Ársþing HSV verður haldið þriðjudaginn 10.maí kl 18:00 í Stjórnsýsluhúsinu Ísafirði 4.hæð. Nánar
 
Þriðjudaginn 3. maí n.k. mun forvarnafulltrúi Ísafjarðarbæjar og HSV í samstarfi við GÍ standa fyrir forvarnadegi fyrir miðstigsnemendur í Grunnskólanum á Ísafirði. Nemendum frá Þingeyri og Suðureyri verður ekið fram og til baka en gert er ráð fyrir að fræðslan standi frá 8:00-13:00 eða í sex kennslustundir. Þessum sex kennslustundum verður skipt í þrjár hreyfistundir og þrjá fyrirlestra sem verða í höndunum á Salóme Ingólfsdóttur næringarfræðingi sem fjallar um mikilvægi góðrar næringar, Mörthu Ernstdóttur sjúkraþjálfara og jógakennara sem fjallar um mikilvægi þess að hugsa vel um líkamann sinn og Erni Árnasyni leikara sem mun tala um framkomu.

Mánudaginn 2. maí kl. 20:00 verður foreldrafundur í sal GÍ þar sem sömu fyrirlesarar munu kynna sína fyrirlestra og fræða foreldra. Við vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta og nýti sér þessa flottu fyrirlesara. 
Nánar
Lið Grunnskóla Ísafjarðar varð í þriðja sæti í úrslitum Skólahreysti sem fór fram í Laugardalshöllinni í Reykjavík í gær. Tólf skólar kepptu til úrslita en alls tóku 120 skólar þátt í keppninni þetta árið.  Sýnt var beint frá úrslitunum í Ríkissjónvarpinu. Ísfirðingarnir, þau Martha Þorsteinsdóttir, Rannveig Hjaltadóttir, Hálfdán Jónsson og Patrekur Þór Agnarsson, stóðu sig frábærlega vel.  Gaman er að geta þess að íþrótta bakrunnur krakkana er fjölbreyttur en þau koma úr knattspyrnu, körfuknattleik, skíðum og sundi og geta því nokkur íþróttafélög í bænum þóst eiga eitthvað í þeim.  Í fyrsta sæti varð Holtaskóli og Lindaskóli í öðru sæti. Aðeins munaði einu stigi milli efstu liðanna.

 
Nánar
Frá vinstri Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdarstjóri ÍSÍ, Lárus Blöndal varaforseti ÍSÍ, Jens Kristmannsson, Margrét Bjarnadótti sem einnig var sæmd Heiðurskrossi og Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ
Frá vinstri Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdarstjóri ÍSÍ, Lárus Blöndal varaforseti ÍSÍ, Jens Kristmannsson, Margrét Bjarnadótti sem einnig var sæmd Heiðurskrossi og Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ

Jens Kristmannsson íþróttafrömuður frá Ísafirði og fyrrum stjórnarmaður í ÍSÍ var á 70.íþróttaþingi ÍSÍ sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ fyrir mikið og framúrskarandi framlag til íþróttahreyfingarinnar.  Jens hefur unnið gríðalega mikið og gott starf fyrir íþróttahreyfinguna í Ísafjarðarbæ meðal annars fyrir Hörð og ÍBÍ. Jens sat einnig í stjórn ÍSÍ. Óskum við Jens innilega til hamingju með viðurkenninguna.

70. Íþróttaþing ÍSÍ var haldið í Gullhömrum Grafarholti 8-9 apríl. Alls áttu 188 rétt til setu á þinginu,  94 frá sérsamböndum ÍSÍ og 94 frá héraðssamböndum og íþróttabandalögum.  Að auki eru fjórir fulltrúar úr röðum íþróttafólks.

Á síðasta þingi var lögum ÍSÍ breytt og við það fækkaði fulltrúum talsvert. HSV átti rétt á að senda einn fulltrúa og fór framkvæmdarstjóri HSV á þingið. 

