- 17.07.24
- Sigurður Hreinsson
Ályktun gegn þjóðarmorði
Ársþing HSV krefst refsiaðgerða gegn Ísrael, með sama hætti og gegn Rússlandi !
Á ársþingi HSV, sem haldið var 7 maí sl, var samþykkt eftirfarandi ályktun vegna hernaðar Ísraelshers gegn almenningi í Palestínu. Hafa ber í huga að tölurnar sem koma fram í ályktuninni eru yfir 2ja mánaða gamlar og hafa hækkað ískyggilega í millitíðinni:
Ályktun gegn þjóðarmorði
Í Palestínu hefur verið ófriður síðastliðin 70 ár. Milljónir Palestínumanna hefur verið hrakinn frá heimilum sínum og eignir þeirra ýmist verið eyðilagðar eða færðar öðrum.
Palestína er hertekið land og íbúar landsins hafa verið ofsóttir af landtökufólki, með gíslatöku, misþyrmingum, eignaspjöllum eða morðum. Og heimsbyggðin horfir í hina áttina.
Í sameiginlegu ákalli frá UNICEF á Íslandi, Hjálparstarfs kirkjunnar, ABC barnahjálpar, Rauða kross Íslands, UN Women Ísland og Barnaheilla - Save the Children á Íslandi, til íslenskra stjórnvalda segir ma: „Stríðið á Gaza er stríð gegn börnum, enginn staður í heiminum er þeim jafn hættulegur. Næringarskortur blasir við, vatnsskortur er nær alger og farsóttir yfirvofandi. Samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum eiga almennir borgarar alltaf rétt á mannúðaraðstoð og vernd í vopnuðum átökum en öllum er ljóst að þessu er ekki fyrir að fara. Stríðandi fylkingar virða í engu mannréttindi íbúa svæðisins og líf þeirra mun aldrei verða samt aftur, lifi þeir af. Eyðileggingin á Gaza er alger og hvergi er skjól fyrir almenna borgara.“
Undanfarna 200 daga hefur verið staðfest að Ísraelsmenn hafa drepið 42.500 manns sem gerir 212 almenna borgara á dag. Af þessum hópi eru 14 þúsund börn undir 16 ára. Að auki hafa Ísraelsmenn limlest yfir 70 þúsund manns.
Ísraelsmenn hafa lagt í rúst alla spítala á Gaza og drepið vel á fjórða hundrað lækna eða hjúkrunarfólk. Ísraelsmenn hafa drepið uþb 200 fjölmiðlamenn, 224 hjálparstarfsmenn og yfir 40 löggæslumenn.
Með kerfisbundnum hætti hafa Ísraelsmenn eyðilagt alla háskóla á Gaza og yfir 70% af öðrum innviðum svæðisins. Og vegna aðgerða Ísraelsmanna eru 90% af íbúum Gaza á flótta.
Markvisst hafa Ísraelsmenn hindrað aðkomu hjálparstarfsmanna og hjálpargagna inn á svæðið og eru vísvitandi að nota hungur sem vopn.
Í framhaldi af kæru Suður-Afríku telur Alþjóðadómstóllinn líkur á að aðgerðir Ísraelsmanna síðustu mánuði geti flokkast sem þjóðarmorð á palestínsku þjóðinni og mun hefja meðferð á málinu á þeim forsendum.
Ársþing HSV 2024 telur að heimssamfélagið ætti að vera löngu búinn að grípa inn í þessa atburðarás með öflugum refsiaðgerðum gegn Ísrael, með sama hætti og gegn Rússlandi og Belarus vegna árásar þeirra fyrrnefndu inn í Úkraínu fyrir tveimur árum.
Þingið harmar afstöðuleysi íþróttahreifingarinnar, bæði á Íslandi sem og í Evrópu, til áður nefndra voðaverka ísraelsmanna og krefst þess að ísraelskir íþróttamenn fái samskonar útilokun frá alþjóðaviðburðum og þeir rússnesku.
Áframhaldandi afstöðuleysi íþróttahreifingarinnar getur í besta falli talist hræsni en í versta falli kynþáttafordómar og meðsekt í þjóðarmorði.
