af voru alpagreinarnar hennar íþrótt, en síðar sneri hún sér æ meira að skíðagöngu. Eftir að Vala (eins og hún er jafnan kölluð) fluttist hingað til Ísafjarðar árið 2010 fór hún fljótlega að láta ærlega til sín taka í skíðalífi bæjarins. Hún var mjög sterk skíðagöngumanneskja sjálf og varð t.d. Íslandsmeistari árið 2013, en hún var ekki síður mjög öflug og kærkomin viðbót við þann hóp fólks sem heldur starfi Skíðafélags Ísfirðinga gangandi með óþrjótandi vinnuframlagi við allskyns stjórnun og utanumhald. Það er þó ekki síst við þjálfun þar sem framlag Völu hefur verið ómetanlegt. Hún hefur stutt ótal börn við að taka sín fyrstu skref á gönguskíðum, en hin síðari ár hefur hún einbeitt sér að kennslu fyrir fullorðna. Skíðagönguhelgar, sem hún hefur þróað og stjórnað um árabil, hafa notið gífurlegra vinsælda. Nánast um hverja helgi yfir vetrartímann flykkist fólk hvaðanæva að til Ísafjarðar til að læra á gönguskíði, og líklega eru þau farin að skipta einhverjum þúsundum sem hafa lært að ganga á skíðum fyrir tilstilli Hólmfríðar Völu. Árið 2019 hlaut hún Virðisaukann – frumkvöðlaverðlaun Ísafjarðarbæjar, fyrir þetta námskeiðahald.

Vala lætur samt ekki skíðagönguna duga. Hún er í stjórn Hlaupahátíðar á Vestfjörðum og stundar af krafti alls kyns íþróttir og útivist á borð við fjallgöngur og fjallaskíðamennsku, hjólreiðar og hlaup svo eitthvað sé nefnt. Í fyrra vann hún það afrek ásamt sjö öðrum konum, að ganga á skíðum þvert yfir Grænlandsjökul í leiðangri sem stóð yfir í 31 dag.  Það verður fróðlegt að fylgjast með áframhaldandi ævintýrum Hólmfríðar Völu.

 

Daníel Jakobsson

Daníel fluttist til Ísafjarðar fjögurra ára gamall. Hér komst hann ungur í kynni við skíðagönguíþróttina og snemma varð ljóst að þar var afar efnilegur drengur á ferð. Að loknum grunnskóla fluttist Daníel til Svíþjóðar til að helga sig íþróttinni og varð með árunum einhver allra besti skíðagöngumaður sem Ísland hefur átt.  Íslandsmeistaratitlar hans eru fleiri en hægt er að telja og hann keppti fyrir Íslands hönd á ýmsum stórmótum, m.a. á Ólympíuleikunum í Lillehammer árið 1994. Það sama ár var hann einnig valinn íþróttamaður ársins á Ísafirði .

Eftir að afreksferlinum lauk hefur Daníel verið duglegur að gefa til baka til skíðagöngunnar og annarra íþrótta. Hann var formaður Skíðasambands Íslands 2006-2010 og flutti síðan til baka til Ísafjarðar þar sem hann hélt áfram að sinna skíðaíþróttinni, bæði í mótahaldi, stjórnun og sem alþjóðlegur eftirlitsmaður. Hann var formaður stjórnar Fossavatnsgöngunnar um árabil og tók þátt í að leiða gríðarlegan vöxt þeirrar göngu.  Auk skíðagöngunnar hefur Daníel verið virkur í öðrum íþróttum, t.d. hlaupum og hjólreiðum. Nú fyrir skömmu var hann svo kosinn í framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og mun án efa reynast íþróttalífinu í landinu öflugur bandamaður hér eftir sem hingað til.

 

Jón Ólafur Sigurðsson

Jón Ólafur betur þekktur sem Nonni Búbba hefur verið óþreytandi í  sjáfboðastörfum fyrir íþróttahreyfinguna. Fyrsta aðkoma hans var að reisa skíðalyftur á Seljalandsdal og síðan hefur hann unnið sjálfboðastarf fyrir allar skíðagöngur til þessa dags. Þá hefur hann unnið mikið starf fyrir barnastarf Sæfara smíðað flotbryggjur og lagfært áhöld og báta. Hefur Sæfari notið tæknikunnáttu hans við öll þessi störf og ber að þakka það.