Ólafur Rafnsson forseti ÍSÍ var endurkjörinn með dynjandi lófaklappi.  Í framkvæmdastjórn ÍSÍ voru kjörin Friðrik Einarsson, Gunnar Bragason, Hafsteinn Pálsson, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, Helga. H. Magnúsdóttir, Ingibjörg Bergrós Jóhannesdóttir; Jón Gestur Viggósson, Lárus Blöndal, Sigríður Jónsdóttir og Örn Andrésson.  Í varastjórn voru kjörnir Garðar Svansson, Gunnlaugur Júlíusson og Gústaf A. Hjaltason.

Þingstörf gengu vel fyrir sig, þingnefndir störfuðu á föstudagskvöld við yfirferð tillagna en þingið afgreiddi alls yfir 20 tillögur sem birtar verða á heimasíðu ÍSÍ fljótlega.
Þingforsetar voru Daníel Jakobsson bæjarstjóri á Ísafirði og Steinn Halldórsson starfsmaður ÍBR.


 

Nánar

Stjórnvöld hafa brugðist

Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson,
Mennta og menningamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir,
Formaður UMFÍ, Helga Guðjónsdóttir,
Ágætu Þingmenn, Heiðursfélagar ÍSÍ,
Góðir þingfulltrúar og aðrir gestir,

Ég býð ykkur velkomin til Íþróttaþings.

Við höldum nú Íþróttaþing í annað sinn síðan hrun varð í íslensku efnahagslífi á haustmánuðum 2008.  Þetta hefur verið tímabil fjárhagslegra þrenginga, óvissu og skerðingar ýmissa lífsgæða sem við höfðum fram að þeim tíma talið sjálfsögð.

Íslensk íþróttahreyfing er beinn þolandi þessa ástands - og sú fjárfesting forvarna og mannauðs sem byggst hefur upp á aldarlangri starfsemi hreyfingarinnar hefur laskast.  Á sama tíma er aðdáunarvert að fylgjast með æðruleysi og aðlögun ykkar sem starfa í grasrót íþróttahreyfingarinnar.  Þótt vissulega gæti reiði gagnvart skilningsleysi stjórnvalda hefur hreyfingin einbeitt sér að því að gæta að sínum félagsmönnum - og hlúð að kjarna grasrótarstarfsins.

Hið pýramídalagaða stjórnkerfi íþróttahreyfingarinnar er sá styrkur sem heldur starfseminni saman.  Mikilvægt er fyrir okkur að rjúfa ekki þá samstöðu, og gæta vel að því að þótt við störfum í einum hluta pýramídans þá eru aðrir hlutar hans nauðsynlegir.

Afreksfólkið okkar dregur vagninn sem fyrirmyndir fyrir æsku landsins - og varpar kastljósi athygli á árangur ástundunar skipulegs íþróttastarfs.  En með sama hætti þá falla íþróttastjörnur ekki af himnum ofan - heldur eru þær uppskera umfangsmikils starfs í neðri hluta pýramídans - grasrót hreyfingarinnar.  

Þetta er varhugavert að slíta í sundur - en ógnir steðja að því jafnvægi sem ríkt hefur.  Aukið fjármagn innan atvinnuíþrótta erlendis hefur að nokkru raskað því jafnvægi.  Mikilvægt er að fjármagn skili sér inn í íþróttahreyfinguna, en renni ekki í gegnum hana til hagsmunaaðila sem hafa jafnvel ekki íþróttastarfsemi sem aðalmarkmið.  

Í því samhengi má nefna ólöglega veðmálastarfsemi og viðskiptalegt eignarhald á íþróttafélögum.  Ef ekki verður spyrnt við fótum kunna að opnast dyr fyrir skipulagða glæpastarfsemi - sem gjarnan er fylgifiskur fjármunamyndunar.  Þessi ógn kann að verða til staðar hér á landi sem erlendis ef ekki verður brugðist við.  Við ættum að hafa lært að virða ekki að vettugi blikkandi aðvörunarljós.

Við þurfum að huga að fjárhagslegri ábyrgð með þeim hætti að ungmenna- og uppbyggingarstarf framtíðar verði aldrei veðsett eða skuldsett.  Við megum ekki láta kapphlaup um markaðsstarfsemi leiða til þess að íþróttaeiningar eyði fjármunum umfram tekjur, til útgjalda sem ekki fela í sér virðisauka fyrir íþróttalegt starf.  

