Undanfarin ár hefur Landflutningar styrkt Íþróttaskóla HSV um jólin með verkefni sem ber heitið Gleðigjafir. Styrkurinn er fólgin í því að hver greidd sending, til eða frá norð-Vestfjörðum með Landflutningum, fer óskert sem styrkur til Íþróttaskólans.

Prísin er einfaldur og góður- greiddar eru 790 kr. fyrir hámark 30 kg. eða 0,1 m³.  Athygli er vakin á því að sama gildir um alla pakka á leið vestur- ef þeir kjósa sér far með Landflutningum fer sendingargjaldið óskert til Íþróttaskóla HSV.

Þessi fjáröflun skiptir rekstur Íþróttaskólans miklu máli og þá þjónustu sem skólinn veitir. Það er því von að foreldrar, forráðamenn og velunnarar taki við sér og nýti sér þessa frábæru þjónustu Landflutninga og fjárfesti um leið í metnaðarfullu og uppbyggjandi íþróttastarfi fyrir börn. 

Næstkomandi mánudag, þriðjudag og miðvikudag verður tekið á móti jólapökkum og greiðslu í Torfnessíþróttahúsinu á milli 16:00 – 18:30. Þar munu starfsmenn HSV vera til staðar og taka við gjöfum sem eiga ferðalag fyrir höndum til að gleðja og kæta ættingja og vini.

Athugið að miðvikudagurinn 18. des. er síðasti dagur til að senda pakka suður með Landflutningum. Eftir þann dag fer jólakötturinn á stjá.