„Við tókum þátt þessu móti í annað sinn, en það var að þessu sinni haldið í Vík í Mýrdal dagana 7.-9. júní. Árangurinn var mjög góður, við komum heim með eitt gull, eitt silfur og eitt brons. Gullið í pönnukökubakstri vann Sigríður Króknes, silfur í púttkeppni vann Þórleif Skarphéðinsdóttir og brons í sveitakeppni í boccia unnu Héðinn Ólafsson, Björn Helgason og Heiðar Guðmundsson en varamenn voru Gunnlaugur Jónasson og Gunnar Veturliðason,“ segir Björn Helgason, fyrrverandi formaður Kubba, íþróttafélags eldri borgara á Ísafirði, sem náði þessum glæsta árangri á Landsmóti UMFÍ 50+ (fimmtugir og eldri). 

„Við vorum líka með í fyrra, en félagið er tveggja ára gamalt,“ segir Björn. 

Keppendur Kubba voru 22 í ár en 21 keppti fyrir hönd félagsins í fyrra. Björn segir að framkvæmd mótsins og annað hafi verið með ágætum en veður hefði getað verið betra. 

Gaman er að geta þess vegna aldursmarkanna (50+), að minnstu munaði að lið Kubba hefði alveg eins getað keppt á Landsmóti 70+ (sem reyndar er ekki haldið). Allir keppendurnir voru komnir yfir sjötugt nema einn sem er 69 ára ... 

hordur@bb.is
Fréttin er tekin af vef Bæjarins Besta