En hér er ábyrgð stjórnvalda jafnframt mikil.  Auk þess að veita atbeina sinn að því að spyrna við ólögmætum áhrifum á íþróttastarfsemi er nauðsynlegt að grundvöllur hinnar frjálsu íþróttastarfsemi sé styrktur með þeim hætti að stjórnunareiningar hennar hafi burði til að takast á við þessar ógnir - svo ekki sé minnst á burði til þess að standa undir skipulagningu hins mikla endurgjaldslausa sjálfboðaliðastarfs sem grundvallar forvarnir og grasrótarstarf íþróttahreyfingarinnar.

Hér hafa núverandi stjórnvöld því miður algerlega brugðist.

Þrátt fyrir fjölmarga fundi með stjórnvöldum hafa engar lausnir verið boðnar.  Það skal tekið fram að samskipti við menntamálaráðherra og fjárveitingavald hafa verið afar góð - en nær fullkomlega árangurslaus.  

Auðvitað erum við meðvituð um efnahagsástand og niðurskurð.  En ef litið er til forgangsröðunar innan ráðuneytis íþróttamála þá hefur verið myndarlega bætt í framlög til annarra þátta menningar á sama tíma og framlög ríkisvaldsins til íþróttamála hafa verið skorin inn að beini.  Við munum öll eftir því að í sömu viku og Íþróttaþing var haldið fyrir 2 árum voru framlög til listamannalauna hækkuð myndarlega - þau ein nema nú u.þ.b. helmingi hærri fjárhæð en framlög ríkisins til íþróttahreyfingarinnar á fjárlögum.

Sambærilegur sjóður íþróttahreyfingarinnar - Afrekssjóður ÍSÍ - fær nú 24,7 milljónir á fjárlögum, eða rúmlega 5% af heildarframlögum til listamannalauna.  Hefur sá sjóður rýrnað umtalsvert að verðgildi og er nú innan við helmingur að raunvirði frá því menntamálaráðuneytið gerði síðast samning við ÍSÍ um þann sjóð árið 2003.  Þetta er auðvitað vert að hafa í huga næst þegar við fögnum Evrópu- eða Ólympíumeisturum með íslenska fánann á brjóstinu.

Niðurskurður á hóflegum rekstri skrifstofu ÍSÍ hefur verið mikill - en á sama tíma hafa bæst umtalsverð gjöld á hreyfinguna í formi tryggingargjalds og annarra skattahækkana.  Okkur þykja það ekki góð skilaboð til að grundvalla hið mikla samfélagslega verðmæta starf sem unnið er innan íþróttahreyfingarinnar.  

Okkur þykir það ekki góð fjárfesting að vannýta það starf sem margfaldar hverja krónu sem til þess er lagt.  Það virðist stundum gleymast að menn eru ekki að biðja um framlög í eigin þágu - heldur til þess að eiga þess kost að starfa í endurgjaldslausri samfélagsþjónustu fyrir íslenska þjóð.  Það er vert að hafa það í huga þegar samanburður við aðra þjóðfélagshópa er gerður.

Fjármál ÍSÍ eru rekin af mikilli ábyrgð, og ég fullyrði að hvergi er bruðlað með fé.  Frá efnahagshruni hafa endar náðst saman fyrst og síðast með útsjónarsemi gjaldkera okkar Gunnars Bragasonar og framkvæmdastjóra Líneyju Rutar - og viðeigandi er að halda því til haga að hvergi hafði fé verið ávaxtað af áhættu, og hvergi tapaðist fé vegna fjárfestinga í hruninu.  Nú er hinsvegar svo komið að gengið hefur á eigið fé og kostnaður hefur stóraukist af þátttöku í mótum erlendis vegna óhagstæðrar gengisþróunar.  

Það hefur verið forgangsmál hjá stjórn ÍSÍ þrátt fyrir þetta að reyna að halda úti óbreyttri þjónustu við sambandsaðila - en ljóst má vera að komið er að þolmörkum í þeim efnum.  Því miður mun að óbreyttu þurfa að skerða þá þjónustu, og mun það án efa koma niður á því góða starfi sem unnið er innan ykkar raða, ágætu sambandsaðilar.

