- 18.02.19
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Afrekssjóður HSV gerir samninga við Auði Líf og Þórð Gunnar
Ásgerður Þorleifsdóttir formaður HSV, Þórður Gunnar Hafþórsson Vestra, Auður Líf Benediktsdóttir Vestra og Hjalti Karlsson formaður Vestra.
Þórður og Auður Líf
Síðasta laugardag var skrifað undir styrktarsamninga Afrekssjóðs HSV við tvo efnilega íþróttamenn úr Vestra. Samningarnir fela í sér að Afrekssjóður greiðir mánaðarlega styrki til íþróttafólksins árið 2019. Í þetta skiptið voru gerðir samningar við Auðir Líf Benediktsdóttur frá blakdeild Vestra og Þórð Gunnar Hafþórsson hjá knattspyrnudeild Vestra. Undir samingana skrifuðu fyrir hönd HSV Ásgerður Þorleifsdóttir formaður og fyrir hönd Vestra Hjalti Karlsson formaður aðalstjórnar Vestra.
Auður Líf er 19 ára og ein efnilegasta blakkona landsins og hefur verið fastamaður í yngri landsliðum í blaki. Hún spilar með meistarflokki kvenna hjá Vestra í 1. deild. Árið 2018 keppti hún fyrir Íslands hönd á EM U19 sem haldið var í Úkraínu. Hún spilaði með B-landsliðinu í blaki á Ítalíu og aftur með U19 liðinu í Englandi. Markmið Auðar á árinu er að komast í A-landsliðið í blaki.
Þórður Gunnar er mjög efnilegum knattspyrnumaður sem þrátt fyrir að vera einungis 17 ára hefur spilað með meistarflokki Vestra síðustu tvö keppnistímabil. Siðustu tvö ár hefur hann verið valinn efnilegasti leikmaður Vestra og var útnenfdur efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar árið 2017. Þórður á að baki 8 landsleiki með yngri landsliðum og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark með U18 síðasta sumar. Á síðasta ári fór hann til reynslu hjá enska knattspyrnuliðinu Barnsley í vikutíma.
Nánar
- 18.02.19
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Vestri æfir á sandinum í Bolungarvík
Bjarni Jóhannsson þjálfari Vestra
Meistaraflokkur Vestra í knattspyrnu var á laugardaginn með æfingu á sandinum í Bolungarvík. Mikið aðstöðuleysi háir knattspyrnumönnum á svæðinu. Gervigrasvöllurinn er undir snjó og klaka og síðasta æfing sem þar fór fram var gönguskíðaæfing íþróttaskóla HSV. Því brá þjálfarinn, Bjarni Jóhannsson, á það ráð að vera með æfingu á sandinum í Bolungarvík. Vel var fallið út og snjólaus þéttur sandurinn var góð undirstaða fyrir hlaupaæfingu og léttan boltaleik. Umhverfið skartaði sínu fegursta, snævi þaktar hlíðar, sól í heiði og Jökulfirðir og Grænahlíð í fjarska handan Djúps.
Nánar
- 15.02.19
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Námskeið um hugræna þjálfun fyrir unga íþróttamenn
HSV mun næstu fjórar vikur bjóða upp á námskeið um hugræna þjálfun fyrir unga íþróttamenn. Námskeiðið er hluti af Afreksformi HSV þessa önnina. Ekki þarf að greiða sérstaklega fyrir námskeiðið en allir þátttakendur þurfa að vera skráðir í Afreksformið þar sem námskeiðsgjald er kr. 8.000.
Til að áætla fjölda þáttakenda þarf að skrá sig í hugræna þjálfun í gegnum skráningarsíðu HSV. Einnig má velja skráning iðkenda inn á heimasíðu HSV. Þeir sem ekki eru skráðir í Afreksformið geta gert það á sama stað.
Þátttakendum er skipt í tvo hópa, eldri og yngri.
