Stjórn Héraðssambands Vestfirðinga auglýsir starf framkvæmdastjóra HSV laust til umsóknar. HSV er með starfssvæði í Ísafjarðarbæ og Súðavíkurhreppi og hefur 16 aðildarfélög innan sinna vébanda. Sambandið vinnur náið með sveitarfélögunum tveimur að uppbyggingu íþróttamála á svæðinu ásamt því að vinna með aðildarfélögum að framgangi einstakra íþróttagreina.
Framkvæmdastjóri er starfsmaður stjórnar HSV og ber ábyrgð á daglegum rekstri ásamt samskiptum við sveitarfélög, aðildarfélög og aðra hagsmunaaðila innan íþróttahreyfingarinnar. Um er að ræða 75-100% starf og er æskilegast að viðkomandi geti hafið störf 1. ágúst n.k eða eftir nánara samkomulagi.

Helstu verkefni:
▪ Umsjón með rekstri HSV ásamt áætlunargerð
▪ Eftirfylgni með framkvæmd Íþróttaskóla HSV
▪ Samskipti við Ísafjarðarbæ og eftirfylgni með framkvæmd samninga við bæjarfélagið
▪ Samskipti við aðildarfélög HSV
▪ Samskipti við UMFÍ, ÍSÍ og sérsambönd
▪ Samskipti við stjórn HSV


Hæfnikröfur:
▪ Háskólamenntun sem nýtist í starfi
▪ Góð hæfni í mannlegum samskiptum og sveigjanleiki
▪ Þekking á íþróttahreyfingunni og ástríða fyrir íþróttum
▪ Skipulagshæfni og nákvæmni í vinnubrögðum
▪ Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku, önnur tungumálakunnátta kostur
▪ Reynsla af rekstri
▪ Jákvæðni og rík þjónustulund
▪ Góð almenn tölvukunnátta ásamt grunnþekkingu í að vinna með heimasíður
Með umsókn skulu eftirfarandi gögn fylgja:
▪ Ferilskrá og kynningarbréf
▪ Afrit af prófskírteinum
▪ Meðmæli eða umsagnir um fyrri störf umsækjanda

Umsóknir skulu berast í tölvupósti á netfangið formadur@hsv.is
eða bréfleiðis á skrifstofu HSV:
Héraðssamband Vestfirðinga
Suðurgötu 12
400 Ísafjörður


Umsóknarfrestur er til og með 21. júní 2021

Nánari upplýsingar veitir:
Ásgerður Þorleifsdóttir formaður HSV s. 697-7867 / formadur@hsv.is


Við hvetjum alla áhugasama óháð kyni til að sækja um starfið. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Stjórn HSV áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Nánar
Sigríður L. Siðurardóttir
Sigríður L. Siðurardóttir
1 af 5

Á ársþingi HSV sem haldið var 19. maí síðastliðin voru sex einstaklingum veittar heiðursviðurkenningar HSV.  Tvö gullmerki og fjögur silfurmerki voru veitt einstaklingum sem að hafa unnið ötult starf í þágu íþróttahreyfingarinnar

Eftirfarandi fengu viðurkenningar.

Silfurmerki HSV 2021:

Sigríður L. Sigurðardóttir

Sirrý hefur starfað sem gjaldkeri SFÍ til fjölda ára og staðið sig með eindæmum vel í að halda utan um starf Skíðafélagsins. Hún hefur unnið ötullt starf fyrir hönd félagsins og jafnramt hefur hún í gegnum fyrirtæki sitt verið dyggur stuðningsmaður við öll verkefni Skíðafélagsins. Sirrý er nú að yfirgefa stjórn félagsins og vill stjórn nota þetta tækifæri til að þakka henni kærlega fyrir það góða starf sem hún hefur unnið.

 

Jónas Björnsson

Jónas hefur frá því að hann gekk í félagið verið mjög virkur félagsmaður. Hann sat í stjórn félagsins í fjögur ár og þar af eitt sem formaður. Jónas er mjög fórnfús félagsmaður og sér aldrei eftir sér í vinnu fyrir hönd félagsins. Hann hefur einnig verið ötull við að aðstoða yngri hestamenn við að koma undir sig fótunum í hestamennskunni. Það hefur hann gert með því að láta þá hafa pláss fyrir hross sín og vera til staðar á allan þann hátt sem þeir þurfa. Hann hefur verið einn af þeim sem leiðir byggingu íþróttamannvirkja sem nú rísa í Engidal.

 

Össur Össurarson

Össur sat í stjórn félagsins í fimm ár ásamt því að sinna ýmsum nefndarstörfum fyrir félagið og er enn að. Í dag sinnir hann starfi framkvæmdastjóra Kaplaskjóls og heldur utan um byggingu íþróttamannvirkja sem nú rísa í Engidal. Ásamt því að halda utan um uppbyggingu þá á hann ófá handtökin í byggingunni sjálfri. Hann hefur alltaf verið vel virkur félagsmaður og telur ekki eftir sér að sinna hinum ýmsum störfum sem til falla. Hann er einnig alltaf tilbúinn til að miðla af reynslu sinni til annarra í greininni.

