Undanfarin ár hefur Landflutningar styrkt Íþróttaskóla HSV um jólin með verkefni sem ber heitið Gleðigjafir. Styrkurinn er fólgin í því að hver greidd sending, til eða frá norð-Vestfjörðum með Landflutningum, fer óskert sem styrkur til Íþróttaskólans.

Prísin er einfaldur og góður- greiddar eru 790 kr. fyrir hámark 30 kg. eða 0,1 m³.  Athygli er vakin á því að sama gildir um alla pakka á leið vestur- ef þeir kjósa sér far með Landflutningum fer sendingargjaldið óskert til Íþróttaskóla HSV.

Þessi fjáröflun skiptir rekstur Íþróttaskólans miklu máli og þá þjónustu sem skólinn veitir. Það er því von að foreldrar, forráðamenn og velunnarar taki við sér og nýti sér þessa frábæru þjónustu Landflutninga og fjárfesti um leið í metnaðarfullu og uppbyggjandi íþróttastarfi fyrir börn. 

Næstkomandi mánudag, þriðjudag og miðvikudag verður tekið á móti jólapökkum og greiðslu í Torfnessíþróttahúsinu á milli 16:00 – 18:30. Þar munu starfsmenn HSV vera til staðar og taka við gjöfum sem eiga ferðalag fyrir höndum til að gleðja og kæta ættingja og vini.

Athugið að miðvikudagurinn 18. des. er síðasti dagur til að senda pakka suður með Landflutningum. Eftir þann dag fer jólakötturinn á stjá.

Nánar

Hef tekið saman nokkra punkta varðandi næringu barna og unglinga í íþróttum. Endilega hugið vel að mataræði barnanna ykkar og hugsið daginn til enda, t.d. ef þau eru að fara á æfingu seinni hluta dags. Það getur verið erfitt að fara á æfingu kl.15 eða síðar, þegar síðasta máltíð var kl.11:30 eða 12. Einfalt orkuskot eins og þurrkaðir ávextir, ávaxtasafi eða hnetur og möndlur fara vel í íþróttatöskunni og geymast vel.

Kveðja, Salome yfirþjálfari íþróttaskóla HSV og næringarfræðingur.

 

Næring barna og unglinga í íþróttum

Líkaminn þarfnast orku til vaxtar og viðhalds og er þetta sérlega mikilvægt fyrir börn og unglinga í örum vexti. Mikilvægt er að þau fái næga orku til að takast á við verkefni dagsins og hafi nægilegt eldsneyti þegar kemur að íþróttaæfingu. Mataræði er svo sannarlega einn af þeim þáttum sem hafa áhrif á árangur í íþróttum og hér koma nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga varðandi næringu barnanna:

  • Borðum fjölbreytt – úr öllum fæðuflokkum daglega
  • Borðum reglulega yfir daginn: Morgunmatur, morgunhressing, hádegismatur, síðdegishressing, kvöldmatur, (kvöldhressing)
  • Borðum meira af ávöxtum, grænmeti og fiski
  • Takmörkum neyslu á sælgæti, sykruðum gos- og svaladrykkjum og sætabrauði
  • Lýsi inniheldur D-vítamín, sem ekki er að finna í mörgum fæðutegundum. D-vítamín hefur góð áhrif beinheilsuna, ásamt kalkinu (sem við fáum t.d. úr mjólkinni)
  • Munum að vatn er besti svaladrykkurinn og ætti alltaf að vera með á æfingum. Mikilvægt að vökva sig vel yfir daginn, fyrir æfingu, á æfingunni og eftir hana
  • Drykkir sem innihalda koffein (t.d. dökkir gosdrykkir, orkudrykkir, te og kaffi) eru ekki góður kostur
  • Fæðubótarefni eru óþörf fyrir börn og unglinga (í langflestum tilfellum)
  • Mikilvægt er að huga vel að fæðuvali í tengslum við æfingar og keppni

Fyrir æfingu/keppni:

  • Staðgóð máltíð um 6 klst. fyrir
  • Léttari kolvetnarík máltíð 2-3 klst. fyrir
    • Dæmi: Samloku/flatköku, pasta með tómatsósu, morgunkorn, ávaxtasafa, ávöxt ...
  • Ekki borða skemur en 1 klst. fyrir
  • Drekka ríflega með máltíðum
  • Borða eitthvað sem maður “þekkir”