Nonni er af gegnheilu Ísfirsku skíðakyni og hefur verið viðloðandi skíðaíþróttina á einn eða annan hátt mestallt sitt líf.  Það eru þó kannski ekki afrek og sigrar á mótum sem standa uppúr hjá Jóni, heldur allt það starf sem hann hefur unnið til að aðrir geti fengið að njóta skíðaíþróttarinnar. Það vita allir sem til þekkja, að engin íþrótt blómstrar nema að til sé fólk sem er tilbúið til að ljá henni tíma sinn, þekkingu og starfsorku. Þetta starf fer ekki alltaf hátt, en ef ekki væri fyrir fólk eins og Jón Ólaf þá væri saga skíðaíþróttarinnar hér á Ísafirði ekki eins glæsileg og raun ber vitni.

Jón Ólafur var í öflugum flokki manna sem á árunum í kringum 1970 reistu lyftur og fleiri mannvirki á Seljalandsdal svo að úr varð eitt allra besta svigskíðasvæði landsins. Á þeim sama Seljalandsdal hefur hann svo í seinni tíð lagt gjörva hönd á plóg við að byggja upp frábæra aðstöðu fyrir skíðagöngufólk. Þess utan hefur hann sinnt allskyns störfum í tengslum við mótahald; troðið brautir, tekið tímann, sett upp marksvæði og allt annað sem gera þarf.  Það er eiginlega erfitt að sjá fyrir sér Fossavatnsgönguna, bikarmót, landsmót eða skíðaskotfimi án þess að Jón Ólafur komi þar eitthvað nærri. Alltaf, þegar óskað er eftir sjálfboðaliðum til vinnu á Dalnum, má treysta á að Jón Ólafur mæti fyrstur manna og finni, með sínu rólega fasi og einstöku útsjónarsemi, bestu leiðina til að leysa verkefnin sem bíða.

Ekki má heldur gleyma öðru mikilvægu framlagi Jóns Ólafs til skíðaíþróttarinnar, en það er auðvitað Albert, sonur hans, sem nú er einhver allra besti skíðagöngumaður landsins. Jón Ólafur og hans fólk mun því enn um sinn halda áfram að auðga íþróttalíf bæjarfélagsins.

 

Skúla Þorstein Norðfjörð

Skúli hefur setið í stjórn handknattleiksdeildar Harðar í mörg ár sem gjaldkeri. Hann hefur sinnt því starfi virkilega vel. Ásamt því hefur hann haldið virkilega vel utan um yngri flokka starfið hjá Herði og passað að ekkert gleymist þar, hvort sem það er við skipulagningu eða sem fararstjóri. 
Hann er alltaf til í að aðstoða og á handknattleiksdeildin honum mikið að þakka. 

 

 

Juan Manuel Escalona

Juan gekk í raðir Vestramanna haustið 2019, þegar liðið hóf sín fyrstu skref í úrvalsdeild.  Og frá haustinu 2020 hefur hann verið aðalþjálfari blakdeildarinnar.

Árangur hans með karlaliðin sérstaklega, verður að teljast vera einstaklega góður. Undir handleiðslu Juans er að vaxa upp áberandi stór og öflugur hópur stráka, sem urðu ekki aðeins Íslands og bikarmeistarar Ú16 á síðasta tímabili og deildarmeistarar í 3ju deild á þessu tímabili.  Heldur voru nánast allir þessir strákar valdir í landsliðsúrtak síðasta haust og fjórir af þeim fóru með U17 landsliðinu á Nevsa-mótið í október síðastliðinn. 

Öll tímabilin undir stjórn Juans, hefur karlaliðið komist í 4 liða umspil í úrslitakeppni Íslandsmótsins og Kjörísbikarsins. Eftirminnilegast er þó Kjörísbikarkeppnin núna síðasta í mars, þar sem Vestri lagði KA sannfærandi í undanúrslitum og spilaði stórskemmtilegan úrslitaleik gegn margföldum meisturum Hamars.  Úrslitaleikur á hæsta level og stærsta viðburði viðkomandi íþróttar verður að teljast ein af mestu stundum í Vestfirskum hópíþróttum undanfarna áratugi.

