Ragney Líf Stefánsdóttir
Ragney Líf Stefánsdóttir
1 af 2

Ragney Líf Stefánsdóttir sundkona úr íþróttafélaginu Ívari var í gær útnefnd íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2008 við hátíðlega athöfn í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.

Ragney Líf er 16 ára og hefur æft sund hjá Íþróttafélaginu Ívari í níu ár. Á síðasta ári keppti hún á þremur stórum mótum; Malmö-open í Svíþjóð, Íslandsmóti ÍF í 50 metra laug og Íslandsmóti ÍF í 25 metra laug. Á öllum mótunum stóð hún sig með prýði og vann m.a. til fjögurra verðlauna á Malmö-open, þar á meðal tvö gullverðlaun. Fimm verðlaun á Íslandsmótinu í 50 metra laug ,þar af tvö gull og eitt brons, og þrjú gullverðlaun á Íslandsmótinu í 25 metra laug. Samtals vann hún fimm Íslandsmeistaratitla á árinu 2008.

Einnig voru tilnefndir; Anton Helgi Guðjónsson úr Golfklúbbi Ísafjarðar, Birgir Björn Pétursson hjá KFÍ, Brynjólfur Örn Rúnarsson hjá glímudeild Harðar, Bylgja Dröfn Magnúsdóttir úr Hestamannafélaginu Hendingu, Emil Pálsson hjá Boltafélagi Ísafjarðar, Jón Guðni Pálmason hjá Skotíþróttafélagi Ísafjarðarbæjar, Sólveig Guðmunda Guðmundsdóttir hjá Skíðafélagi Ísfirðinga og Lovísa Anna Jóhannsdóttir hjá Hestamannafélaginu Stormi.

Héraðssamband Vestfirðinga óskar Ragneyju Líf innilega til hamingju með útnefninguna.