Á æfingu eða í keppni

  • Ef eitthvað, fá sér þá kolvetnaríka fæðu. Banani í hálfleik er klassískur
  • Drekka nóg vatn til að bæta upp vökvatap

Eftir æfingu/keppni

  • Drekka vel til að bæta upp vökvatap
  • Endurnýja orkubirgðir vöðvanna, helst á fyrstu 2 klst eftir æfingu. Borða kolvetnaríka fæðu 20-30 mín eftir átök (t.d. ávöxtur), svo staðgóða máltíð sem fryst (blanda af kolvetnum og próteinum)
  • Sérstaklega mikilvægt ef keppni heldur áfram daginn eftir
Nánar

Héraðssamband Vestfirðinga auglýsir eftir umsóknum í afreksmannasjóð sambandsins.

Geta allir íþróttamenn sótt um styrk í sjóðinn svo framlega sem þeir séu aðilar innan HSV og uppfylli þau skilyrði sem eru í 7.grein laga afreksmannasjóðsins.

7. gr.

Stjórn sjóðsins getur veitt styrk ef viðkomandi uppfyllir eitthvert eftirtalinna skilyrða:

Ef hann keppir á eða hefur möguleika á þátttöku á Ólympíu-, Heims-, Evrópu- eða

Norðurlandameistaramótum.

Ef hann er valinn í landslið eða úrtök fyrir landslið. Ef hann er framarlega í íþróttagrein

sinni á landsvísu eða hefur sýnt mjög góðan árangur og er líklegur til að komast í hóp

bestu íþróttamanna landsins í íþróttagrein sinni. Skal þá miðað við styrkleikaflokkun

sérsambanda (sé hún til).

Lið eða hópur geta fengið úthlutað ef þau eru framarlega í íþróttagrein sinni á landsvísu

eða hafa sýnt mjög góðan árangur og eru líkleg til að komast í hóp bestu liða/hópa

Hægt er að sjá reglugerð sjóðsins inn á heimasíðu HSV.  

 

Umsóknarfrestur er til  25. október 2013

Ef einhverjar spurningar vakna þá má hafa samband við Pétur Markan, framkvæmdastjóra HSV, á skrifstofu tíma eða í síma 698-4842

Nánar

Héraðssamband Vestfirðinga auglýsir eftir umsóknum í styrktarsjóð þjálfara. Samkvæmt reglugerð sjóðsins er honum ætlað að auka þekkingu og færni þjálfara og með því móti auka gæði þjálfunar og efla íþróttastarf í sveitarfélaginu.  Sjóðsstjórn er heimilt að úthluta styrkjum til aðila utan vébanda HSV, enda muni viðkomandi verkefni verða íþróttalífi og félögum í Ísafjarðarbæ til hagsbóta.

Umsóknarfrestur er til 25. október 2013
 

Vakin er sérstök áhersla á reglugerð sjóðssins sem finna má á heimasíðu HSV www.hsv.is . 

Ef einhverjar spurningar vakna þá má hafa samband við Pétur Markan, framkvæmdastjóra HSV, á skrifstofu tíma eða í síma 698-4842

 

Nánar

Umsóknarfrestur um styrki í fræðslu- og verkefnasjóð UMFÍ er til 1. október en úthlutun styrkja verður síðan í byrjun nóvember.

Tilgangur sjóðsins er að styrkja félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar m.a með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun, í félagsmálum og félagsstarfi. Rétt til styrkveitingar úr sjóðnum eiga allir félagar í ungmennafélögum sem eru virkir í starfi og hafa uppáskrift síns félags eða sambands til að afla sér aukinnar þekkingar á sínu sérsviði sem gæti nýst viðkomandi félagi, sambandi og ungmennafélagshreyfingunni í heild. Einnig eiga stjórn og nefndir UMFÍ, héraðssambönd, ungmennafélög og deildir innan þeirra rétt á að sækja um styrk úr sjóðnum.


Nánari upplýsingar eru  á heimasíðu UMFÍ www.umfi.is undir styrkir en þar sækja umsækjendur um á umsóknareyðublaði sem þar er að finna. Upplýsingar eru einnig veittar í síma 568-2929 og á netfanginu umfi@umfi.is.

 
Nánar