- 18.05.18
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Fundur um íþróttastarf með frambjóðendum í Ísafjarðarbæ
Miðvikudaginn 23. maí kl. 17 heldur HSV fund með frambjóðendum af listunum þremur sem bjóða fram í Ísafjarðarbæ. Frambjóðendum gefst kostur á að fara yfir áherslumál framboðanna er varðar íþróttastarf í sveitarfélaginu og uppbygging mannvirkja. Hvert framboð verður með stutta framsögu í byrjun fundar og síðan verða umræður og fyrirspurnir. Fundi líkur ekki seinna en kl. 18.30
Fundurinn verður haldinn í Vestrahúsi, Þróunarsetursmegin (á teppagangi).
Vonumst við til að forsvarsmenn íþróttafélaga og aðrir áhugamenn um íþróttastarf fjölmenni
Nánar
- 17.05.18
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Afreksmannasjóður gerir samninga við unga afreksmenn
Guðný og Þórður skrifa undir samninginn
Í upphafi ársþings í síðustu viku var skrifaði Guðný Stefanía Stefánsdóttir undir samninga fyrir hörn afreksmannasjóðs við tvo unga og efnilega iðkendur. Samningarnir fela í sér að Afreksmannasjóður greiðir mánaðarlegan styrk til íþróttafólksins í eitt ár. Um var að ræða Þórð Gunnar Hafþórsson 16 ára knattspyrnumann í Vestra og Önnu Maríu Daníelsdóttur gönguskíðkonu hjá Skíðafélagi Ísfirðinga.
Tveir aðrir ungir afreksmenn munu svo skrifa undir á næstu dögum. en það eru þau Auður Líf Benediktsdóttir blakari í Vestra og Albert Jónsson gönguskíðamaður í SFÍ.
Nánar
- 13.05.18
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Guðný Stefanía Stefánsdóttir fékk gullmerki íSÍ
Guðný Stefanía Stefánsdóttir og Ingi Þór Ágústsson
Fráfarandi formanni HSV Guðnýju Stefaníu Stefánsdóttur var á ársþingi HSV sæmd gullmerki ÍSÍ fyrir gott og öflugt starf. Það var Ingi Þór Ágústsson stjórnarmaður hjá ÍSÍ og fyrrum formaður HSV sem afhenti Guðnýju merkið. HSV þakkar Guðnýju hennar góðu störf fyrir sambandið og hlakkar til áframhaldandi samstarfs í Afreksmannasjóðs HSV þar sem Guðný mun sitja áfram.
Nánar
- 11.05.18
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Ársþing HSV 2018 var haldið 9. maí.
Ársþing HSV 2018 var haldið í Stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði 9. maí kl. 17. Á þinginu var kosinn nýr fomaður HSV. Guðný Stefanía Stefánsdóttir sem verið hefur formaður HSV síðustu fjögur ár gaf ekki kost á sér til áframhaldandi starfa. Eitt framboð barst til formanns og var Ásgerður Þorleifsdóttir kjörin með lófaklappi. Úr stjórn gekk Páll Janus Þórðarson og í hans stað var kjörinn Baldur Ingi Jónasson.
Stjórn HSV er nú þannig skipuð:
Ásgerður Þorleifsdóttir formaður
Hildur Elísabet Pétursdóttir
Karl Ásgeirsson
Ingi Björn Guðnason
Baldur Ingi Jónasson
Í varastjórn voru endurkjörin Heimir Hansson og Elísa Stefánsdóttir. Elín Marta Eiríksdóttir gaf ekki kost á sér til endurkjörs og í hennar stað var kosin Karlotta Dúfa Markan.