Við höfum þegar séð þess merki í formi niðurskurðar slysabótasjóðsins - sem ÍSÍ tók að sér sem þjónustuaðili fyrir ríkisvaldið á sínum tíma - og kom þar með í veg fyrir að þau framlög yrðu lögð niður.  Á sama tíma hefur bæði þörfin fyrir þá þjónustu aukist vegna niðurskurðar annarsstaðar, og  gjaldskrár hækkað.  Það er brýnt að Velferðarráðuneytið komi þeim málum aftur í það horf sem viðunandi er fyrir íþróttahreyfinguna.

Það hefur verið skýr stefna okkar að ráðast ekki á aðra til þess að rökstyðja mikilvægi fjárframlaga til starfseminnar.  Þótt íþróttahreyfingin hafi í sjálfu sér ekki gert annað en að fagna auknum fjárframlögum til lista- og menningarstarfsemi þá hafa á hinn bóginn í vaxandi mæli stigið fram á sjónarsviðið aðilar úr þeim ranni sem hafa viljað stilla íþróttum og listum upp sem andstæðingum þegar kemur að stuðningi hins opinbera.  Þetta tel ég ranga nálgun - alranga - en hef þó talið mér rétt og skylt að verja mína hreyfingu ef á hana er ráðist með þeim hætti.

Íþróttir og listir eru tvær hliðar á sama teningi - menningu þjóðarinnar.  Vilji menn taka samanburð þá skulu menn gera það af fullum heiðarleika og leggja öll spilin á borðið.  Heildarframlög til íþróttahreyfingarinnar nema u.þ.b. 330 milljónum króna á fjárlögum - að meðtöldum framlögum til sérsambanda og ferðakostnaðarsjóðs - en sá liður sem felur í sér listir og menningu í sama ráðuneyti nemur um 6-7 milljörðum króna - sex til sjö þúsund milljónum.  Sá liður hefur frá árinu 2008 hækkað um u.þ.b. 200 milljónir á sama tíma og lækkun framlaga til langstærstu fjöldahreyfingar landsins hefur verið 100 millj.  

Og það sem verra er - stóra súlan vill tína fleiri epli úr garði litlu súlunnar.  Ítrekað hefur verið ráðist að tekjustofnum íþróttahreyfingarinnar sem felast í lottó og getraunum - án þess að stjórnvöld hafi með nokkrum hætti komið fram og varið það brothætta kerfi sem íþrótta- og ungmennafélagshreyfingin býr við.  Þvert á móti liggja fyrir yfirlýsingar innanríkisráðherra um að hann vilji skoða skerðingar okkar tekna í þágu annarrar menningarstarfsemi - stóru súlunnar.

Við rekum hér á kostnað ríkisins landslið í sinfóníutónleik, leiklist, óperuflutningi og listdansi, svo dæmi séu tekin.   Allt glæsileg landslið - og sómi þjóðarinnar á erlendri grundu.  En ég hygg að eitthvað myndi heyrast ef við myndum krefjast þess að landslið okkar t.d. í knattspyrnu og handknattleik færu með sama hætti á launaskrá ríkisins.

Það er nefnilega þannig að það verður ekki fyrr en listastarfsemi verður rekin á sama sjálfboðaliðagrundvelli og íþróttahreyfingin sem unnt er að gera réttmætan samanburð á rekstrarforsendum og ríkisframlögum.  Það vekur raunar upp spurningar hvort við séum á rangri leið - ættum ef til vill að íhuga hvor ríkisrekstur á listastofnunum sé ekki ómur fortíðar, og efla fremur styrki og framlög til frjálsrar áhugalistastarfsemi - sem víða blómstrar á Íslandi.  Þá - og ekki fyrr en þá - er unnt að bera þetta saman við starfsemi íþróttahreyfingarinnar.

Bygging Hörpunnar - glæsilegs tónlistarhúss - er ánægjuefni, og vil ég nota tækifærið og óska unnendum lista og menningar til hamingju með verðugan vettvang.  Ætla mætti að sú ákvörðun að ljúka við 27 milljarða framkvæmd í bullandi niðurskurði fjárlaga myndi  leiða til skilnings þess þjóðfélagshóps sem mun þar iðka sína starfsemi - á því að aðrir sambærilegir geirar menningar muni ekki sæta niðurskurði til að fjármagna þá ákvörðun.

