Auður Líf Benediktsdóttir efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2016
Auður Líf Benediktsdóttir efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2016
1 af 2

Í hófi Ísafjarðarbæjar síðastliðinn sunnudag þar sem íþróttamaður Ísafjarðarbæjar var útnefndur, var einnig útnefndur efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar. Það var Auður Líf Benediktsdóttir sem var valin úr hópi ungra og efnilegra iðkenda.

Auður hefur æft blak frá 7 ára aldri. Hún á marga Íslandsmeistaratitla með yngri flokkum Skells. Á árinu 2016 var hún lykilleikmaður kvennaliðs Skells og síðan Vestra, þrátt fyrir ungan aldur. Liðið keppir í 1. deild Íslandsmótsins. Á árinu 2016 fór Auði mikið fram sem leikmaður og var valin í U17 ára landslið Íslands sem keppti á Norður-Evrópumóti sl. haust. Á mótinu vann hún sér inn stöðu í byrjunarliðinu og fékk hún mikið hrós frá landsliðsþjálfurunum fyrir frammistöðuna.

 Til viðbótar við þetta fékk Auður tækifæri til að æfa og spila strandblak á Möltu sumarið 2016. Auður er sterkur strandblakari en í þeirri íþrótt reynir sérlega mikið á snerpu og þol. Hún keppti í maltnesku mótaröðinni í strandblaki ásamt stúlku frá Möltu og enduðu þær í fyrsta sæti.

Þeir sem voru tilnefndir til efnilegasta íþróttamanns Ísafjarðarbæjar auk Auðar eru eftirfarandi:

Ásgeir Óli Kristjánsson Golfklúbbi Ísafjarðar

Jón Ómar Gíslason handknattleiksdeild Harðar

Nökkvi Harðarson körfuknattleiksdeild Vestra

Sigurður Hannesson Skíðafélagi Ísfirðinga

Þráinn Ágúst Arnaldsson Knattspyrnudeild Vestra