Bæjarráð Ísafjarðarbæjar og Jón Páll Hreinsson, formaður Héraðssambands Vestfirðinga, skrifuðu í dag undir samstarfssamning og verkefnasamning. Samningar sem þessir hafa verið í gildi undanfarin ár og hafa vakið athygli og eftirtekt á landsvísu.

Samstarfssamningurinn hljóðar alls upp á 10,2 m.kr. og felur í sér framlag bæjarins vegna skrifstofuhúsnæðis, þjálfarastyrkja, húsaleigu- og æfingastyrkja og framlög í afreksmannasjóð.

Verkefnasamningurinn felur í sér rekstrarstyrk frá Ísafjarðarbæ að fjárhæð 6,7 m.kr. sem verður ráðstafað sem rekstrarframlagi til aðildarfélaga HSV. Stjórn HSV sér um að ráðstafa rekstrarframlaginu milli félaga með tilliti til umfangs barna- og unglingastarfs þeirra.

Aðildarfélög HSV taka á móti að sér einstaka verkefni, svo sem þrif á fjörum, umsjón með golfvöllum, vinnu við Skíðaviku og 17. júní, þrif eftir áramót og fleira.