Umsóknarfrestur um styrki í fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ er til 1. október en úthlutun styrkja verður síðan í byrjun nóvember.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar m.a með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi. Rétt til styrkveitingar úr sjóðnum eiga allir félagar í ungmennafélögum sem eru virkir í starfi og hafa uppáskrift síns félags eða sambands til að afla sér aukinnar þekkingar á sínu sérsviði sem gæti nýst viðkomandi félagi, sambandi og ungmennafélagshreyfingunni í heild. Einnig eiga stjórn og nefndir UMFÍ, héraðssambönd, ungmennafélög og deildir innan þeirra rétt á að sækja um styrk úr sjóðnum.


Nánari upplýsingar eru  á heimasíðu UMFÍ www.umfi.is undir styrkir en þar sækja umsækjendur um á umsóknareyðublaði sem þar er að finna. Upplýsingar eru einnig veittar í síma 568-2929 og á netfanginu umfi@umfi.is.

 
Nánar

Mennta- og menningarmálaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Íþróttasjóði sem starfar samkvæmt lögum nr. 64/1998 og reglugerð nr. 803/2008.


Umsóknarfrestur er til 1. október 2013


Veita má framlög til eftirfarandi verkefna:

  • Sérstakra verkefna á vegum íþróttafélaga og samtaka þeirra sem miða að því að bæta  aðstöðu til íþróttaiðkana
  • Útbreiðslu- og fræðsluverkefna
  • Íþróttarannsókna
  • Verkefna samkvæmt 13. gr. íþróttalaga 

Hingað til hefur mennta- og menningarmálaráðuneytið haft umsjón með sjóðnum en frá og með hausti 2013 færist umsýsla

hans til Rannís.

Hér má finna frekari upplýsingar um sjóðinn, hlutverk hans og úthlutanir. 

Nánar

Af gefnu tilefni vil ég benda foreldrum á það að engar fjöldatakmarkanir eru í íþróttaskóla HSV. Ef þið hafið lent í því við skráningu að fullt hafi verið orðið í einhvern af tímum íþróttaskólans þá hefur það nú þegar verið leiðrétt. Hægt er að breyta skráningum með því að hafa samband við mig á netfangið ithrottaskoli@hsv.is

Kveðja, Salome.

Nánar

Íþróttaskólinn hefst föstudaginn 23.ágúst. Þessar fyrstu vikur íþróttaskólans munu vera útiæfingar í grunnþjálfun í 1.-4.bekk og fara þær æfingar fram á sparkvellinum við Grunnskólann á Ísafirði. Fyrsta tímabil boltaskólans er fótbolti og munu æfingar fyrir 1.-2.bekk fara fram á sparkvellinum við Grunnskólann á Ísafirði. Fótboltaæfingar fyrir börnin í 3.-4.bekk fara fram á Torfnesi og munu börnin fara með rútu upp á Torfnes og aftur til baka í grunnskólann eftir æfinguna. Rútan stoppar við alþýðuhúsið/bíóið þar sem strætó stoppar venjulega.

Sundæfingar hefjast einnig föstudaginn 23.ágúst og verða frá þeim degi í sundlauginni á Ísafirði.

Ég vil minna á mikilvægi þess að börnin séu klædd eftir veðri þegar útiæfingar fara fram og í viðeigandi klæðnaði fyrir íþróttaæfingu.

Nánar

Íþróttaskóli HSV mun hefjast föstudaginn 23.ágúst.  Íþróttaskólinn er samvinnuverkefni HSV, aðildafélaga HSV og Ísafjarðarbæjar.  Íþróttaskólinn er ætlaður börnum í 1-4. bekk í grunnskólum Ísafjarðarbæjar og geta öll börn á þessum aldri skráð sig í skólann og tekið þátt.  Íþróttaskóli HSV leggur áherslu á grunnþjálfun barna ásamt því að þau fái þjálfun í flestum þeim íþróttagreinum sem í boði eru á eldri stigum aðildarfélaga HSV.  Á haustmisseri er skólanum skipt upp í þrjá hluta þ.e. grunnþjálfun, boltaskóla og sund.  Þegar skíðasvæðin opna verður svig- og gönguskíðaæfingum bætt við stundaskrána.

 

Grunnþjálfun: Í grunnþjálfun er áhersla lögð á hreyfingu og hreyfiþroska barna.  Fjölbreyttar æfingar verða í boði, farið í leiki, þrautir, fimleika, hopp, hlaup, köst, aðrar greinar kynntar og margt fleira.  Grunnþjálfun er í boði tvisvar í viku.

 

Boltaskóli:  Í boltaskólanum verður boltagreinum skipt upp í tímabil og þjálfuð ein grein í einu.  Boltagreinarnar í skólanum eru knattspyrna, blak, körfuknattleikur og handknattleikur.   Geta börnin því fengið að kynnast öllum þessum greinum og æft hverja grein.  Boltaskóli er í boði tvisvar í viku og verður fyrsta tímabilið knattspyrna. Þjálfarar í boltaskóla fyrir 3.-4. bekk verða fengnir frá aðildafélögum sem koma með sérþekkingu á sinni grein og kafa dýpra í hverja boltagrein. 

 

Sund:  Í íþróttaskólanum verður almenn sundþjálfun í boði og verða æfingar tvisvar í viku undir stjórn þjálfara Vestra.

 

Skíði: Í íþróttaskólanum verður boðið uppá æfingar á svig- og gönguskíðum. Æfingarnar verða undir stjórn þjálfara Skíðafélags Ísfirðinga og munu æfingatímar skýrarst frekar þegar skíðasvæðin opna í vetur.

Yfirþjálfari íþróttaskólans er Salome Elín Ingólfsdóttir. Salome sér um grunnþjálfun barna í 1.-4.bekk og einnig um þjálfun í boltaskóla fyrir börn í 1.-2. bekk.

 

Skráning í íþróttaskólann fer fram í gegnum sérstakt skráningarkerfi sem er aðgengilegt á heimasíðu íþróttaskóla HSV og er nú þegar hægt að ganga frá skráningu.  Mjög mikilvægt er að skrá barnið í gegnum kerfið þar sem allar upplýsingar til foreldra varðandi íþróttaskólann eru sendar í gegnum þetta kerfi í tölvupósti. Góðar skráningaleiðbeiningar hafa verið settar á heimasíðu HSV.

 

Markmið íþróttaskóla HSV er:

  • Fá sem allra flest börn til að iðka íþróttir
  • Að fyrstu kynni barna af íþróttaiðkun sé jákvæð
  • Að börn fái að kynnast sem flestum íþróttagreinum
  • Að auka gæði þjálfunar
  • Lækka kostnað heimila við íþróttaiðkun barna
  • Auka grunnþjálfunarhluta æfinga, almenna hreyfingu, hreyfiþroska og hreyfigetu  
Nánar