Krakkarnir í blakfélaginu Skelli tóku þátt í seinni hluta Íslandsmótsins í blaki yngri flokka um helgina. Skellur sendu fjögur lið; þrjú í 5. flokki og eitt lið í 4. flokki og er þetta fyrsta heila Íslandsmótið sem Skellur tekur þátt í. Í krakkablaki er spilað mismunandi stig af blaki eftir getu og á Íslandsmótinu er spilað í mismunandi deildum eftir því hvaða stig krakkarnir spila. Hér fyrir neðan er sagt frá hverju liði fyrir sig í örfáum orðum:


 Skellur 1 í 5. flokki: Liðið spilaði 3. stig á mótinu í haust og 4. stig á þessu móti. Óhætt er að segja að þessir krakkar séu farnir að spila fallegt blak. Í þeirra deild voru 12 lið og spilað í tveimur riðlum. Á mótinu í haust unnu þau alla leiki í sínum riðli og töpuðu naumlega úrslitaleik 2-1 við Aftureldingu sem var efsta liðið í hinum riðlinum. Á þessu móti fór riðlakeppnin á sama hátt, Skellur og Afturelding unnu hvort sinn riðilinn og aftur var leikinn úrslitaleikur í lok mótsins. Nú mættu krakkarnir í Skelli gríðarlega einbeitt til leiks og aldrei var spurning hvoru megin sigurinn lenti. Leikurinn vannst 2-0 og Skellur hömpuðu Íslandsmeistaratitlinum í sinni deild. Það vakti mikla athygli að félagið skyldi ná gulli á fyrsta Íslandsmótinu sínu.  Í liðinu voru: Bjarni Pétur, Auður Líf, Ívar Tumi, Birkir og Daði. Fjögur þeirra eru í raun í 6. flokki og eru því að spila upp fyrir sig. Þetta lið mun því spila í deild með A-liðum á næsta ári enda hafa þau sýnt og sannað að þau eiga fullt erindi í það. (tekið af heimasíðu Skells www.hsv.is/skellur )