Nánar
- 29.06.24
- Sigurður Hreinsson
Ársþing HSV haldið 7 og 21. maí
Fundurinn fór fram á 4 hæð
Ársþing HSV 2024 var sett þriðjudaginn 7. maí og fór það fram á 4. hæð stjórnsýsluhússins á Ísafirði. Anton Helgi Guðjónsson formaður setti þingið, það tuttugasta og fjórða. Sigurður Hreinsson var kosinn fyrsti þingforseti og Gylfi Ólafsson annar þingforseti. Þokkaleg mæting var á þingið en gildir þingfulltrúar voru 24 og þáttakendur í heild um 30.
Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, Kynningarfulltrúi UMFÍ og ritstjóri Skinfaxa ávarpaði þingið og flutti þingfulltrúum kveðjur frá stjórn UMFÍ.
Þingið samanstóð í aðalatriðum af hefðbundnum aðalfundarstörfum, skýrslu stjórnar, afgreiðslu reikninga og fjárhagsáætlunar, auk þess sem allnokkrar tillögur voru afgreiddar á þinginu. Ein tillagan sem var samþykkt, snýr yfirstandandi þjóðarmorði Ísraelsmanna á Palestínumönnum og afstöðuleysi stjórnvalda og íþróttahreifingarinnar til þeirra voðaverka sem eiga sér stað á Gasa. Var í ályktuninni þess krafist „að ísraelskir íþróttamenn fái samskonar útilokun frá alþjóðaviðburðum og þeir rússnesku.“ Þá segir jafnframt að: „áframhaldandi afstöðuleysi íþróttahreifingarinnar getur í besta falli talist hræsni en í versta falli kynþáttafordómar og meðsekt í þjóðarmorði.“
Þegar kom að liðnum kosningar vandaðist hinsvegar málið. Ekki lág fyrir framboð á nægjanlegum fjölda stjórnarmanna til að fullmanna stjórn sambandsins. Samþykkt hafði verið á síðasta ársþingi sú breyting á lögum, að kosið yrði í uppstillingarnefnd, en sá liður varð ekki virkur fyrr en á þessu þingi. Lendingin varð því sú að kjósa á þinginu 3ja manna uppstillingarnefnd og fresta þingi um 2 vikur, á meðan nefndin starfaði. Var í framhaldinu boðað til framhaldsþings þriðjudaginn 21 maí.
Framhaldaársþing HSV var svo sett 21 maí kl 17.00 á sama stað og hið fyrra. Eini liður var á dagskrá, sem voru kosningar.
Samkvæmt reglum er árlega kosið um öll sæti í stjórn nema þau tvö sem kosin voru á síðasta þingi til tveggja ára, sem voru þau Ingibjörg Elín Magnúsdóttir og Páll Janus Þórðarson.
Uppstillingarnefnd gerði það að tillögu að Sigurður Hreinsson yrði nýr formaður HSV, tveir aðilar í aðalstjórn til tveggja ára, yrðu þau Magnús Þór Bjarnason og Hafsteinn Már Andersen. Og í varastjórn þau Axel Sveinsson, Anton Helgi Guðjónsson og Sif Huld Albertsdóttir. Voru tillögur uppstillingarnefndar samþykktar með lófataki.
Stjórn HSV er þá þannig skipuð næsta árið:
Sigurður Hreinsson – formaður
Hafsteinn Már Andersen
Magnús Þór Bjarnason
Ingibjörg Elín Magnúsdóttir
Páll Janus Þórðarson
Varastjórn:
Axel Sveinsson
Anton Helgi Guðjónsson
Sif Huld Albertsdóttir
Nánar
- 8.05.24
- Dagný Finnbjörnsdóttir
Heiðursviðurkenningar á ársþingi HSV 2024
Á ársþingi HSV sem haldið var í gær, 7. maí voru þremur einstaklingum veittar heiðursviðurkenningar HSV. Tvö gullmerki og eitt silfurmerki voru veitt einstaklingum sem að hafa unnið ötult starf í þágu íþróttahreyfingarinnar
Eftirfarandi fengu viðurkenningar.
Gullmerki HSV:
Þórunn Pálsdóttir
Tilnefnd til gullmerkis HSV af Skíðafélagi Ísfirðinga
Þórunn hefur átt langa samleið með Skíðafélagi Ísfirðinga og hefur hún komið víða við í starfi félagsins. Hún byrjaði sem iðkandi í alpagreinum og keppti fyrir hönd félagsins á fjölmörgum mótum með góðum árangri. Síðar kom hún sterk inn í starf félagsins sem foreldri og fór meðal annars í æfinga- og keppnisferðir sem farastjóri. Víst er að enginn var svikinn um ást og umhyggju í þeim ferðum. Einnig var Þórunn gjaldkeri í stjórn SFÍ um nokkurra ára skeið.
