Stundaskrá íþróttaskóla HSV er nú komin inn á vefinn. Hægt er að nálgast hana með því að ýta á tengil hér vinstra megin "stundaskrá" og þar er hægt að opna hana í excel formi. Til að útskýra töfluna þá þýðir t.d. 3-4 kvk að þar er tími fyrir 3-4.bekk stúlkna, eins þýðir þá 1-2.KK að þann tíma á 1-2.bekkur drengja. Hægt er að velja um tvær skrár og er innihald þeirra það sama en þeir sem eru með eldra excel í sínum tölvum skulu velja skrá sem endar á excel97. Hægt er að senda fyrirspurn vegna skólans á yfirþjálfara í tölvupóstfang ithrottaskoli@hsv.is.
NánarÍþróttaskóli HSV mun hefjast fimmtudaginn 1.september. Íþróttaskólinn er samvinnuverkefni HSV, aðildafélaga HSV og Ísafjarðarbæjar. Íþróttaskólinn er ætlaður börnum í 1-4. bekk í grunnskólum Ísafjarðarbæjar og geta öll börn á þessum aldri skráð sig í skólann og tekið þátt. Íþróttaskóli HSV mun leggja áherslu á grunnþjálfun barna ásamt því að þau fái þjálfun í flestum þeim íþróttagreinum sem í boði eru á eldri stigum aðildarfélaga HSV. Á haustmisseri er skólanum skipt upp í þrjá hluta þ.e. grunnþjálfun, boltaskóla og sund.
Í grunnþjálfun er áhersla lögð á hreyfingu og hreyfiþroska barna. Fjölbreyttar æfingar verða í boð, farið í leiki, þrautir, fimleika, hopp, hlaup, köst og margt fleira. Grunnþjálfun er í boði tvisvar í viku.
Boltaskóli: Í boltaskólanum verða boltagreinum skipt upp í tímabil og þjálfuð ein grein í einu. Boltagreinarnar í skólanum eru knattspyrna, blak, körfuknattleikur og handknattleikur. Geta börnin því fengið að kynnast öllum þessum greinum, æft hverja grein og náð góðum tökum á hverri grein. Boltaskóli er í boði tvisvar í viku.
Sund: Í íþróttaskólanum verður almenn sundþjálfun í boði og verða æfingar tvisvar í viku.
Ráðinn hefur verið yfirþjálfari íþróttaskólans sem er Kristján Flosason. Kristján Flosason er íþróttafræðingur að mennt og hefur áralanga reynslu af þjálfun barna og unglinga. Yfirþjálfari sér um alla skipulagningu íþróttaskólans í samvinnu við aðildarfélög HSV. Yfirþjálfari íþróttaskóla HSV mun sjá um alla grunnþjálfun og boltaskóla fyrir börn í 1-2. bekk. Sundþjálfari verður Margrét Eyjólfsdóttir en hún hefur þjálfað börn fyrir sundfélagið Vestra í mörg ár og hefur náð frábærum árangri í starfi sínu. Þjálfarar í boltaskóla fyrir 3-4. bekk verða fengnir frá aðildafélögum sem koma með sérþekkingu á sinni grein og kafa dýpra í hverja boltagrein. HSV er mjög ánægt með að hafa jafn hæfa og reynslumikla þjálfara í íþróttaskólanum í vetur.
Verð á haustönn verður 7000 kr fyrir önnina hvort sem valið er allir eða einn hluti íþróttaskólans.
Skráning í íþróttaskólann mun fara fram í gegnum sérstakt skráningarkerfi sem verður aðgengilegt á heimasíðu HSV. Frekari fréttir af því mun koma inn fljótlega.
Markmið íþróttaskóla HSV er:
- Fá sem allra flest börn til að iðka íþróttir
- Að fyrstu kynni barna af íþróttaiðkun sé jákvæð
- Að börn fái að kynnast sem flestum íþróttagreinum
- Að auka gæði þjálfunar
- Lækka kostnað heimila við íþróttaiðkun barna
- Auka grunnþjálfunarhluta æfinga, almenna hreyfingu, hreyfiþroska og hreyfigetu
Á Suðureyri, Flateyri og Þingeyri verður íþróttaskólinn unnin í samvinnu við íþróttafélögin á hverjum stað og eru frekari fréttir að vænta á allra næstu dögum.
NánarAuglýst er eftir yfirþjálfar í íþróttaskóla HSV
Héraðssamband Vestfirðinga óskar eftir því að ráða metnaðarfullan og drífandi aðila í starf yfirþjálfara íþróttaskóla HSV. Íþróttaskóli HSV sér um alla þjálfun barna í 1-4. bekk í Ísafjarðarbæ í samvinnu við aðildarfélög HSV. Í íþróttaskóla HSV verður lögð áhersla á grunnþjálfun iðkenda ásamt því að þau fá þjálfun í flestum þeim íþróttagreinum sem í boði eru á eldri stigum hjá aðildafélögum HSV. Um er að ræða 75% starf.
Starfssvið
· Ábyrgð á þjálfun og skipulagningu íþróttaskóla HSV
· Skipuleggja grunnþjálfunarhluta skólans
· Skipuleggur í samstarfi við þjálfara aðildarfélaga þjálfun í öðrum greinum
· Skipuleggur starf kynningagreina í íþróttaskólanum
· Sér um samskipti við foreldra iðkenda
· Sér um samskipti við þjálfara aðildarfélaga
· Skipuleggur í samstarfi við aðildarfélög íþróttamót og aðra viðburði
Menntunar – og hæfniskröfum
· Háskólamenntun á sviði íþrótta æskileg
· Mikil reynsla af þjálfun yngri barna æskileg
· Jákvæðni og lipurð í mannlegum samskiptum
· Sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð
· Stundvísi
· Hreint sakavottorð
Umsóknarfrestur er til 7.ágúst og þarf einstaklingurinn að geta hafið störf 15.ágúst. Frekari upplýsingar fást hjá framkvæmdarstjóra HSV í netfang hsv@hsv.is og í síma 450-8450.
NánarÍ haust þegar skólaár hefst mun Héraðssamband Vestfirðinga (HSV) í samstarfi við aðildarfélög sín setja á legg íþróttaskóla HSV fyrir börn í 1-4 bekk grunnskóla Ísafjarðarbæjar. Íþróttaskóli HSV mun leggja áherslu á grunnþjálfun barna ásamt því að þau fái þjálfun í flestum þeim íþróttagreinum sem í boði eru á eldri stigum aðildarfélaga HSV. Ráðinn verður yfirþjálfari sem sér um skipulagningu ásamt því að sjá um grunnþjálfun. Hann mun einnig skipuleggja og þjálfa aðrar greinar í samstarfi við aðildarfélög HSV. HSV og aðildarfélög hafa unnið að þessu verkefni í langan tíma og hefur sú vinna nú borið árangur. Ísafjarðarbær styður verkefnið og var stofnun skólans ein af grunnstoðum í nýjum samningi Ísafjarðarbæjar og HSV sem undirritaður var síðastliðin vetur.
Markmið skólans eru.
· Fá sem allra flest börn til að iðka íþróttir
· Að fyrstu kynni barna af íþróttaiðkun sé jákvæð
· Að börn fái að kynnast sem flestum íþróttagreinum
· Að auka gæði þjálfunar
· Lækka kostnað heimila við íþróttaiðkun barna
· Auka grunnþjálfunarhluta æfinga, almenna hreyfingu, hreyfiþroska og hreyfigetu.
Nánar