Þröstur Jóhannesson og Ingi Þór Ágústsson
Þröstur Jóhannesson og Ingi Þór Ágústsson
1 af 2

Á ársþingi hsv sem haldið var á dögunum voru þeir Tryggvi Sigtryggsson Golfklúbbi Ísafjarðar og Þröstur Jóhannesson Skíðafélagi Ísfirðinga sæmdir gullmerki ÍSÍ. Ingi Þór Ágústsson var fulltrúi ÍSÍ á þinginu og að lokinni tölu heiðraði hann þá félaga.

Tryggvi Sigtryggsson hefur alla tíð verið viðloðandi íþróttahreyfinguna á Ísafirði, enda búinn að fá gullmerki HSV og einnig silfurmerki Golfsambands Ísland.  Hann var formaður Golfklúbbs Ísafjarðar í tíu ár og vann ötullega að uppbyggingu golfskálans og vallarins í Tungudal.  Tryggvi lét af formennsku GÍ árið 2016 en hefur unnið mjög óeigingjarnt starf við nýframkvæmdir og viðhald á golfvellinum, sérstaklega eftir að hann komst á eftirlaun.

Þröstur Jóhannesson hefur um langt árabil starfað fyrir skíðahreyfinguna á Ísafirði (og Íslandi reyndar líka), hefur setið í stjórn og nefndum fyrir Skíðafélag Ísfirðinga og áður Skíðaráð Ísafjarðar síðan um 1980. Hann hefur verið vakinn og sofinn yfir framgangi gönguskíðaíþróttarinnar á Ísafirði bæði sem keppnisgrein og ekki síður sem almenningsíþrótt. Ekki er hægt að fara yfir störf Þrastar fyrir íþróttahreyfinguna án þess að farið sé yfir hans framlag til vaxtar og viðgangs Fossavatnsgöngunnar. Hann og félagi hans, Guðmundur heitinn Ágústsson, stóðu vaktina við framkvæmd mótsins um langa hríð. Þeir tóku einnig fullan þátt í eflingu göngunnar og eiga stóran þátt í að Fossavatnsgangan er orðinn einn stærsti árlegi viðburður í íþróttalífi landsins. Þröstur stundaði íþróttina af kappi og á að baki marga Íslandsmeistaratitla í greininni. Hann keppti fyrir Íslands hönd á Olympíuleikunum í Lake Placid 1980. Hann stundar sína íþrótt enn af eljusemi auk þess að leggja fram óteljandi vinnustundir við að bæta aðstöðu til gönguskíðaiðkunar og efla starf Skíðafélagsins. Þröstur er góð fyrirmynd fyrir þá sem stunda íþróttir til keppni og ekki síður þá er stunda þær sér til ánægju. Þá er Þröstur ekki síður góð fyrirmynd fyrir þá er leggja að mörkum ómælda sjálfboðaliðsvinnu fyrir sína íþrótt og sitt félag.

HSV óskar Tryggva og Þresti til hamingju og þakkar þeim góð störf um leið og við vonumst til að njóta starfskrafta þeirra næstu áfram áratugina.