En það virðist öðru nær.  Þessi góða framkvæmd - sem vel að merkja kostar jafn mikið í byggingu og ríkið leggur til allrar íþróttahreyfingarinnar í 80 ár miðað við núverandi framlög - kostar í rekstri a.m.k. þrefalt meira en árlegt framlag til íþróttahreyfingarinnar.

Íþróttahreyfingin tekur ekki afstöðu til stjórnmálalegra skoðana - mikilvægasta stjórnmálamynstur fyrir íþróttahreyfinguna eru ríkjandi stjórnvöld hverju sinni.  Hinsvegar verður núverandi ríkisstjórn að gera upp við sig hvað hún hyggst gera til framtíðar í málefnum íþróttahreyfingarinnar - hvort hún ætli að verða fyrsta ríkisstjórn í lýðveldissögunni til þess beinlínis að stilla sér upp andspænis hinni frjálsu íþróttahreyfingu í landinu.  

Það er raunar kaldhæðnislegt að - auk niðurskurðar og skattahækkana - séu einu áþreifanlegu yfirstandandi aðgerðir ríkisvaldsins gagnvart íþróttahreyfingunni fólgnar í undirbúningi reglna til að þjóðnýta - bótalaust - hugverkaréttindi hreyfingarinnar á grundvelli tilskipunar Evrópusambandsins um útsendingar frá íþróttaviðburðum í ólæstri dagskrá - hugverkaréttindi sem byggð hafa verið upp með margra áratuga langri sjálfboðastarfsemi þess pýramída sem lýst var hér áðan.

Og á hvaða grundvelli skyldi það nú vera gert?  Jú, á þeim forsendum að um sé að ræða viðburði sem taldir eru hafa "verulega þýðingu í þjóðfélaginu" eða "sérstaka menningarlega þýðingu" eins og segir í umræddri tilskipun.  Það var og.  Er virkilega enginn innan ríkisstjórnar Íslands sem kemur auga á mótsögn hér?  Væri ekki nær að stjórnvöld myndu vera sjálfum sér samkvæm og efla framlög til þeirrar starfsemi sem hefur þessa verulegu þýðingu fyrir þegna landsins - starfsemi sem þau vilja nú þjóðnýta með framangreindum hætti.

Mér er ekki kunnugt um að til standi með sama hætti að þjóðnýta hugverkaréttindi okkar frægasta listafólks.  Þvert á móti.  Því hafa ber í huga að ef íþróttaáhugamaður vill fara t.d. á veitingastað og njóta útsendingar íþróttakappleiks þá þarf sá hinn sami fyrst að greiða lögbundið gjald til tónskálda og eigenda flutningsréttar tónlistar áður en hann fær að sjá íþróttaviðburðinn.  STEF gjöld.  Sér virkilega enginn neitt athugavert við þessa þversögn innan þess ráðuneytis sem er í fyrirsvari fyrir báða málaflokka?

Það er hinsvegar laukrétt í þessu samhengi að íþróttir skipa afar stóran sess í hjörtum þjóðarinnar.  Áhorf í sjónvarpi á stóra íþróttaviðburði þar sem íslenskir íþróttamenn etja kappi er fordæmalaust.  Þriðjungur íslensku þjóðarinnar er beint skráður og virkur í íþróttahreyfingunni, annar þriðjungur óbeint virkur í formi almenningsíþrótta og almennrar hreyfingar sem byggst hefur upp fyrir tilstilli grasrótarstarfsins - og segja má með sanni að sá þriðjungur sem eftir stendur fylli flokkinn á tyllidögum þegar afreksfólk okkar kemur heim með medalíur í farteskinu.

Í þeim hópi hafa ekki síst verið kjörnir fulltrúar þjóðarinnar.

Að baki þessu starfi stendur ósérhlífin sveit sjálfboðaliða og stjórnenda sem unnið hefur að uppbyggingu pýramídans í heila öld.  Það er sá efnahagsreikningur mannauðs sem hefur fyrst og síðast fleytt okkur í gegnum efnahagsörðugleikana - það er sú auðlegð sem aldrei verður af okkur tekin með niðurskurðaráformum.

