Kristín Þorsteinsdóttir hjá Íþróttafélaginu Ívari var í gær útnefnd íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2013. Kristín, sem er 21 árs, hefur æft sund frá átta ára aldri. Í umsögn valnefndar segir að Kristín hafi ávallt stundað æfingar af elju og samviskusemi ásamt því að vera mikil keppnismanneskja. Blaðamaður náði á Kristínu og móður hennar, Sigríði Hreinsdóttur, og eru þær mæðgur að vonum stoltar af árangrinum. Árið 2013 var gott sundár hjá Kristínu. Hún tók þátt í Reykjavík International Games, Íslandsmeistarmóti í 50m laug, bikarmóti á Akureyri og Íslandsmeistarmóti í 25m laug. Á þessum mótum vann hún fjögur gull, tvö silfur og einu sinni vann hún til bronsverðlauna. 

Á bikarmótinu var Kristín einungis þremur sekúndum frá heimsmetinu og er það ótrúlegur árangur sé tekið tillit til smæðar Íþróttafélagsins Ívars og bágborinnar aðstöðu sundfólks á Ísafirði. Kristín æfir í Sundhöllinni á Ísafirði og segja þær mæðgur það vissulega erfitt að æfa í 16 metra laug en allar keppnir fara fram í 50 og 25 metra laugum. Sigríður bætir við að aðgengismál fatlaðra séu ekki eins og best verði á kosið í Sundhöllinni sem gerir fötluðum erfitt fyrir að stunda sund en segir að vissulega sé erfitt að koma aðgengismálum í topp ástand í svo gömlu húsi. 

Sem dæmi um frábæran árangur Kristínar í fyrra má nefna að á fyrrnefndu bikarmóti, sem er stigamót, mætti Kristín ein til leiks frá Ívari vegna forfalla en skilaði engu að síður 1.709 stigum í pottinn. Næsta lið á undan náði 4.757 stigum en notuðu til þess 39 sundmenn. Kristín æfir þrisvar í viku og segir að þau séu fimm sem æfi sund hjá Ívari en einungis hún taki þátt í mótum og getur það verið ansi einmanalegt. Næsta mót á dagskránni hjá Kristínu er Íslandsmót í apríl. Draumurinn er að fara á stórt sundmót á Ítalíu í haust en slík ferðalög eru kostnaðarsöm og ekki ákveðið hvort Kristín fari. 

Sundið á allan hug Kristínar og lítill tími fyrir önnur áhugamál. Hún starfar á endurhæfingardeild Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða. Auk Kristínar voru eftirtaldir íþróttamenn tilnefndir til verðlaunanna: Sigfús Fossdal lyftingamaður, Guðmundur Valdimarsson skotíþróttamaður, Jón Hrafn Baldvinsson körfuboltamaður, Guðmundur Sigurvin Bjarnason gönguskíðamaður, Hafsteinn Rúnar Helgason knattspyrnumaður og Anton Helgi Guðjónsson golfari.

Fréttin er fengin frá BB
M
yndasmiðurinn er Halldór Sveinbjörnsson hjá BB.