1 af 2

Það er ekki alltaf sem keppnisferðalögin ganga upp eins og þau eru skipulögð. Síðasta sunnudag var stór hópur íþróttakrakka frá aðildafélögum HSV veðurteppt á Ströndum vegna ófærðar og veðurs. Tæplega 40 krakkar frá KFÍ og BÍ88 ásamt farastjórum og þjálfurum gistu í íþróttahúsinu á Hólmavík og níu manna hópur frá Skíðafélaginu gistu á Borðeyri. Það að teppast er eitthvað sem allir verða að sætta sig við og gerir ferðirnar oft eftirminnilegri fyrir vikið. Hólmvíkingar hafa verið sérlega liðlegir við okkur hér við Djúp og eru snögg að opna íþróttahúsið þegar stórir hópar þurfa svefnpláss. Það er ómetanlegt og þakkar HSV þeim kærlega fyrir greiðviknina.