Ég tel raunar nauðsynlegt að við förum að skrásetja þennan mannauð betur - og tel ekkert óeðlilegt við að íþróttafélög vinni að því að gera aðskilin reikningsskil fyrir sinn rekstur, annarsvegar hefðbundin fjármunareikningsskil - en hinsvegar efnahags- og rekstrarreikning þess sjálfboðaliðastarfs sem fram fer innan hvers félags.  Ég hygg að það muni koma mörgum á óvart hversu umfangsmikið það starf er, en þegar hafa verið lögð drög að slíkri skráningu innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Ég vil þakka okkar ágætu félögum í Ungmennafélagi Íslands fyrir gott samstarf á liðnu kjörtímabili.  Helga Guðjónsdóttir hefur veitt samtökunum forystu af miklum glæsibrag og samskiptin verið góð.

Viðvarandi umræða hefur verið innan beggja hreyfinga um samlegðaráhrif af því að auka samstarf - jafnvel með sameiningu - þessara tveggja samtaka, og þá ekki síst í ljósi efnahagslegs niðurskurðar.  Það er í samræmi við aðrar hagræðingaraðgerðir í okkar samfélagi - og má þar meðal annars nefna sameiningu ráðuneyta sem hafa með höndum talsvert ólíkari starfssvið en ÍSÍ og UMFÍ.

Þrátt fyrir farangur fortíðar má segja að starfsemi þessara góðu systursamtaka hafi aldrei legið jafn nærri hvor annarri og nú.  Þótt vissulega heyrist raddir um sameiningu fyrst og fremst á grundvelli hagræðingar og fjárhagslegs sparnaðar þá er þetta í mínum augum fyrst og síðast sóknarfæri til þess að efla starfsemina í þágu okkar aðildarfélaga - sem eru sameiginleg í flestum tilvikum.  Öll aðildarfélög UMFÍ eru jafnframt innan vébanda ÍSÍ.

Má þar auðvitað sem dæmi nefna að bæði samtökin hafa staðið fyrir góðum verkefnum á sviði almenningsíþrótta - raunar jafnvel svo að töluverður ruglingur hefur orðið þar á - og að umfangsmesta starfsemi UMFÍ felst í skipulagningu eins besta einstaka viðburðar fyrir foreldra og ungmenni í íslensku samfélagi nú um stundir - hinu árlega Unglingalandsmóti - sem þegar allt kemur til alls er íþróttamót, sem byggir að stofni til á uppbyggingu og starfsemi sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.  

Það er viðburður sem ég hygg að myndi eflast verulega með sameiningu - og umfram allt með því að gefa öllum Íslendingum kost á að taka þátt sem fullgildum meðlimum - og að öllum sveitarfélögum landsins yrði gert kleyft að gerast mótshaldari á jöfnum forsendum.  Það yrði fyrst Unglingalandsmót fyrir Ísland allt.

Mér er kunnugt um að umræða hefur orðið á vettvangi nokkurra héraðssambanda um þessi mál.  Sú umræða hefur verið málefnaleg og á forsendum viðkomandi íþróttahéraða.  

Ég hef ávallt sagt frá því ég tók fyrst við embætti forseta ÍSÍ að ég myndi ekki sjá fyrir mér þvingun á samruna.  Slíkt veit aldrei á gott.  En meginatriðið er að við megum aldrei gleyma hverja við störfum fyrir - það eru iðkendur og félagar í okkar hreyfingu.  Enginn einstaklingur eða samtök eru svo stór að gangi framar þeim hagsmunum.

Framundan er hundraðasta afmælisár ÍSÍ - en þann 28. janúar næstkomandi er liðin öld frá því að Íþróttasamband Íslands var stofnað á miklum umbrotatímum í íslensku samfélagi.  Níu árum síðar - árið 1921 var Ólympíunefnd Íslands stofnuð - en þessi samtök voru svo sameinuð í Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands árið 1997.

Ráðgert er að halda upp á afmælisárið af glæsibrag, og hafa starfað starfshópar bæði vegna ritunar sögu sambandsins, sem og skipulagningar afmælisársins.  Ég vonast til þess að sem flest ykkar muni njóta þeirra viðburða sem á boðstólum verða.