 

Karl Geirmundsson

Karl er einn af stofnfélögum félagsins. Hann sat í stjórn og nefndum félagsins allt frá stofnun þess 1988 – 2001 og þar af í stjórn frá 1995 – 2001. Var hann einn af þeim sem börðust fyrir byggingu aðstöðunnar á Búðartúni í Hnífsdal og vann þar ómetanlegt starf. Þegar svæði hestamanna var flutt inn í Engidal kom hann að skipulagningu þess og uppbyggingu. Í dag er enn mikilvægur félagsmaður sem sýnir okkur sem nú störfum mikinn áhuga og aðhald. Hann hefur í gegnum tíðina verið óþreytandi í störfum sínum og alltaf verið að tilbúinn að vinna þau verk sem hann hefur verið fenginn í, óháð eðli þeirra.

 

Gullmerki:

Þorsteinn Magnfreðsson

Þorsteinn var kjörinn formaður Hestamannafélagsins Hendingar á stofnfundi félagsins 23. apríl 1988 og sat sem formaður fyrstu 3 starfsár félagsins. Ásamt því að sinna margvíslegum nefndarstörfum fyrir félagið. Þorsteinn er stórhuga og ósérhlífinn félagsmaður, með ódrepandi metnað fyrir því starfi sem honum er trúað fyrir. Hann leiddi félagið í gegnum stærstu uppbyggingu íþróttamannvirkja á Búðartúni í Hnífsdal. Í dag er hann einn af þeim sem leiðir byggingu íþróttamannvirkja í Engidal með dugnaði sínum og elju. Þorsteinn hefur allt frá stofnun félagsins verið einn af stoðum þess og stytta í leik og starfi.

 

Birna Lárusdóttir

 

Birna Lárusdóttir hefur starfað ötullega að körfuboltamálum hér á Ísafirði í rúman áratug. Birna kom inn í stjórn Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar, síðar Vestra, árið 2010 og hefur setið óslitið í stjórn síðan. Sama ár og Birna kom inn í stjórn KFÍ gekk hún í stjórn barna- og unglingaráðs KFÍ og sat þar til ársins 2020, þar af sem formaður frá 2013. Sem formaður leiddi Birna öflugt yngri flokka starf þar sem mikil áhersla var lögð á að efla allt starf með yngri iðkendum sem skilaði sér í mikilli fjölgun iðkenda.

Birna hefur átt sæti í framkvæmdastjórn Körfuboltabúða Vestra frá árinu 2013 og þar af verið framkvæmdastjóri búðanna síðan 2015. Hefur hún þar leitt öflugt starf sem hefur skilað einum bestu körfuboltabúðum landsins. Frá árinu 2017 hefur Birna átt sæti í stjórn Körfuknattleikssambands Íslands.

Birna á sjálf fjögur börn sem öll hafa stundað körfubolta og eru þrjú þeirra enn á fullu í körfubolta. Birna hefur fylgt börnum sínum vel eftir í körfuboltaiðkun þeirra og er góð fyrirmynd annarra foreldra þegar kemur að vinnu í þágu starfsins. Sjálfboðaliðastarf  Birnu í þágu körfuboltans er ómetanlegt

Nánar
Á myndinni eru frá vinstri:  Bjarki Stefánsson framkvæmdastjór HSV, Ásgerður Þorleifsdóttir formaður HSV og Viðar Sigurjónsson frá ÍSÍ.
Á myndinni eru frá vinstri: Bjarki Stefánsson framkvæmdastjór HSV, Ásgerður Þorleifsdóttir formaður HSV og Viðar Sigurjónsson frá ÍSÍ.

Á ársþingi HSV sem haldið var 19. maí sl. hlaut HSV viðurkenninguna fyrirmyndarhérað ÍSÍ. Ásgerði Þorleifsdóttur formaður HSV tók við viðurkenningunni fyrir hönd sambandsins en það var Viðar Sigurjónsson skrifstofustjóri ÍSÍ á Akureyri sem hingað var kominn til að afhenda hana.

Fyrirmyndahérað ÍSÍ er gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar sem snýr að íþróttastarfi. Verkefnið var samþykkt á Íþróttaþingi ÍSÍ árið 2015 og geta íþróttahéruð ÍSÍ sótt um að fá viðurkenningu til ÍSÍ fyrir fyrirmyndarstarf. Viðurkenningin fæst að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem ÍSÍ setur. Til að uppfylla skilyrðin sem fyrirmyndahérað þurfa íþróttahéruðin að fara í gegnum og uppfylla ákveðinn gátlisti með ýmsum atriðum um starfsemi íþróttahéraðsins.  

