Hreyfing og heilsa

 

Í Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða þessa vikuna verður sjónum beint að samhengi hreyfingar og heilsu. Hannes Hrafnkelsson, sérfræðingur í heimilislækningum, mun fjalla um fylgni lífsstíls við ýmsa sjúkdóma nútímans og fer hann yfir helstu rannsóknir sem tengjast sjúkdómum og hreyfingu.

Á síðustu áratugum hefur komið æ betur í ljós að lífsstíll hefur verulega fylgni við marga af helstu sjúkdómum sem vestrænar þjóðir glíma við. Fjölbreytilegar rannsóknir hafa í áranna rás verið gerðar á tengslum sjúkdóma og hreyfingar og mun Hannes í erindi sínu fara yfir helstu rannsóknir á því sviði ásamt því að fjalla um ráðlagða hreyfingu og áhrif hreyfingar á ýmsa sjúkdóma og lífslengd.

Hannes Hrafnkelsson er búsettur í Reykjavík og starfar sem heimilislæknir við Heilsugæsluna á Seltjarnarnesi. Hann fluttist til Ísafjarðar ungur að aldri og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði. Að því loknu lá leiðin í læknisfræði við Háskóla Íslands og síðar í sérfræðinám í heimilislækningum, m.a. í Noregi. Hannes varði síðan doktorsritgerð sína í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Ritgerðin fjallar um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma og tengsl líkamsbyggingar við bein hjá 7-9 ára börnum.

Vísindaportið stendur frá 12.10-13.00 og er öllum opið.