 

Signý Þöll Kristinsdóttur

Signý hefur verið gríðarlega virk í starfi Blakdeildar Vestra undanfarin ár.  Signý hefur tekið þátt í velflestum þáttum i starfi félagsins; sem leikmaður, leiðbeinandi, foreldri, stjórnarmaður og fararstjóri.  Undanfarin ár hefur Signý verið formaður yngri flokka ráðs blakdeildar Vestra og verið vakin og sofin í því starfi auk þess sem hún hefur farið í velflestar keppnisferðir yngri flokkana sem fararstjóri á þeim tíma.

Signý hefur verið virkur leikmaður kvennaliðsins undanfarin ár, hvort heldur sem er í liði Vestra á Íslandsmóti eða á öldungamótum Blaksambandsins.

Signý heldur öllum boltum á lofti sem berast til hennar, sama hvort að þeir snúa að skipulagi þjálfunar, uppsetningu eða þátttöku á yngri flokkamótum.  Framkvæmd og skipulagning heimaleikja, undirbúningi keppnisferðalaga eða vinnu við fjáraflanir.

Framlag Signýjar til starfs blakdeildar Vestra undanfarin ár er ómetanlegt og er sannarlega þakkarvert.


Gullmerki HSV 2023

Gísla Jón Kristjánsson

Gísli er Harðverji í húð og hár og gerir allt sem hann getur til þess að íþróttir á svæðinu dafni. Hann hefur setið í stjórn Harðar í mörg ár og ef hann er ekki í stjórn þá er hann alltaf til í að leiðbeina og aðstoða. Hann hefur unnið ötult starf í þágu handboltans á svæðinu í mörg ár og er hvergi nærri hættur. Hann fylgdi félaginu frá neðri deildum upp í efstu deild í handbolta og hefði það aldrei verið mögulegt án hans og stuðningi annarra aðila.

Hann er alltaf fyrstur á svæðið þegar þarf að skipuleggja eða setja upp og hefur hjálpað til í flestum sjálfboðastörfum innan félagsins. Hann er öflugur í fjáröflunum og fyrirmyndar foreldri í íþróttastarfinu því þrátt fyrir að synir hans séu fullorðnir einstaklingar í dag, þá er hann ekkert á förum. 

 

Guðni Ólafur Guðnason

Guðni er fæddur 14. desember 1965 og var ekki hár í loftinu þegar hann fór að æfa körfubolta hjá KR þar sem hann átti síðan langan og farsælan feril. Varð hann m.a. bikarmeistari með meistaraflokki karla 1984 og 1991 og var fyrirliði þegar liðið varð Íslandsmeistari árið 1990. Guðni lék 76 A-landsleiki á árunum 1985-1992 og var m.a. í landsliði Íslands sem vann sig upp í B-deild EM í fyrsta skipti vorið 1986. Það ár var hann útnefndur Körfuknattleiksmaður ársins. Árið 1996 kom hann til Ísafjarðar þar sem hann gerðist þjálfari hjá Körfuknattleiksfélagi Ísafjarðar jafnframt því að spila með liðinu. Kom hann KFÍ fljótt upp í efstu deild  og fór með liðið alla leið í bikarúrslit árið 1998. Guðni hefur komið að þjálfun fjölmargra flokka innan félagsins jafnframt því að sitja þar í stjórn til lengri og skemmri tíma og sinna ýmsum þeim störfum sem fylgja íþróttastarfsemi sem þessari, s.s. vinnu við mótahald og leiki, dómgæslu, fjáraflanir o.fl. Hann átti sæti í framkvæmdastjórn Körfuboltabúða KFÍ, síðar Vestra, frá 2009 þegar fyrstu búðirnar voru haldnar og allt til þess að síðustu búðirnar voru haldnar 2022. Voru búðirnar landsþekktar fyrir metnaðarfullt prógram og nutu mikilla vinsælda meðal ungra iðkenda. Ennfremur átti Guðni sæti í undirbúningshópinum sem vann að stofnun íþróttafélagsins Vestra. Á stofnfundinum 16. janúar 2016 var hann kosinn í aðalstjórn félagsins og hefur gegnt embætti gjaldkera frá upphafi. Guðni hefur um árabil átt sæti í mótanefnd KKÍ og um tíma sat hann í stjórn HSV.

