Sundfélagið Vestri og Skíðafélag Ísfirðinga hafa skrifað undir samninga við afreksfólk sitt. Samningurinn er við þá íþróttamenn sem stunda nám við Menntaskólann á Ísafirði og eru skráðir á afreksbraut skólans. Samningurinn er svokallaður „fyrirmyndarsamningur" og skrifa íþróttamennirnir m.a undir það að sniðganga áfengi, tóbak og aðra vímugjafa sem og stunda almennt hollt og heilbrigt líferni. Við undirskrift samningsins fengu krakkarnir að gjöf afar vegleg æfingaföt frá sportvöruversluninni Núpi á Ísafirði, en bæði Núpur og sérstakur forvarnarsjóður Lýðheilsustöðvar styrktu fatakaupin.

Með samningnum er Sundfélagið og Skíðafélagið að gefa tóninn varðandi afreksmannastefnu í samfélaginu og hversu mikilvægt það sé að afreksíþróttamenn taki ákvörðun um það nota hvorki áfengi, tóbak né aðra vímugjafa samhliða sinni íþrótt. Þeir íþróttamenn sem skrifuðu undir eru: Aníta Björk Jóhannsdóttir Vestra, Anna María Stefánsdóttir Vestra, Ástrós Þóra Valsdóttir Vestra, Herdís Magnúsdóttir Vestra, Elín Jónsdóttir SFÍ, Ebba Kristín Guðmundsdóttir SFÍ og Gauti Geirsson SFÍ. Vestri og Skíðafélagið vilja jafnframt hvetja önnur íþróttafélög á svæðinu að taka sig til fyrirmyndar og gera slíkt hið sama fyrir sitt íþróttafólk.