Á undanförnum sex árum sem ég hef starfað í stjórn HSV, þar síðustu þrjú sem

formaður hef ég átt orðastað við hundruðir manna, þjálfara, foreldra, iðkenda og

forsvarsmanna í íþróttahreyfingunni í Ísafjarðarbæ.

Smám saman hefur það runnið upp fyrir mér að við erum á villigötum. Við erum á

villigötum í rekstri og starfsemi í málefnum yngstu iðkendanna.

Það er mín staðfasta trú að það kerfi sem við höfum byggt upp hjá aðildarfélögum HSV

með mikilli sérhæfingu frá unga aldri og of mikilli áherslu á keppni og afrek sé rangt og

því eigum við að breyta. Ég tel jafnframt að kerfið sem heldur utanum þjálfun og keppni

yngstu iðkendanna sé of dýrt. Það er of umfangsmikið og það leggur of miklar kröfur á

stjórnendur og foreldra í að afla fjár til að halda starfinu úti, í stað þess að beina kröftum

þeirra í það sem skiptir máli að byggja upp betri einstaklinga í okkar unga fólki.

Það þarf margt að breytast til að hægt sé að snúa þessari þróun við. Fyrst og fremst

þarf hugarfarsbreytingu. Svo þarf samstarf að stóraukast milli félaga. Loks þarf að

endurhugsa þarfir okkar yngstu iðkenda í samræmi við þarfir og óskir foreldra. Við

þurfum að spyrja okkur; Hvað er það í raun og veru sem skiptir mestu máli í starfsemi í

íþróttum yngstu barnanna? Þeir tímar sem framundan eru í okkar samfélagi gera auknar

kröfur á okkur sem eru í forsvari fyrir þessa grunnþjónustu sem íþróttastarf barna og

unglinga er. Það er ábyrgð okkar allra að skapa aðstæður þannig að allir geti fengið

tækifæri á að þroska líkama og hug innan vébanda íþróttahreyfingarinnar.

Þessar hugleiðingar mínar sem ég hef nú lýst fyrir ykkur eru ekki árás á núverandi starf

aðildarfélaga eða á það góða fólk sem starfar innan þeirra. Það fólk á allan heiður skilið

fyrir fórnfúst starf. Ómetanlegt starf fyrir samfélagið. Ég er hinsvegar að kalla eftir nýrri

hugsun, nýju hugarfari. Það er von mín að okkur takist að endurskipuleggja íþróttastarf

yngstu iðkenda okkar þannig að sérhæfing minnki, kostnaður foreldra minnki verulega

og gæðin aukist. Ég er amk. tilbúinn að leggja mitt af mörkum.

Jón Páll Hreinsson formaður HSV

Nánar

Alþjóðadagur hreyfingar

10.maí er alþjóðadagur hreyfingar. Af því tilefni bjóðum við upp á fræðandi fyrirlestur um samgönguhjólreiðar miðvikudaginn 12.maí á Ísafirði, á 4.hæð í Stjórnsýsluhúsinu kl: 12:00 - 13:00. Allir velkomnir og aðgangur ókeypis


Dagskrá:

Jón Páll Hreinsson, formaður HSV

Gígja Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri hreyfingar hjá Lýðheilsustöð. Alþjóðlegur dagur hreyfingar.

Kristín Lílja Friðriksdóttir, verkefnisstjóri Hjólað í vinnuna

Árni Davíðsson, Hjólafærni á Íslandi, samgönguhjólreiðar.

Margrét Halldórsdóttir íþrótta- og tómstundafulltrúi Ísafjarðarbæjar


Léttar veitingar í boði ÍSÍ.

Nánar

Flugfélag Íslands og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hafa endurnýjað samning um afsláttarkjör á fargjöldum í innanlandsflugi fyrir íþróttahreyfinguna til næstu 12 mánaða.

Þrátt fyrir miklar hækkanir á mikilvægum þáttum í flugrekstri, náðust samningar um að fargjöld haldist óbreytt frá samningi síðasta árs og á það vonandi eftir að létta undir með íþróttahreyfingunni í starfsemi þessa árs. 

ÍSÍ hefur átt farsælt samstarf við Flugfélag Íslands um áratuga skeið enda íþróttahreyfingin stór viðskiptavinur Flugfélags Íslands.

Samninginn má lesa hér.  Eintak af samningnum verður sent út á næstu dögum, til allra eininga innan vébanda ÍSÍ, til upplýsingar.

