Mikið var um að vera í íþróttalífi Ísfirðinga um liðna helgi. Keppt var í þremur íþróttahúsum, Torfnesi, Bolungarvík og Þingeyri í körfubolta, blaki og boccia. Bogfiminámskeið fór fram hjá Skotíþróttafélagi Ísafjarðarbæjar í aðstöðu þeirra á Torfnesi og 50 konur voru á gönguskíðanámskeiði á Seljalandsdal. Auk þess lék knattspyrnulið Harðar tvo leiki og lið Vestra einn í Reykjavík. Yngri flokkar Vestra í körfubolta voru líka á ferðinni, 7. flokkur stúlkna spilaði í Njarðvík og 9. flokkur á Stykkishólmi. Skíðakrakkar voru við keppni norður í landi, göngumenn á Ólafsfirði og alpakrakkar á Dalvík.

Í íþróttahúsinu á Þingeyri fór fram í fyrsta sinn keppni á Íslandsmeistaramóti í körfubolta en þar var leikið mót hjá 9. flokki drengja. Á Þingeyri er verið að setja upp nýja skorklukku í íþróttahúsið og verður þá hægt að spila í húsinu leiki hjá yngri flokkum í blaki og körfubolta. Væntanlega verður mikið spilað þar á næstu leiktíð.

Á Torfnesi á föstudagskvöld lék meistarflokkur Vestra í körfubolta sinn síðasta heimaleik fyrir úrslitakeppni er þeir léku við lið Hamars. Leikurinn tapaðist 84-101 en Vestri hefur þegar tryggt sér sæti í úrslitakeppni deildarinnar sem hefst í lok mánaðarins. Á laugardag kl. 11 sigraði drenglið Vestra í körfubolta lið Keflavíkur. Blaklið karla lék kl. 13 við lið HKb og sigraði 3-1. Að leik loknum fékk Vestri afhnt verðlaun fyrir að vera deildarmeistarar í 1. deild. kl. 15 var komið að kvennaliði Vestra í blaki en þær töpuðu fyrir liði Ýmis 0-3. Með þeim sigri tryggði lið Ýmis sér deildarmeistaratilil í 1. deild kvenna og var þeima afhent sigurlaun að leik loknum. Á sunnudag fór svo fram í húsinu Góumót Kubba í boccia.

Í íþróttahúsinu í Bolungarvík sigraði blið Vestra í körfuknattleik við lið Grundarfjarðar. Á sunnudagkl. 14.00 lék kvennalið Vestra í blaki við Aftureldingu-b, sá leikur tapaðist 3-0 og kl. 16 lék stúlknaflokkur Vestra í körfubolta við lið Hauka.