Þórunn er einn af þessum sterku póstum sem Skíðafélagið byggir starf sitt á. Þó hún eigi ekki lengur iðkendur í félaginu er hún alltaf tilbúin að leggja fram vinnu hvort sem það er bakstur, aðstoð við þjálfun, vinna við mót eða hvað annað sem félagið tekur sér fyrir hendur. Nú síðasta áratuginn og ríflega það hefur Þórunn haft umsjón með Skíðaskálanum í Tungudal. Þar eru mörg handtökin sem þarf að vinna: Sjá um bókanir, skipta um á rúmum, þrífa, sinna þvotti, kaupa inn og passa upp á viðhald svo nokkuð sé nefnt. Þetta hefur Þórunn unnið í sjálfboðavinnu og þar með bæði sparað félaginu útgjöld og aflað því tekna.
Skíðafélag Ísfirðinga þakkar af heilum hug Þórunni fyrir hennar framlag, það er ómetanlegt að eiga svona liðsmann.
Jóhanna Oddsdóttir hefur verið viðloðandi skíðaíþróttina allt frá blautu barnsbeini enda fædd inn í eina þekktustu skíðaætt Ísfirðinga. Grænagarðsættina. Hún hefur um áratugaskeið verið eina af driffjöðrunum í starfi Skíðafélags Ísfirðinga.
Allir sem starfa að félagsmálum vita að án öflugra sjálfboðaliða getur ekkert félag lifað til lengdar. Og það finnast varla öflugri sjálfboðaliðar en Jóhanna Oddsdóttir. Hvænar sem þörf er á dugandi fólki til vinnu á Seljalandsdalnum er Jóhanna mætt fyrst allra, gjarnan með hann Nonna sinn með sér, og vinnur eins og sleggja uns verkefið hefur verið klárað. Gildir þá einu hvort um er að ræða uppsetningu á snjógirðingum, vinnu við mótahald, tiltekt í skálanum eða eitthvað annað. Alltaf má stóla á Jóhönnu. Hún hefur líka um árabilt stýrt af röggsemi einu stærsta kaffihlaðborði á Íslandi, Fossavatnskaffinu og setið í ritnefnd Skíðablaðsins í ótal mörg. Jóhanna hefur setið í stjórn skíðafélagsins og sinnt formennsku í mörg ár og skilið eftir sig gott verk. Ef skíðafélagið þarf á fólki að halda þá mætir Jóhanna. Ekki má heldur gleyma hlutverki hennar sem skíðamamma, því hún lagði Skíðafélagi Ísfirðinga til einn besta skíðagöngumann landsins undanfarin ár, Albert Jónsson.
Það er ótrúlega dýrmætt fyrir Skíðafélagið, og fyrir íþróttahreyfinguna, að eiga bandamenn eins og Jóhönnu Oddsdóttur. Jóhanna hlaut silfurmerki HSV árið 2018 og nú er komið að því að stíga skrefið til fulls og veita henni sjálft gullmerkið.
Silfurmerki HSV:
Leifur Bremnes hefur unnið gífurlega mikið sjálfboðaliðastarf hjá skotíþróttafélagi Ísafjarðar.
Núna þegar við erum að byggja aðstöðu , hefur Leifur notað allan sinn frítíma í að vinna við aðstöðuna. Svona menn eru ótrúlega dýrmætir fyrir félögin.
Nánar
- 17.04.24
- Dagný Finnbjörnsdóttir
Ársþing HSV haldið 7. maí
Í samræmi við 7. gr laga HSV er hér með boðað til 24. Héraðsþings HSV, þriðjudaginn 7. maí kl. 17:00. Þingið verður haldið á fjórðu hæðinni í Stjórnsýsluhúsinu.
Dagskrá og upplýsingar um tillögur sem fara fyrir þingið verður gefið út tveimur vikur fyrir þing
Tillögur sem óskað er eftir að teknar verði fyrir á Héraðsþingi, skulu hafa borist stjórn HSV fyrir 1. maí 2024.
Einnig er óskað eftir fólki til að gefa kost á sér í aðalstjórn HSV. Áhugasamir geta haft samand með tölvupósti í hsv@hsv.is fyrir frekari upplýsingar.
Frekari upplýsingar varðandi héraðsþing HSV má finna í lögum HSV sem nálgast má á heimasíðu HSV, hsv.is.
Nánar