Knattspyrnumaðurinn Elmar Atli Garðarson var útnefndur íþróttamaður ársins 2023 í Ísafjarðarbæ í athöfn sem fram fór á laugardaginn á veitingastaðnum Logni.

Elmar Atli Garðarsson er fyrirliði knattspyrnuliðs Vestra, sem tryggði sér nýlega sæti í efstu deild karla í knattspyrnu á Íslandi. Hann hóf að leika með meistaraflokki sumarið 2014, þá 17 ára gamall. Elmar hefur borið fyrirliðabandið hjá Vestra frá árinu 2017 og sinnt því hlutverki með miklum sóma, með þrotlausri vinnu innan sem utan vallar. Elmar er mikil fyrirmynd, sérstaklega fyrir ungt knattspyrnufólk sem hann gefur sér ávallt tíma fyrir.

Elmar leikur stöðu varnarmanns hjá Vestra. Hann á að baki 233 KSÍ leiki og í þeim hefur hann skorað fjögur mörk. Hann er metnaðarfullur og leggur allt í sölurnar til að félagið hans nái árangri.

Elmar er fæddur og uppalin í Súðavík þar sem hann byrjaði ungur að æfa knattspyrnu. Hann hefur sýnt aðdáunarverða tryggð við félagið sitt sem og samfélagið með því að leika allan sinn knattspyrnuferil fyrir vestan. Tryggð sem nú hefur skilað knattspyrnuliði Vestra í röð bestu liða á Íslandi.

Við athöfnina voru efnilegustu íþróttamenn ársins 2023 einnig útnefnd en það voru þau Maria Kozak í bogfimideild Skotís og Sverrir Bjarki Svavarsson í blakdeild Vestra.


Sverrir Bjarki Svavarsson og Maria Kozak voru útnefnd efnilegustu íþróttamenn ársins 2023. Yngri systir Sverris tók við verðlaununum fyrir hans hönd.

Þá fengu ungmenni sem hafa verið valin í úrtakshóp fyrir landslið hjá sínum sérsamböndum viðurkenningu fyrir góðan árangur í íþróttum.


Ungmennin sem fengu viðurkenningu fyrir góðan árangur í íþróttum og fulltrúar þeirra sem komust ekki á athöfnina.

Síðast en ekki síst fékk Sigmundur Fríðar Þórðarson hvatningaverðlaun íþrótta- og tómstundanefndar, fyrir óeigingjarnt og ötult starf í þágu íþrótta, sérstaklega á Þingeyri.


Sigmundur ásamt Örnu Láru bæjarstjóra.


Íþróttafólkið sem var tilnefnt í kjöru um íþróttamann ársins


Íþróttafólkið sem var tilnefnt í kjöri um efnilegasta íþróttamann ársins