Á þinginu var samþykkt lagabreytingatillaga frá stjórn sambandsins þar sem lagt var til að bæta inn í lög sambansins ákvæði um að geri félag ekki skil á ársskýrslum á réttum tíma tvö ár í röð megi vísa því úr sambandinu. Einnig voru samþykktar almennar tillögur sem bárust þingi. Meðal annars samþykkti þingið að HSV myndi sækja um að halda unglingalandsmót UMFÍ árið 2021 í Ísafjarðarbæ og samþykkt var tillaga frá Vestra um að hvetja stjórnir allra héraðssambanda á Vestfjörðum að kanna kosti og galla sameiningar, allra eða hluta af héraðssamböndunum. Einnig samþykkti þingið að hvetja öll íþróttafélög sambandsins til að taka föstum tökum mál er varða ofbeldisbrot, einelti, kynferðislegt og kynbundið áreiti með það að leiðarljósi að tryggja öryggi, jafnrétti og jafnræði þeirra sem iðka og starfa innan félaganna. Koma upp viðbragsáætlunum við hvers kyns ofbeldi og útbúa verkferla til úrlausnar í samvinnu við yfirstjórn íþróttahreyfingarinnar.
Nokkur umræða var um inneignir sem skapast hafa þegar félögum er ekki greiddur út lottóstyrkur vegna vanhalda á skýrsluskilum. Lögin kveða á um að sú fjárhæð eigi að leggjast inn á Afrekssjóð HSV en það hefur ekki verið gert. Var að lokum samþykkt tillaga sem veitti stjórn HSV óskorað umboð til að ganga frá þeim greiðslum til afrekssjóðs afturvirkt.
Veitt voru 10 starfsmerki á þinginu.
8 hlutu silfurmerki HSV og
2 hlutu gullmerki HSV
Að auki hlaut Guðný Stefanía Stefánsdóttir gullmerki ÍSÍ og var það Ingi Þór Ágústsson stjórnarmaður ÍSÍ sem afhenti það.
Nánar
- 8.05.18
- Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir
Úthlutað til aðildarfélaga úr sjóði Skagans3X
Stjórn HSV hefur metið umsóknir um styrk frá Skaganum3X til að efla faglegt starf og gæði við þjálfun ungra iðkenda. Styrkur Skagans 3X fyrir árið 2018 er kr. 1.500.000. Fyrirtækið hefur gefið vilyrði fyrir jafnháum styrk fyrir árið 2019 og verður auglýst eftir umsóknum vegna hans í lok þessa árs. Alls bárust 11 umsóknir frá átta aðildarfélögum HSV. Öll félög sem sóttu um fengu styrk, styrkupphæðir voru frá 50.000 til 300.000.
Megin markmið styrks Skagans3X er að efla faglegt starf og gæði við þjálfun ungra iðkenda er keppa undir merkjum aðildarfélaga HSV. Horft er til allra aðildarfélaga HSV og bæði stúlkna og drengja. Stuðningurinn er fyrst og fremst ætlaður sem viðbót við núverandi barna- og unglingastarf og ekki ætlaður til frekari fjárfestinga innan íþróttahreyfingarinnar.
Þau félög og verkefni sem hlutu styrk eru:
Golfklúbbur Ísafjarðar: Golfæfingar fyrir börn og unglinga með með námskeiðslotum PGA kennara.
Hestamannafélagið Hending: Undirbúa og útbúa fræðsluefni til að taka á móti börnum úr íþróttaskóla HSV í nýja reiðhöll í Engidal haustið 2018.
Hestamannafélagið Stormur: Uppbygging barna- og unglingastarfs með reiðnámskeiðum
Hörður handknattleiksdeild: Til eflingar Vestfjarðamóts í handbolta sem er lokamótið í Íslandsmóti 6. flokks drengja.
Íþróttafélagið Ívar: Styrkja unglingastarf félagsins og bjóða upp á meiri fjölbreytni í íþróttagreinum.
Skíðafélag Ísfirðinga: æfingabúðir og þjálfaranámskeið fyrir bretti, göngu og alpagreinar.
Sæfari: Styrkja grunnstarf Sæfara, siglinganámskeið fyrir ungmenni 9-14 ára.
Vestri knattspyrnudeild: Þrjú verkefni; afreksþjálfun, endurgerð og þýðing á uppeldisstefnu og átak í kvennaknattspyrnu.
Vestri körfuknattleiksdeild: Þrjú fræðsluverkefni; þjálfaranámskeið, dómaranámskeið og tölfræðiskráningarnámskeið.
HSV þakkar 3X fyrir stuðninginn og hlakkar til áframhaldandi samstarfs við fyrirtækið
Nánar