Fulltrúar nokkurra íþróttafélaga í Ísafjarðarbæ hafa á síðustu dögum gengið um bæinn og hreinsað upp flugeldarusl. Ísafjarðarbær greiðir fyrir þessa hreinsum samkvæmt verkefnasamningi HSV og sveitarfélagsins. 

Hörður og Vestri hafa skipt með sér hverfum Ísafjarðar og á Flateyri hreinsar Grettir, á Suðureyri íþróttafélagið Stefnir og á Þingeyri er það félagsmenn Höfrungs sem hreinsa götur og önnur svæði.

Skíðafélag Ísfirðinga verður svo á ferðinni á mánudegi og safnar og fargar jólatrjám fyrir íbúa gegn 1.500 kr. gjaldi sem rennur í ferðasjóð skíðabarna.

Nánar

Héraðssamband Vestfirðinga auglýsir eftir umsóknum í Styrktarsjóð þjálfara. Samkvæmt reglugerð sjóðsins er honum ætlað að auka þekkingu og færni þjálfara og með því móti auka gæði þjálfunar og efla íþróttastarf í sveitarfélginu. Sjóðsstjórn er heimilt að úthluta styrkjum til aðila utan vébanda HSV, enda muni viðkomandi verkefni verða íþróttalífi og félögum í Ísafjarðarbæ og Súðavík til hagsbóta.

Umsóknarfrestur er til og með 25. janúar.

Í umsókn þarf að koma fram helstu upplýsingar um þjálfarann og/eða verkefnið sem sótt er um styrk fyrir. Umsóknum skal skilað á netfangið hsv@hsv.is eða til HSV, Suðurgötu 12, 400 Ísafjörður

Reglugerð sjóðsins má finna á heimasíðu HSV; https://hsv.is/um_hsv/reglur_styrktarsjods_thjalfara/

Frekari upplýsingar gefur framkvæmdastjóri HSV, hsv@hsv.is eða í síma 8638886

Nánar

Nú er komið að því að auglýsa eftir umsóknum um styrki í afrekssjóð HSV. Í annað sinn verður unnið eftir nýrri reglugerð sjóðsins. https://hsv.is/um_hsv/afreksmannasjodur/

 Umsóknarfrestur er til 25. janúar 2018.

Tvær leiðir eru færar til að sækja styrk í sjóðinn:

 Annarsvegar verður hægt að sækja um að gera samning við sjóðinn til 1-3 ára samkvæmt 8. grein reglugerðar sjóðsins:

 8 gr.

Meginmarkmið sjóðsins er að styrkja unga og efnilega íþróttamenn sem líklegir eru til að verða afreksmenn í framtíðinni. Sjóðurinn skal ná því markmiði með því að gera 1-3 ára samning. 

8.1 gr.

Samningsferli

Sæki afreksmaður  um að koma í samningsferli með afreksmannasjóði, skal hann leggja fram heildstæða og rökstudda áætlun til 1-3 ára um markmið og æfingaáætlun. Stjórn sjóðsins og umsækjandi ljúka samningsgerð. Samningarnir eru endurskoðaðir á hverju ári og eru uppsegjanlegir ef vanefndir verða á þeim.

8.2 gr.

Samningsgerð

Gera skal samning við íþróttamanninn, aðildarfélag hans, þjálfara og eftir atvikum aðstandendur.

8.3 gr.

Í samningi skal eftirfarandi koma fram:

  • Bakgrunnsupplýsingar samningsaðila
  • Markmið íþróttamanns
    • Skammtíma markmið
    • Langtímamarkmið
  • Æfingaáætlun
  • Yfirlit yfir stuðning afreksmannasjóðs
  • Greiðsluáætlun
  • Vörður og yfirlit yfir árangursfundi með stjórn afreksmannasjóðs

Hverri umsókn skal fylgja samþykki/undirskrift formanns félags eða deildar viðkomandi íþróttamanns. Þannig viljum við tryggja að umsóknir verði með vitund og vilja félaga/deilda. 