Guðni hefur nú að mestu lagt körfuboltaskóna á hilluna en þar sem hann er íþróttamaður í eðli sínu og í blóð borið að stunda líkamsrækt og hreyfingu, þá fór hann að æfa blak og helgaði sig þeirri íþrótt í nokkur ár en um árabil hefur það hins vegar verið golfíþróttin sem á hug hans allan. Þar, líkt og í körfuboltanum, hefur Guðni tekið þátt í þeim störfum sem tilheyra því að taka þátt í skipulögðu íþrótta- og félagsstarfi, hvort sem um er að ræða stjórnarstörf eða önnur þau störf sem starfsemin krefst. Hann er mikill liðsmaður og gott að vinna með honum. Sem afreksíþróttamaður var hann frábær fyrirmynd og sama má segja um feril hans utan vallar þar sem hann hefur unnið mikið og óeigingjarnt starf í þágu íþróttahreyfingarinnar. Eiginkona Guðna, Sólveig Pálsdóttir, hefur verið hans mesti og besti liðsmaður og hafa þau hjónin verið einstaklega samstíga í störfum sínum fyrir íþróttahreyfinguna hér fyrir vestan. Er framlag þeirra ómetanlegt og til mikillar fyrirmyndar.

 

Sigrúnu Sigvalda

Sigrún hefur verið virk í starfi Blakdeildar Vestra og þar á undan Blakfélagsins Skells, undanfarin 30 ár að minnsta kosti og keppt svo til á hverju einasta ári þann tíma á öldungamótum Blaksambandsins auk þess að vera í liði Vestra á Íslandsmótum og stjórn félagsins öðru hvoru.

Öldungablak er sá grunnur sem starf blakdeildar Vestra er byggt ofan á og er því gríðarlega mikilvægt fyrir félagsskapinn. Það er því ómetanlegt að hafa Sigrúnu til að leita til, hvort sem það er á æfingu, við framkvæmd heimaleikja í úrvalsdeild eða sem fyrirmynd í íþróttaiðkun.

 

Sólveigu Pálsdóttur

Sólveig hefur verið virk í starfi Blakdeildar Vestra og þar á undan Blakfélagsins Skells, undanfarin 20 ár í það minnsta.  Sólveig hefur tekið þátt í svo til öllum þáttum i starfi félagsins; leikmaður, þjálfari, foreldri, stjórnarmaður, fararstjóri auk þess að vera ein af reynslumestu dómurinn okkar í röðum.

Þá hefur hún keppt í velflestum leikjum kvennaliðsins undanfarna áratugi, hvort heldur sem er í liði Vestra á Íslandsmóti eða á öldungamótum Blaksambandsins.

Ómetanlegt er að hafa Sólveigu til að leita til í leik og starfi auk þess sem hún er góð fyrirmynd í íþróttaiðkun, því íþróttir snúast ekki bara um afreksmennsku heldur ekki síður um að lifa lífstíl sem inniheldur íþróttaiðkun við hæfi hvers og eins á hverjum tíma.

 

Aðalbjörg Óskarsdóttir

Aðalbjörg eða Alla eins og við þekkjum hana kom eins og stormsveipur inn í knattspyrnuhreyfinguna fyrir nokkrum árum. Við vorum fljót að sjá hversu öflug félagskona var þarna á ferð. Fjáraflanir á hennar svæði ruku upp úr öllu valdi, en Alla var búsett á Drangsnesi. Alla lét það ekki stoppa sig að keyra til Ísafjarðar með drenginn sinn á fótboltaæfingar, koma sér vel fyrir á tjaldsvæðinu í Tunguskógi í nokkrar vikur yfir sumartímann til að strákurinn hennar gæti mætt á æfingar reglulega o.s.frv. Ef hún gat mætt, þá var hún mætt hvort sem það var að taka þátt í fjáröflunum, skipuleggja keppnisferðir, grilla pylsur ofan í iðkendur eða annað hún gerði þetta allt saman og gerði það vel. Þann 18. mars s.l. lést Alla eftir stutta en erfiða baráttu við krabbamein. Það er gríðarlegur missir fyrir okkur öll, en ekki síst fyrir samfélagið hennar á Drangsnesi og fjölskyldu hennar. Alla er vel að gullmerki HSV komin og viljum við með því sýna þakklæti fyrir hennar störf í þágu félagsins. Merkið verður afhent eiginmanni Öllu og börnum.