HSV hefur lengi unnið að þessari viðurkenningu og var það þáverandi framkvæmdastjóra HSV Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir sem bar hitann og þungann af undirbúningi þessarar viðurkenningar. Eru henni færðar bestu þakkir fyrir sitt framlag til þessarar viðurkenningar

 

Nánar

Ársþing HSV fór fram miðvikudaginn 19. maí sl. á 4. hæð stjórnsýsluhússins á Ísafirði. Jens Kristmannsson var kosinn þingforseti og stjórnaði hann þinginu af mikilli festu og röggsemi. Þátttakendur í þinginu voru tæplega 50.

Fyrir þinginu lá tillaga stjórnar varðandi innheimtu húsaleigu fyrir þær leiguíbúðir sem íþróttafélög innan vébanda HSV hafa haft aðgang að og HSV séð um að innheimta. Samþykkt var að HSV muni ekki lengur sjá um þessa innheimtu heldur munu Fasteignir Ísafjarðarbæjar gera það. HSV mun framvegis einungis halda utan um þær íbúðir sem styrktar eru af Ísafjarðarbæ. Stjórn HSV og framkvæmdastjóri munu vinna að frekari útfærslu á þessari samþykkt.

Ása Þorleifsdóttir sem gegnt hefur starfi formanns HSV sl. 3 ár gaf áfram kost á sér til formennsku til eins árs. Þær breytingar urðu á stjórn HSV að úr aðalstjórn gengu Hildur Elísabet Pétuesdóttir eftir 6 ára setu og Heimir Hansson sem setið hafði í 4 ár í stjórn félagsins. HSV þakkar þeim innilega fyrir þeirra störf í þágu félagsins. Í stjórn gengu Anton Helgi Guðjónsson og Dagný Finnbjörnsdóttir. Stjórn HSV er því þannig skipuð:

Ása Þorleifsdóttir formaður

Baldur Ingi Jónasson

Margrét Björk Arnardóttir

Anton Helgi Guðjónsson

Dagný Finnsbjörnsdóttir

Varastjórn: 

Tinna Hrund Hlynsdóttir Hafberg

Hákon Hermansson

Lára Ósk Pétursdóttir

Nánar

HSV býður upp á íþrótta- og leikjanámskeið fyrir þau börn sem eru að ljúka 1.-4. bekk í grunnskóla, fædd árin 2011-2014. 

Námskeiðin verða á eftirfarandi dögum:

               9.-11. júní → Verð 3000 krónur (3 dagar).

               14.-18. júní → Verð 4000 krónur (4 dagar).

               21.-24. júní → Verð 4000 krónur (4 dagar).

28.júní - 1. júlí → Verð 4000 krónur (4 dagar).

Hægt er að velja SKRÁNING iðkenda hér efst á síðunni eða fylgja þessum tengli https://hsv.felog.is/ til að skrá þátttakendur. Skrá þarf iðkendur á allar þær vikur sem taka á þátt í. Dagskrá hverrar viku er mismunandi.

Skráningu lýkur kl. 16:00 á fimmtudeginum fyrir námskeiðið sem hefst n.k. mánudag. Þar sem skipta þarf þátttakendum upp í minni hópa er nauðsynlegt að allar skráningar séu komnar inn í kerfið á réttum tíma. Gætið að réttum netföngum þar sem dagskrá vikunnar og mikilvægar upplýsingar eru sendar með tölvupósti á foreldra/forráðamenn áður en námskeiðið hefst.

Námskeiðin eru alla virka daga frá kl. 9-12. Krakkarnir geta fengið vistun frá kl. 8:30 án skipulagðrar dagskrár. Umsjón með námskeiðunum hafa Heiðar Birnir Torleifsson og Árni Ívarsson.

Leikjanámskeiðin verða með aðeins breyttu sniði í ár.  Um er að ræða hefðbundið námskeið fyrir börn í 1.-2. bekk þ.e, farið verður í leiki, fjöruferðir, hjólaferðir, fjallgöngur, sund, ýmsar íþróttagreinar prófaðar og margt fleira. Mæting fyrir 1.-2.bekk og er við Íþróttahúsið á Torfnesi.

Fyrir börn í 3.-4. bekk ætlum við aðeins að breyta til.  Fyrsta vikan verður hefðbundin(þá er mæting á Torfnesi).  En í viku tvö verða börnin á hestanámskeiði og fer það fram inn í Engidal. Í viku þrjú verður hjólreiðanámskeið og í viku fjögur golfnámskeið. Þjálfarar frá þessum greinum munu sjá um námskeiðin.

Á öllum námskeiðunum er nesti borðað um miðjan morgun og koma allir með hollt og gott nesti að heiman.

 

Rétt er að taka fram að öll börn eru velkomin á íþrótta- og leikjanámskeið HSV, búseta á starfssvæði HSV er ekki skilyrði. Nánari upplýsingar veitir Heiðar Birnir Torleifsson á netfanginu ithrottaskoli@hsv.is

Nánar