Á myndinni má sjá þau Ingi Þór Guðmundsson forstöðumaður sölu- og markaðssviðs FÍ og Líneyju Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ að handsala samninginn.

Nánar
  

Héraðssamband Vestfirðinga auglýsir eftir umsóknum í verkefnasjóð sambandsins. Samkvæmt reglugerð sjóðsins er honum ætlað að styrkja útbreiðslu og átaksverkefni í íþróttastarfi í Ísafjarðarbæ. Styrkveitingum er ætlað að efla íþróttastarf í sveitarfélaginu og auka aðgengi að einstökum íþróttagreinum. 

Umsóknarfrestur er til 17. maí 2010

Vakin er sérstök áhersla á reglugerð sjóðssins sem finna má á heimasíðu HSV www.hsv.is . Þar undir „Um HSV" og þar í verkefnasjóður. 

Sjóðurinn styrkir ekki: mannvirkjagerð, áhaldakaup, keppnisferðir eða uppskeruhátíðir.

 

Allar nánari upplýsingar veitir framkvæmdarstjóri HSV Kristján Þór Kristjánsson í síma: 861-4668 eða í tölvupósti: hsv@hsv.is

Nánar
Fjölmargir þingfulltrúar og gestir mættur á þingið.
Fjölmargir þingfulltrúar og gestir mættur á þingið.
1 af 3

10. ársþing HSV fór fram í gær 28.apríl í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði.  Mjög góð mæting var á þingið og mættu um 50 manns.  Marinó Hákonarson var þingforseti og Hermann Níelsson annar þingforseti og stjórnuðu þeir þinginu mjög vel og af mikilli fagmennsku  Þingritari var Sigrún Sigvaldadóttir.  Jón Páll Hreinsson formaður HSV flutti skýrslu stjórnar sem þetta árið var með nýju sniði og mjög viðamikil og gefur góða mynd af starfi HSV og aðildarfélaga þess. Gjaldkeri sambandsins Maron Pétursson lagði fram reikninga sambandsins og kom fram í máli formanns og gjaldkera að rekstur sambandsins er í járnum og er það verkefni nýrrar stjórnar að auka tekjur sambandsins.  HSV var rekið með um 300 þús. króna tapi á síðasta starfsári.  Á þinginu störfuðu þrjár nefndir, allsherjarnefnd, fjárhags- og stefnumótunarnefnd og laganefnd. Sextán tillögur lágu fyrir þinginu og sköpðuðust góðar umræður í nefndum þingsins.  
Eyrún Harpa Hlynsdóttir stjórnarmaður UMFÍ ávarpaði þingið og sagði frá starfi UMFÍ.  Guðjón Þorsteinsson stjórnarmaður í körfuknattleikssambandi Íslands bar kveðju KKÍ til HSV og þakkaði fyrir gott samstarf.  Því miður var ekki flogið til Ísafjarðar vegna öskufalls og komust því miður ekki aðrir gestir frá UMFÍ og ÍSÍ.  Formaður HSV bar upp kveðju frá formanni UMFÍ og formanni og framkvæmdarstjóra ÍSÍ. 
Formaður HSV veitti fjórum einstaklingum heiðursmerki HSV fyrir frábær störf í þágur íþrótta og æskulýðsstarfs í Ísafjarðarbæ.  Gullmerki fékk Harpa Björnsdóttir og silfurmerki þau Marinó Hákonarson, Margrét Eyjólfsdóttir og Guðni Guðnason. 
Jón Páll Hreinsson var endurkjörinn formaður HSV.  Til stjórnarsetu til tveggja ár voru kosnir þeir Guðni Guðnason sem var endurkjörinn og Sturla Páll Sturluson sem kemur nýr inn í stjórn HSV.  Í varastjórn voru kosin Erla Jónsdóttir, Ari Hólmsteinsson og Margrét Högnadóttir.  Aðrir stjórnarmenn kosnir 2009 til tveggja ár eru Gylfi Gíslason og Maron Pétursson.  Sigrún Sigvaldadóttir hættir í stjórn HSV eftir mörg ár í stjórn og eru henni færðar sérstakar þakkir fyrir góð störf og gott samstarf.
Blakfélagið Skellur sá um kaffiveitingar á þinginu og voru þær sérstaklega glæsilegar og er félaginu færðar þakkir fyrir.

Nánar