Yngri hópurinn, iðkendur fædd 2005 og 2006, verður á fimmtudögum kl. 16.15-17.00.
Eldri hópurinn, iðkendur fædd 2003 og 2004, verða á fimmtudögum kl. 17.15 -18.00.
Ef iðkendur komast ekki í sinn tíma er þeim heimilt að skrá sig á hina tímasetninguna.
Fyrsti tími er fimmtudaginn 21. febrúar og síðan áfram næstu þrjá fimmtudaga; 28. febrúar, 7. mars og 14. mars.
Námskeiðið er haldið í kennslustofu í Menntaskólanum á Ísafirði.
Efnistök námskeiðsins eru eftirfarandi:
- - Hvað er hugræn þjálfun? Hverjir nota hana og af hverju.
- - Markmið, jákvætt og neikvætt sjálfstal, sjáfstraust.
- - Slökun og spennustjórnun.
- - Einnig verða verkefni sem þátttakendur eiga að æfa sig í heima.
Kennari á námskeiðinu er Baldur Ingi Jónasson sálfræðingur. Baldur hefur víðtæka reynslu úr íþróttum bæði sem iðkandi og þjálfari.
Nánar
- 15.02.19
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Blak á helginni
Tveir blakleikir verða á laugardaginn í íþróttahúsinu á Torfnesi.
Fyrri leikurinn er kl. 13.00 er Vestri meistaraflokkur kk tekur á móti Völsungi. Síðari leikurinn er kl. 15.00 en þá tekur kvennalið Vestra á móti Þrótti Reykjavík b.
Að leikjunum loknum eða kl. 17 verður dansstund þar sem bæjarbúum er boðið að mæta og dansa saman í íþróttahúsinu undir stjórn Evu Friðjþófsdóttur danskennara.
Nánar
- 12.02.19
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Afrekssjóður HSV gerir samninga við unga afreksmenn
Hilmir og Hugi ásamt Guðnýju Stefaníu formanni stjórnar Afrekssjóðs HSV. Ljósmynd Anna Ingimarsdóttir
Fyrir körfuboltaleik Vestra og Fjölnis í gær skrifaði Guðný Stefanía Stefánsdóttir formaður stjórnar afrekssjóðs HSV undir samninga við tvo unga og efnilega iðkendur körfuknattleiksdeildar Vestra. Samningarnir fela í sér að Afreksmannasjóður greiðir mánaðarlegan styrk til íþróttafólksins í eitt ár. Um var að ræða bræðuna Hilmar og Huga Hallgrímssyni.
Hilmir hefur náð langt í íþrótt sinni enda er leitun að einstaklingi sem leggur meira á sig, jafnt við æfingar sem keppni. Metnaði hans og dugnaði eru lítil takmörk sett. Hilmir var svo tilnefndur af félaginu sínu sem efnilegasti leikmaður Kkd Vestra við útnefningu á íþróttamanni Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2017.
Hugi er sennilega einn efnilegasti körfuknattleiksmaður landsins í sínum aldurshópi. Hann leggur mikinn metnað í íþrótt sína og er samviskusamur, jafnt innan vallar sem utan. Hugi var um áramótin síðustu útnefndur efnilegasti íþróttamaður Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2018 eftir tilnefningu frá félaginu sínu.
Bræðurnir sem eru nýorðnir 17 ára urðu bikarmeistari í 9. flokki drengja með félögum sínum í Vestra 2017 og vorið 2018 vann liðið til silfurverðlauna í Íslandsmóti 10. flokks KKÍ. Það vor var liðinu einnig boðið á firnasterkt félagsmót í Södertalje í Svíþjóð, Scania Cup, en þangað er einungis sterkustu liðum á Norðurlöndum boðið. Í vetur hefur þeir leikið með meistaraflokki Kkd. Vestra, auk þess að vera lykilmenn í liði drengjaflokks Kkd. Vestra.
Á næstunni verður skrifað undir samninga við unga fimm aðra unga afreksmenn.
Nánar