 

 

Hinsvegar verður hægt að sækja um samkvæmt grein 9 í reglugerð sjóðsins sem er fyrirkomulagið sem verið hefur síðustu ár. Þá þarf að nota umsóknarferlið inn á heimasíðu hsv og sækja félög um fyrir sína iðkendur í gegnum aðgang sinn. Nánari upplýsingar ásamt notendanafni félags og aðgansorði verður sent til formanna þeirra félaga sem sótt hafa um styrk áður í sérstökum pósti. Önnur félög hafi samband við hsv ef sækja á um styrk eftir þessari leið.

  1. gr.

Heimilt er að úthluta úr Afreksjóðnum einu sinni á ári til þeirra íþróttamanna sem ekki falla undir skilyrði til langtímasamnings.

Íþróttamaður sem er framarlega í íþróttagrein sinni á landsvísu eða hefur sýnt mjög góðan árangur og er líklegur til að komast í hóp bestu íþróttamanna landsins í íþróttagrein sinni fellur þar undir.

 

Vakni einhverjar spurningar um þetta umsóknarferli endilega hafið samband hsv@hsv.is.

Nánar
Elmar Atli Garðarsson íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2018
Elmar Atli Garðarsson íþróttamaður Ísafjarðarbæjar 2018
1 af 2

Elmar Atli Garðarson knattspyrnumaður í Vestra var útnefndur íþróttamaður Ísafjarðarbæjar fyrir árið 2018.

Elmar Atli hefur æft og spilað knattspyrnu á Ísafirði frá því í yngri flokkum. Hann var mikilvægur hlekkur í liði Vestra í sumar og spilaði 20 leiki með liðinu í 2. deild þar sem liðið endaði í 3.sæti eftir harða keppni um sæti í Inkasso-deildinni. Elmar Atli spilaði þá þrjá bikarleiki sem Vestri lék á árinu. Dugnaður og eljusemi Elmars smitar út frá sér til liðsfélaga hans. Hann tekur íþrótt sína og hlutverk sitt innan liðsins alvarlega og hefur verið fyrirliði undanfarin tímabil. Hann leggur sig alltaf 100% fram og er frábær liðsmaður innan sem utan vallar.  Þá er hann góð fyrirmynd ungra leikmanna og er iðinn við að miðla reynslu sinni til þeirra.  Elmar Atli var á haustmánuðum kallaður til reynslu hjá sænska liðinu Helsingsborg þar sem hann æfði í viku.

Elmar Atli er heilbrigður og metnaðarfullur íþróttamaður, sem stundar íþrótt sína af miklu kappi. Hann er góð fyrirmynd yngri iðkenda og annarra félagsmanna.

 

Nánar
Kristján Sigurðsson bogfimiþjálfari og Valur Richter frá Skotíþróttafálagi Ísafjarðarbæjar.
Kristján Sigurðsson bogfimiþjálfari og Valur Richter frá Skotíþróttafálagi Ísafjarðarbæjar.

Skotíþróttafélag Ísafjarðarbæjar fær hvatningarverðlaun Ísafjarðarbæjar árið 2018. Félagið á sér langa sögu og hefur alla tíð haft öflugan kjarna sem hefur æft og keppt af metnaði. Eftir að ný inni aðstaða opnaði hefur starfið eflst til muna og eru nú haldin mót hér heima bæði í skotfimi og bogfimi.

Félagið hefur á síðustu þremur árum byggt upp öflugt starf í bogfimideild sinni. Þar eru nú nokkrir einstaklingar sem stunda reglulega æfingar og keppni með góðum árangri.

Það er mikilvægt að hafa fjölbreytt tækifæri í íþrótta- og tómstundaiðkun. Aukin fjölbreytni gefur fleiri einstaklingum kost á að stunda íþróttir og æfa í góðum félagsskap. Starf Skotíþróttafélagsins hefur komið með slíka fjölbreytni inn í íþróttalífið í Ísafjarðarbæ. Með bogfimideildinni er nú kominn vísir að barna- og unglingstarfi sem sýnir sig í því að nú hefur félagið í fyrsta sinn tilnefnt iðkanda í flokk efnilegustu íþróttamanna Ísafjarðarbæjar. Með þessum hvatningarverðlaunum vonar Ísafjarðarbær að félagið fái byr í seglin í áframhaldandi uppbyggingu og að barna og unglingastarf verði öflugur hluti í þeirra starfi.

Nánar