Nauðsynlegt er að starfsemi jafn fjölbreyttra samtaka og ÍSÍ sé í stöðugri þróun og með skýra sýn til framtíðar.  Á formannafundum undanfarin ár höfum við kynnt fyrir ykkur með skilmerkilegum hætti okkar stefnumótun og framtíðarsýn.

Fyrir þessu þingi hér liggur ennfremur afrakstur umfangsmikillar vinnu hópa sem skipaðir voru í kjölfar síðasta Íþróttaþings - til að ramma inn störf og stefnumarkmið íþróttahreyfingarinnar í formi innra skipulags hreyfingarinnar, og leggja jafnframt drög að ytra skipulagi hreyfingarinnar og íþróttamála á Íslandi til framtíðar.  Vil ég færa formönnum þeirra hópa - Lárusi Blöndal varaforseta og Helgu Steinunni Guðmundsdóttur ritara - sem og þeim fjölmörgu sem þar hafa lagt hönd á plóginn - mínar bestu þakkir.  

Þrátt fyrir gagnrýni og skort á stuðningi frá stjórnvöldum - þá tel ég hér tilefni til þess að færa þakkir til eins fulltrúa íslensks ríksvalds sem ávallt hefur sýnt íþróttahreyfingunni virðingu og stuðning.  Þetta er aðili sem hefur verið ósérhlífinn við að tala máli íslenskrar æsku og íþróttahreyfingar - og man ég vart eftir öðru en að hann hafi brugðist vel við málaleitunum um að þiggja boð til viðburða hjá stórum sem smáum aðilum innan hreyfingarinnar.

Er ég hér að tala um verndara Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands - Forseta Íslands Hr. Ólaf Ragnar Grímsson.  Vil ég færa honum sérstakt þakklæti fyrir öflugan stuðning, og gott samstarf á undanförum árum.

Þá vil ég þakka meðlimum Ólympíufjölskyldunnar - Icelandair, Sjóvá, Valitor og Íslandsbanka - fyrir gott samstarf og endurnýjun samninga á nýafstöðnu kjörtímabili.  Þrátt fyrir erfitt rekstrarumhverfi hafa þessir aðilar ekki hlaupist brott, og hafa staðið með okkur - og eru okkur mikilvægir til að takast á við þau stóru verkefni sem framundan eru, ekki síst Ólympíuleikana í London á næsta ári.

Þá tel ég rétt að færa þakkir til hinnar frábæru liðsheildar sem myndar kjörna framkvæmdastjórn Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.  Þar hefur ríkt mikill einhugur, og eflaust gera fæstir sér grein fyrir því hversu mikið starf þeir einstaklingar inna af hendi.  Eru flest þau störf ekki í sviðsljósinu - en allir stjórnarmenn hafa með höndum ákveðin ábyrgðarsvið og hlutverk innan stjórnskipulagsins.  Allt frábærir einstaklingar með hugsjón fyrir íþróttum - og stuðning við ykkar starfi í grasrótinni.  Það eru forréttindi að fá að koma fram fyrir hönd þessa hóps og vera hluti af honum.  Ég er ánægður með hversu stór hluti liðsins hefur áfram boðið fram krafta sína í þágu hreyfingarinnar - og það traust sem núverandi stjórn hefur verið sýnt af ykkar hálfu.  

Að lokum vil ég færa sérstakar þakkir til Líneyjar Rutar Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ fyrir afar náið og gott samstarf undanfarin ár.  Hið sama má segja um einstaklega þolinmótt og duglegt starfslið hennar á skrifstofu ÍSÍ.  

Viðfangsefnin eru fjölbreytt - og hvort sem menn eru að slökkva elda eða kveikja eldmóð - þá er mannauðurinn ómetanlegur, og viðhorfið jákvætt.  Þið eruð öll að vinna frábært starf - og fyrir það er ég þakklátur.  Ég óska ykkur öllum velfarnaðar í ykkar störfum og hlakka til að eiga við ykkur samstarf á komandi starfstímabili.

Ég segi 70. Íþróttaþing sett.


Ólafur E. Rafnsson

forseti ÍSÍ

Nánar