Íþróttaskóli HSV byrjaði í dag í flottu veðri. Góð mæting var fyrsta daginn og er það frábært. Grunnþjálfun og boltaskóli eru úti fyrstu vikurnar þar sem algjör óþarfi er að fara inn strax þegar við höfum jafn gott veður og flott svæði á sparkvellinum við grunnskólalóðina. Mikil gleði og tilhlökkun voru hjá krökkunum og allt gekk að óskum. Við látum fylgja með nokkrar myndir af fyrsta deginum.
NánarÞví miður reyndist ein vitleysa leynast í stundaskránni og hefur hún verið uppfærð. Tímum í sundi var víxlað á fimmtudögum. Drengir í 1-2 bekk eru núna kl 13:40 í sundi og drengir í 3-4 bekk eru kl 14:20. Breytingin tekur gildi í næstu viku.
NánarÞá er komið að því, íþróttaskóli HSV byrjar á morgun fimmtudag. HSV er ásamt nokkrum aðildarfélögum að setja upp skráningarkerfi þar sem hægt verður að skrá börnin sín í gegnum internetið. Verður kerfið tilbúið mjög fljótlega. Þó ekki sé hægt að ganga frá skráningu byrjar íþróttaskólinn á morgun og mæta krakkarnir samkvæmt stundatöflu sem finna má hér á heimasíðunni. Mikil spenna og tilhlökkun er hjá þjálfurum að byrja og við vitum að krakkarnir bíða einnig spennt á að byrja. Hlökkum til að sjá sem flesta krakka á morgun.
Við munum byrja á því að vera úti fyrstu vikurnar svo allir þurfa að mæta klæddir eftir veðri og mæta fyrir utan sundhöll
Ísafjarðar. Þeir sem ætla að æfa sund mæta samkvæmt stundatöflu í sundhöll Ísafjarðar.
Fyrsta grein í boltaskóla sem farið verður í er knattspyrna.
NánarStundaskrá íþróttaskóla HSV er nú komin inn á vefinn. Hægt er að nálgast hana með því að ýta á tengil hér vinstra megin "stundaskrá" og þar er hægt að opna hana í excel formi. Til að útskýra töfluna þá þýðir t.d. 3-4 kvk að þar er tími fyrir 3-4.bekk stúlkna, eins þýðir þá 1-2.KK að þann tíma á 1-2.bekkur drengja. Hægt er að velja um tvær skrár og er innihald þeirra það sama en þeir sem eru með eldra excel í sínum tölvum skulu velja skrá sem endar á excel97. Hægt er að senda fyrirspurn vegna skólans á yfirþjálfara í tölvupóstfang ithrottaskoli@hsv.is.
NánarÍþróttaskóli HSV mun hefjast fimmtudaginn 1.september. Íþróttaskólinn er samvinnuverkefni HSV, aðildafélaga HSV og Ísafjarðarbæjar. Íþróttaskólinn er ætlaður börnum í 1-4. bekk í grunnskólum Ísafjarðarbæjar og geta öll börn á þessum aldri skráð sig í skólann og tekið þátt. Íþróttaskóli HSV mun leggja áherslu á grunnþjálfun barna ásamt því að þau fái þjálfun í flestum þeim íþróttagreinum sem í boði eru á eldri stigum aðildarfélaga HSV. Á haustmisseri er skólanum skipt upp í þrjá hluta þ.e. grunnþjálfun, boltaskóla og sund.
Í grunnþjálfun er áhersla lögð á hreyfingu og hreyfiþroska barna. Fjölbreyttar æfingar verða í boð, farið í leiki, þrautir, fimleika, hopp, hlaup, köst og margt fleira. Grunnþjálfun er í boði tvisvar í viku.
Boltaskóli: Í boltaskólanum verða boltagreinum skipt upp í tímabil og þjálfuð ein grein í einu. Boltagreinarnar í skólanum eru knattspyrna, blak, körfuknattleikur og handknattleikur. Geta börnin því fengið að kynnast öllum þessum greinum, æft hverja grein og náð góðum tökum á hverri grein. Boltaskóli er í boði tvisvar í viku.
Sund: Í íþróttaskólanum verður almenn sundþjálfun í boði og verða æfingar tvisvar í viku.
Ráðinn hefur verið yfirþjálfari íþróttaskólans sem er Kristján Flosason. Kristján Flosason er íþróttafræðingur að mennt og hefur áralanga reynslu af þjálfun barna og unglinga. Yfirþjálfari sér um alla skipulagningu íþróttaskólans í samvinnu við aðildarfélög HSV. Yfirþjálfari íþróttaskóla HSV mun sjá um alla grunnþjálfun og boltaskóla fyrir börn í 1-2. bekk. Sundþjálfari verður Margrét Eyjólfsdóttir en hún hefur þjálfað börn fyrir sundfélagið Vestra í mörg ár og hefur náð frábærum árangri í starfi sínu. Þjálfarar í boltaskóla fyrir 3-4. bekk verða fengnir frá aðildafélögum sem koma með sérþekkingu á sinni grein og kafa dýpra í hverja boltagrein. HSV er mjög ánægt með að hafa jafn hæfa og reynslumikla þjálfara í íþróttaskólanum í vetur.
Verð á haustönn verður 7000 kr fyrir önnina hvort sem valið er allir eða einn hluti íþróttaskólans.
Skráning í íþróttaskólann mun fara fram í gegnum sérstakt skráningarkerfi sem verður aðgengilegt á heimasíðu HSV. Frekari fréttir af því mun koma inn fljótlega.
Markmið íþróttaskóla HSV er:
- Fá sem allra flest börn til að iðka íþróttir
- Að fyrstu kynni barna af íþróttaiðkun sé jákvæð
- Að börn fái að kynnast sem flestum íþróttagreinum
- Að auka gæði þjálfunar
- Lækka kostnað heimila við íþróttaiðkun barna
- Auka grunnþjálfunarhluta æfinga, almenna hreyfingu, hreyfiþroska og hreyfigetu
Á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri verður íþróttaskólinn unnin í samvinnu við íþróttafélögin á hverjum stað og eru frekari fréttir að vænta á allra næstu dögum.
Nánar